1. Gellur úr gelluvögnum
Árni Sigfússon segir að besti matur sem hann fái séu gellur í brúnni lauksósu.
„Við Eyjapeyjarnir smíðuðum sérstaka gelluvagna, eða sérlega útfærða kassabíla, skárum gellur af þorskhausunum áður er þeir fóru í bræðslu og drógum svo gelluvagninn á milli húsa og seldum ferskar gellur. Þetta gaf ágætis vasapening og afgangurinn, sem ekki seldist, var að sjálfsögðu eldaður heima.
Uppáhaldsuppskriftin var frá mömmu – að dýfa gellunum í þeytt egg með mjólk, velta upp úr hveiti, krydduðu með salti og pipar, setja á smjörlegna steikarpönnu með söxuðum lauk og steikja báðar hliðar. Hella síðan sjóðandi vatni í botn pönnunnar, bæta í einum pakkateningi af kjötkrafti og leyfa þessu að malla í 15 mínútur.
Þá var hrærð smá sósa, eða hveitijafningur, út í (smá hveiti með vatni hrist saman) – eða Maizena-blanda fyrir dökka sósu notuð ef þurfti að þykkja sósuna. Þetta er besta fæða sem hugsast getur …
Athugasemdir