Í tvígang hefur nafn Rithöfundasambands Íslands blandast inn í aðför að frelsi mínu, á tæpum fjórum árum. Í fyrra skiptið var það árið 2014, eftir kjallaragrein sem ég skrifaði Í DV, en þar sagði ég frá aðalfundi RSÍ árið 2012, en á þeim fundi gagnrýndi ég formann þess, Kristínu Steinsdóttur, harkalega fyrir að vera á 12 mánaða starfslaunum, auk 6 mánaða launum fyrir formannsstarfið, sagði að það væri algjörlega siðlaust. Það fór allt upp í loft á fundinum. Það hafði ekki gerst áður í sögu RSÍ að sjálfur formaðurinn væri tekinn harkalega á beinið. Í þessari DV grein voru líka íronískar lýsingar mínar á ræðu formannsins, sem að mestu snerist um bókamessuna í Þýskalandi árið áður, en þar var Ísland í heiðurssæti. Formaðurinn fór með hástemmdar lýsingar á kokteilpartíi sem var boðið til – og skáldjöfrum þeim sem í partíið mættu. Sannast sagna þá lak snobbið af nefbroddi formannsins þegar hún lýsti þessu samkvæmi, hvernig þetta eða hitt stórskáldið hefði komið henni fyrir sjónir. Mér hefur verið sagt að formanninum hafi sviðið mjög undan greininni og haft samband við bróður sinn, Stefán Steinsson, sem er geðlæknir á Akureyri, og beðið hann um að ganga í málið; að hlutast til um að eitthvað yrði gert varðandi geðsjúklinginn Bjarna Bernharð, sem væri að ofsækja hana. Að hún hafi logið því blákalt að bróður sínum að ég sæti um hana dag og nótt fyrir utan heimili hennar – og hún óttaðist mjög um líf sitt. Að Kristín hafi beðið bróður sinn að sjá svo um að ráðstafanir yrðu gerðar, svo hún þyrfti ekki að óttast árás af minni hálfu. Og bróðir hennar, geðlæknirinn, hafi haft samband við forstjóra Landspítalans, Pál Matthíasson, sem jafnfram var yfirmaður geðsviðs og krafist þess að hagir mínir yrðu kannaðir, í ljósi ábendinga systur sinnar. Forstjóri Landspítalans sneri sér til yfirlæknisins á réttargeðdeildinni á Kleppi, Sigurðar Páls, þar sem um væri að ræða fyrrverandi skjólstæðing réttargeðdeildarinnar á Sogni, málið væri því í hans lögsögu, og fól honum að grípa til viðeigandi ráðstafana. Réttargeðlæknirinn, sem er maður grandvar, var mjög tvístígandi um til hvaða gera skyldi í málinu, en að lokum hafði hann samband við minn gamla geðlækni X og útskýrði fyrir honum alla málavexti, en spurði síðan hvað hann teldi réttast að gera í þessu erfiða máli. Minn fyrrverandi geðlæknir og vinur bað Sigurð Pál fyrir alla muni að slaka á – og láta skáldið í friði. Þetta væri stormur í vatnsglasi. Þar með lauk þessum skrípaleik sem formaður Rithöfundasambands Íslands hóf og þrír geðlæknar blönduðust inn í. Samkvæmt þessu má ég þakka fyrir, að ekki fór ver, þakka mínu sæla fyrir, að verða ekki fórnarlamb paranoju formanns Rithöfundasambandsins.
Ég vil taka fram, til að leiðrétta allar ranghugmyndir um mína persónulegu hagi, að líf mitt er í föstum skorðum, og hefur verið það í áratug. Það eru ákveðin grunngildi sem ég fylgi, sem snýr að mataræði, hvíld og hreinlæti. Þá nota ég hvorki áfengi eða fíkniefni. Líkamlega er ég við mjög góða heilsu, fer í læknisrannsókn ár hvert. Andlega heilsa mín er eins og best verður á kosið. Þá er það er álit tveggja gæðlækna að það hafi gerst með mig, sem er afar sjaldgægt, að ég hafi læknast af geðklofasjúkdómi þeim sem hrjáði mig um árabil.
Seinni aðförin að mér, þar sem nafn Rithöfundasambandsins kemur við sögu, var í byrjun júnimánaðar árið 2017. Þennan morgunn var við vinnu á málaravinnustofu minni, að vinna í málverki, en á döfinni var sýning í galleríi Sambands íslenskra myndlistamanna, (en ég er félagi í SÍM) um mánaðarmót júní og júlí.
Þá heyri ég að dyrjöllunni er hringt og fer til dyra. Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar og einn borgaralegaklæddur maður, sem kynnir sig sem borgarlæknir. Ég spyr hvað þeim sé á höndum og borgarlæknir spyr á móti hvort þeir megi koma innfyrir og ræða við mig ákveðið mál. Það þykknaði örlítið í mér við þessa beiðni og svaraði, að því miður væri mér ekki ljúft að að hleypa þeim inn í húsið, en ef þeir ættum við mig eitthvert erindi, gætu þeir alveg eins gert grein fyrir því á dyrapallinum. Borgarlæknir spurði þá hvort ég væri tilbúinn að koma til viðtals á geðdeild Landsspítalans. Ég vissi satt að segja ekki hvaðan á mig stóð veðrið og svaraði borgarlækni að það væri mér síður en svo ljúft – og í raun hafnaði ég því með öllu. Þá benti borgarlæknir mér á að í fylgd með honum væru tveir lögregluþjónar, og gaf í skyn að ef ég kæmi ekki með fúsum og frjálsum vilja yrði ég færður með valdi í viðtalið. Þá nennti ég þessu ekki lengur og bað þá að hinkra við meðan ég sækti yfirhöfn og slökkti ljósin í íbúðinni. Hafði ég varla sleppt orðinu en annar lögregluþjónanna ruddist innfyrir dyrnar og sagðist myndi bíða þar meðan ég kláraði mig af í íbúðinni. Þegar ég kom aftur í anddyrið var gerð á mér vopnaleit og síðan fylgt í lögreglubíl sem stóð í götunni. Ég veitti því athygli að fyrir aftan bílinn stóð annar lögreglubíll, fullur af lögreglumönnum, og spurði hverju það sætti, en fékk engin svör. Þó var mér ljóst að um liðsauka var að ræða, viðbúnaðarstig, ef ég myndi veita mótspyrnu. Þegar á bráðageðdeils 32 C kom var mér fylgt til herbergis, og sagt að það yrði mín ívera meðan á dvöl minni stæði. Fóru þá að renna á mig tvær grímur, varð mér ljóst að ekki var aðeins um ræða viðtal við geðlækni, heldur átti að vista mig á bráðageðdeild. Mér var sagt að geðlæknir kæmi inna fárra mínúntna og myndi talaði við mig . Ekki hafði ég beðið lengi þegar geðlæknirinn D birtist. Hún ræddi við mig í cirka hálftíma, spurði um hagi mína o.s.frv. og gaf ég henni greinagóð svör. Að viðtalinu loknu sagði hún við mig. „Bjarni, ég sé ekkert athugavert við þig, mér virðist þú vera í fullkomlega andlegu jafnvægi, en ég ætla samt að biðja þig um að vera hjá okkur í einn sólarhring – ertu sattur við það“? Ég svaraði henni að ég væri alls ekki sáttur við þá hugmynd. Þá svaraði hún, að það skipti engu máli, ég yrði vistaður í sólargring, hvort sem mér líkaði betur eða ver. Seinna um daginn hringdi D í minn gamla geðlækni X, sem hvatti hann hana eindregið til að sleppa mér strax – þessi nauðungarvistun mín kynni ekki góðru lukku að stýra.
Bráðageðdeild 32C, sem er ætluð fólki í geðrofsástandi, kom mér fyrir sjónir, þessa 72 tíma sem ég var nauðungavistaður, sem mjög erfið deild. Þarna inni var fársjúkt fólk sem æddi um gangana í maníukasti, daginn út og daginn inn. Mér var ljóst, sem ég reyndar vissi fyrir, að geðlæknar geðsviðs Landspítalans voru ekki starfi sínu vaxnir.
Sólarhringurinn leið og bjóst ég fastlega við að veru minni á þessum nöturlegu deild væri lokið. En þá gerðist hið óvænta, annar geðlæknir, A, kom eins og stormsveipur inn í málið. Mér var gert að koma í viðtal í sjónvarpsstofunni. Og þar voru þær báðar fyrir, stöllurna, D og A. Hófust nú harneskjuleg viðtöl þar sem A var einkar svæsin í sinni taktik. Var mér borið á brýn að hafa verið með ofbeldishótanir á lokaðri síðu Rithöfundasambands Íslands þegar ég skrifaði inn á síðuna: „Aðalfundur RSÍ í næstu viku. Skal ek láta orðsveðju mína hvína yfir stjórnarhausum“? Ég benti læknunum á að í þessum skrifum mínum fælist engin ofbeldishótun, heldur væri um líkingarmál að ræða, en ég hafi verið að hugleiða hvort ég ætti að skrifa skammarræðu og flytja á fundinum. A sagði þá að það væri rétt að um líkingarmál væri að ræða undir venjulegum kringumstæðum, en í frá mér komið, væri það ofbeldishótun. Þá spurði ég hana með hvað rétti mér væri haldið á þessari bráðageðdeild, – ég væri maður andlega heill. Hún svarði þá að ég ætti mér sögu fortíðar sem réttlætti nauðungavistun, engu máli skipti hvort ég væri andlega heill eða ekki. Þá spurði ég hana hvort hún ætlaði virkilega að standa á því, að atvik úr fortíð minni, hverju nafni sem það nefndist, rýrði minn stjórnarskrárvarða borgaralega rétt . Hún endurtók að geðsviðið væri í fullum rétti. Þá spurði ég hana hvort leitað hefði verið álits lögfræðinga spítalans um það hvort heimilt væri að nauðungavista andlega heilbrigðan mann. Hún sagði að það hefði verið gert, og lögfræðingarnir hefðu stafest að geðsviðið væri í fullum rétti. Ég sagði henni þá að ég myndi leita réttar míns fyrir dómstólum. Hún svaraði á móti að það skyldi ég bara gera, ef ég hefði efni á lögfræðingi. Ég svaraði henni að ekki yrðu nein vandræði að borga lögfræðikostnaðinn, ég væri mjög hæfur myndlistarmaður og gæti greitt með málverkum. Þá benti A mér á að ég hefði skrifað 52. færslur á Facebook á fimm dögum, sem væri mjög óheilbrigt. Ég svaraði því að sem atvinnurithöfundur væri mér það leikur einn að skrifa svo margar færslur á fimm dögum, en reyndar hefðu margar af þessum færslum mínum verið aðeins ein eða tvær línur. Á þessum nótum var þetta viðtal. A gerði árásir á mig, en D hélt sér til hlés. Undir lokin spurði A hvernig ég upplifði mig andlega heilbrigði. Ég svaraði henni að ég væri alveg jafn andlega heilbrigður og hún sjálf. Þegar viðtalinu lauk ,án þess að hin meinta geðveilu mín kæmi í leitirnar, var greinilegt að A var á brúninni að missa stjórn á skapi sínu. Hún spratt uppúr stólnum og hreytti reiðilega í mig, að ég yrði nauðungavistaður í 72. klukkustundir.
Næsta morgun fór fram annað viðtal, allt á sömu nótum. A saumaði að mér á allan hugsanlega hátt, og verð ég að segja að framkoma hennar í þessum viðtölum var mjög gróf og ófagmannleg. Lyfjamál mín voru til umræðu, en ég nota 1/3 af venjulegum skammti af geðlyfi, en það nota ég meira til að fínstilla hugann, heldur en sem vörn við geðrofi. Ég hef mjög háar náttúrulegar gæðhæðir, sem eiga þó ekkert skylt við geðsjókdóma. A fullyrti að ég svikist um að taka lyfin og lagði til forðasprautur – jafnframt því að skammturinn yrði aukinn. Ég mótmælt fullyrðingu hennar um að ég svikist um að nota lyfin, sagði að ég væri í því sem öðru, strangheiðarlegur gagnvart sjálfum mér – og góð regla væri á lyfjunum. Þá sagði ég henni að ég væri alltaf tílbúinn að ræða lyfjamálin við réttan aðili, en ekki hana. Þá sagðist A greina hjá mér skapofsa og parnoju. Ég svaraði henni að viðbrögð mín væru mjög eðlileg. Það væri verið að brjóta á mér og ég væri aðeins að verja mig, og hvað paranojueinkennum mínum viðvék þá væri um að ræða létta borgaralega paranoju sem raunar hver einasti maður veraldar væri haldinn, einkenni sem teldust vera mjög heilbrigð varnarviðbrögð. A sagði að það væri að nokkru leyti rétt hjá mér, en hún væri menntaður geðlæknir og vissi betur um þessa hluti en ég. Ég svaraði henni, hvössum rómi, að ég gæfi skít í hennar geðlæknamenntun – hún yrði að vera „manneskja“ til að geta talist hæfur geðlæknir! Undir lokin á viðtalinu kom uppástunga frá þeim stöllum, hvort ég væri fús að leggjast inn á opna deild, í tíu daga. Ég myndi njóta mikils frjálsræðis í hópi mun heilbrigðari einstaklinga en á 32C og fengi að skreppa heim að vild. Ég vissi strax hvað klukkan sló með þessu boði. Það átti að reyna að ónýta fyrir mér málið. Ef ég hefði fallist á boð þeirra og lagst á opna deild, hefði ég um leið verið að kvitta fyrir að ég væri veikur fyrir, andlega, og þarfnaðist aðhlynningar. Þá hefði verið útilokað fyrir mig að vinna nauðungarvistunarmálið fyrir dómstólum. En ég lét sem ekkert væri og svaraði þeim að ég vildi hugsa um þetta boð þeirra í einhvern tíma, en í öllu falli gæfi ég svar morguninn sem vistun minni á 32C lyki. Ég held að D hafi ekki liðið vel í þessum viðtölum, að henni hafi orðið fljótlega ljóst að geðsviðið hafði hlaupið illa á sig, með nauðungavistun minni, en hún fengi litlu ráðið vegna ofsa A. Mín aðkoma að þessum viðtölum var hrein og klár. Ég var rökfastur í máli og varðist fimlega öllum aðdróttunum um persónu mína og hugsanlegar geðveilur. Það var greinilegt að A blóðlangaði að negla mig – en fékk því komið við. Um D vil ég segja, að hún er meiri manneskja og hæfari læknir en A, enda hafði ég allan tíman hálfpartinn samúð með henni – fyrir að hafa flækst inn í þessa endemis vitleysu.
„Hvernig eigum við að mýkja þennan harða mann í þér, Bjarni Bernharður“
Síðasti morguninn á deildinni rann upp. D bað mig um að ræða við sig í heimsóknarherberginu. Nú var andrúmsloftið allt annað, enda A fjarri. D sýndi mér fulla kurteisi og ég fann að hún var dauðfegin að þessu rugli væri að ljúka. Hún spurði mig hvort ég hefði hugsað þetta með opnu deildina. Ég kvað svo vera, en því miður vegna mikilla anna við undirbúning málverkasýningar minnar, gæti ég ekki þekkst annars ágætt boð – mér þætti það miður. Áður en hún kvaddi mig spurði hún mig spurningar: „Hvernig eigum við að mýkja þennan harða mann í þér, Bjarni Bernharður“? Ég vissi ekki hverju ég átti að svara, en umlaði eitthvað um ást og kærleika. Svo sagði ég henni að ég myndi gefa henni og A árituð eintök af bókinni um lífshlaup mitt, Hin hálu þrep. Ég væri mjög áhugaverð persóna sem vert væri að kynnast, en það væri mögulegt að einhverju leyti með lestri bókarinnar, en auk þess yrðu þær við lesturinn margs vísari um geðfræðina, margs sem þær vissu ekki fyrir. Þá fengi bókasafn deildarinnar fimm eintök af bókinni.
Ég borðaði hádegismat á deildinni og var síðan fylgt af geðhjúkrunarfræðingi að sækja yfirhöfn mína. Á leiðinni að dyrunum sagði þessi kona við mig: Bjarni, okkur þykir þetta ákaflega leitt, geturðu fyrirgefið okkur. Ég tók í hendina á henni, leiddi hana síðasta spölin að dyrunum, og sagði: Elskan mín, ég er búinn að fyrirgefa ykkur.
Þetta var á föstudegi sem ég slapp úr prísundinni. D hafa beðið mig að koma á stofu til sín á miðvikudegi vikuna eftir, sem ég féllst fúslega á að gera. Þegar ég mætti svo á stofuna til hennar, áttum vð saman þægilegt spjall, en svo birtist Sigurður Páll, yfirlæknir á réttargeðdeildinni á Kleppi og tók þátt í umræðunni . Það varð það að samkomulagi okkar Sigurðar að ég kæmi vikuna eftir í viðtal til hans á göngudeiuldina á Kleppi. Þá tilkynnti Sigurður mér að hann sæi enga ástæðu til að gera lyfjabreytingar, sér virtist sem lyfin sem ég notaði færu ákaflega vel í mig. Ég mætti til Sigurðar Páls eins ráð hafi verið fyrir gert, og ræddu við saman í klukkutíma. Ég vil taka fram að ég ber mjög góðan þokka til Sigurðra Páls, tel hann vera mann vandaðan og prýðis góðum gáfum gæddan. Alls urðu þetta fjögur viðtöl sem ég fór í, til Sigurðar, en við urðum ásáttir um að ekki væri nein þörf fleiri viðtölum. Meðal annar kom fram í viðtölunum að honum hefði verið alls ókunnugt um um nauðungavistun mína, að það hefði verið fyrst eftir að vistuninni lauk, að honum bárust upplýsingar um málið. Hvers vegna þessu var haldið leyndu fyrir Sigurði Páli má geta sér þess til, að það hafi verið ásetningur geðsviðsins að halda mér í 72. klst. Nú segir í dómsorði Héraðsdóms Suðurlanda frá árinu 1997, þegar ég fékk lausn frá Sogni, að öll mín mál er snúa að minni geðrænu heilsu skuli heyra undir yfirlæknir Réttargeðdeildarinnar. Því er ljóst að geðsvið Landsspítalan hafði enga lögsögu í mínum málum, að það hafði enga heimild til afskipta af mér. Ef beiðni um að kanna mína hagi hefði komið inn á borð Sigurðar Páls, þá hefði hann brugðist við á allt annan hátt en geðsviðið. Hann hefði vísast hringt í X, minn gamla geðlækni, og borið málið undir hann. Það hefði farið á sama veg og árið 2014, að X hefði ráðlagt honum að láta kyrrt liggja. Og þar liggur hundurinn grafinn. Það átti að varast að það sama (og árið 2014) endurtæki sig. Það verður kannski aldrei fullsannað, en svo virðist að trúnaðarsamtal hafi átt sér stað á milli M yfirlæknis bráðageðdeildar 32C og aðila innan Rithöfundasambandsins, um að einn félagi innan RSÍ hefði haft í hótunum á lokaðri Facebokksíðu Rithöfundasambanfsins, og brýnt væri að komið yrði á hann böndum og hann nauðungavistaður fram yfir aðalfund – að fundamenn yrðu í bráðri lífshættu ef hann sæti fundinn. Þetta gekk upp. Aðalfundur RSÍ fór fram – án minnar viðveru, í friði og spekt. Þetta laumuspil M, að halda Sigurði Páli utan við málið, sýnst því hafa verið þjónkun hennar við Rithöfundasambabnd Íslands.
Þegar ég leitaði eftir því hjá Sigurði Páli hvort honum væri kunnug um hver væru rökin sem geðsviðið beitti fyrir sér í hinni harkalegu aðgerð gegn mér. Hann sagði mér að Landlæknir hefði, í kjölfars dráps lögrelunnar á geðsjúkum manni í Árbænum, tekið lækna geðsviðsins inná teppið og ávítt þá harðlega fyrir handvöm í starfi, að hafa ekki brugðist við tímanlega – þegar ljóst var að umræddur maður var fársjúkur. Þann harmleik hafi læknar geðsviðsins haft sér sem víti til varnaðar, varðandi mig, að skárra væri að fara fyrr af stað, heldur en of seint. Þetta var auðvitað fáránlega hugsað af læknunum, að halda að þeim væri heimilt að fjarlæga andlega heilbrigðan borgara af heimili sínu og nauðungavista, vegna hugsanlegs geðrofs. En Sigurður Páll sagði mér að greiningin „grunur um undirliggjandi geðrof“ hefði verið aðalhvati aðfararinnar að mér. Það má sjá spaugilega hlið ná þessum pælingum læknanna um undirliggjandi geðrof mitt. Að þeir hafi verið í sporum eldfjallafræðinga og merktu kvikustreymi í sálarlífi mínu, og vænta mætti umbrota í geðheimi mínum, frekar fyrr en seinna. Í síðasta viðtalinu spurði ég Sigurð hver væri hans geðgreining á mér, eftir þessi kynni okkar. Hann sagði að auðvitað væri ekki hægt að gera fullkomna greiningu af aðeins fjórum viðtölum, en samt sem áður væri það hans skyndigreining, að ekki væri hægt að merkja hjá mér geðsjúkdóm – og að líkindum hefði aldrei verið um neinn geðsjúkdóm að ræða.
„Þetta fólk, sem var í því erfiða starfi að annast mjög veika einstaklinga, sýndi af sér mikla hæfni.“
Svo ég víki aftur að veru minni í 72. klst. á bráðageðdeild 32 C þá voru kynni mín af starfsfólkinu mjög jákvæð, þótt læknarnir væru gjörsamlega út á túni. Þetta fólk, sem var í því erfiða starfi að annast mjög veika einstaklinga, sýndi af sér mikla hæfni. Það kom fram við mig af kurteisi og virðingu og því varð strax ljóst að ekki væri allt með felldu með nauðungavistun mína. Til dæmis gaf einn starfsmaður sig á tal við mig, árla morguns, annars dags vistunnar minnar, og bað mig afsökunar fyrir hönd starfsfólksins, að hafa orðið fyrir því mikla ranglæti að vera sviptur frelsi mínu, andlega heill. Ég hafði engin samskipti við sjúklingana, sá engan tilgang í því að taka upp samræður við fársjúkt fólk. Á öðrum degi gerði ég lögfræðingi mínum viðvart um veru mína á deildinni og ráðfærði mig við hann um framhaldið. Þann sama dag kom fulltrúi frá dómsmálaráðuneytinu, ung kona, til að kynna mér hver væru réttindi nauðungavistað einstaklings. Þegar hún ætlaði að fara að romsa uppúr sér réttundum mínum, bað ég hana blessaða að láta það eiga sig – ég þyrfti að greina henni frá stöðu minni. Og þegar hún hafði hlýtt á mál mitt bauðst hún til að fara í Héraðsdóm með beiðni um að mál mitt yrði tekið fyrir daginn eftir, þar sem farið yrði fram á að nauðungavistunni yrði hnekkt. Í hádeginu á fimmtudegi var málið dómtekið. Dómari las málskjöl frá lögfræðingi Landsspítalans, þar sem gert var grein fyrir öllum tildrögum málsins. Þar næst var komið að símavitnum. D var sjálfri sér samkvæm, vitnisburðurinn að mestu hnökralaus, en það sama verður ekki sagt um vitnisburð A, sem vægast sagt var mér óvilhallur. Og kostulegt fannst mér að heyra þegar hún kvakaði í monitorinn hjá dómaranum: „Svo segist hann vera jafn andlega heilbrigður og ég“. Þessi vitnisburður hennar átti að vera endanleg sönnun þess hversu arfageðveikur ég væri. X bar líka símavitni, en hann var lasinn þennan dag og gat lítið beitt sér. Ég fékk tækifæri til að taka til máls, og fórst mér það prýðisvel. Þá flutti lögfræðingur minn varnarræðu og síðan var dómi slitið. Dómsorðið kom svo síðla dags og var það eins og ég hafði búist við, geðsviðinu í hag.
Ég gerði alvöru úr hótun minni um málssókn á hendur ríkinu vegna ólögmætrar frelsissviptingar, en það kveður skýr á um það í íslenskum lögum að hvorki má fangelsa eða nauðungavista mann fyrir það sem hann segir eða skrifar. Lögfræðingur minn undirbjó málið af kostgæfni, þar sem farið er fram á skaðabætur. Málið liggur núna hjá ríkislögmanni, annað hvort til samþykkis á kröfunni eða til synjunar. Ef ríkislögmaður synjar bótakröfunni fer málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í vor.
Athugasemdir