Fjöldauppsagnir standa yfir hjá prentsmiðjunni Odda þessa dagana vegna ákvörðunar um að hætta framleiðslu í verksmiðjunum Plastprenti og Kassagerðinni.
Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Odda munu 86 störf leggjast af vegna breytinganna. „Við lögun starfseminnar að breyttum aðstæðum leggjast af 83 störf við framleiðslu og afleidd störf og fækkað verður um þrjá í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Stjórn og stjórnendum Odda þykir leitt að sjá á eftir því góða og reynslumikla starfsfólki sem nú skilur við fyrirtækið vegna þess og lögð verður áhersla á að veita því stuðning og aðstoð við næstu skref með virðingu fyrir hverjum einstaklingi í huga,“ segir í tilkynningunni sem fjölmiðlum barst áðan.
Fram kemur að neikvæða þróun á starfsumhverfi íslenskra framleiðslufyrirtækja á borð við Odda megi rekja til þess að sterkt gengi íslensku krónunnar og launahækkanir langt umfram það sem þekkist í samkeppnislöndum hafi veikt mjög samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu.
Athugasemdir