Biskup Íslands, sem hefur fengið um hálfa milljón króna í launahækkun síðasta áratuginn, segir nýlega hækkun kjararáðs á launum biskups vera „tólf ára kyrrstöðu að undanskilinni kjaraskerðingu hjá prestastéttinni á árinu 2009“.
Þetta kemur fram í stuttlegum viðbrögðum Agnesar Sigurðardóttur biskups við gagnrýni á 270 þúsund króna afturvirka launahækkun henni til handa, sem kjararáð ákvað um helgina. Með hækkuninni afturvirkt til 1. janúar á þessu ári fær Agnes hátt í 3,3 milljónir króna í eingreiðslu.
Biskup segir í yfirlýsingu sinni að hún vilji „að gefnu tilefni áétta að það er ekki í hans verkahring að tjá sig efnislega um niðurstöðuna“.
„Kyrrstaða“
Biskup Íslands fékk 648.757 krónur í grunnlaun á mánuði í júní 2007, eins og sjá má á úrskurði kjararáðs það ár. Til viðbótar komu 34 yfirvinnustundir á 5.462 króna tímalaunum. Samtals voru laun biskups því 834.465 krónur. Með hækkun kjararáðs nú færist biskup upp í 1.170.443 krónur í grunnlaun og fær þar að auki greidda 40 yfirvinnutíma, samtals 382.880 krónur.
Þannig hafa mánaðarlaun biskups farið úr 834 þúsund krónum í 1,55 milljónir króna á sama tímabili og biskup segir að „kyrrstaða“ hafi verið. Þess ber hins vegar að geta að 834 þúsund krónur á verðlagi ársins 2007 jafngilda rúmlega 1,35 milljónum króna og því er raunhækkun launa á tímabilinu um 200 þúsund krónur á mánuði.
Laun biskups hafa þróast með sambærilegum hætti og almenn launavísitala. Þau hafa hækkað um 86,2 prósent á tíu árum, en almennar launahækkanir eru 85,7 prósent á sama tímabili. Þess ber þó að geta að í krónum talið vegur prósentuhækkun mun meira hjá biskup en öðrum, þar sem launamaður með 500 þúsund króna tekjur fær 50 þúsund króna hækkun ef hún er 10 prósent en biskup fengi ríflega 150 þúsund krónur út úr 10 prósent hækkun héðan af.
Skrifaði bréf til kjararáðs
Launahækkun til handa biskup kemur í kjölfar þess að hún sendi kjararáði bréf. „Í bréfinu er þess óskað að kjararáð endurmeti launakjör biskups Íslands með hliðsjón af ábyrgð og umfangi embættisins,“ segir í úrskurði kjararáðs.
Þar kemur fram að biskup hafi ríkar skyldur sem helst eigi sér hliðstæður í störfum forsætisráðherra og forseta. „Margvíslegar opinberar skyldur, hérlendis og erlendis, felist í því að vera leiðtogi og fyrirsvarsmaður hinnar stjórnarskrárbundnu, evangelisku lútersku þjóðkirkju. Megi þar helst til samanburðar nefna ýmsar þær opinberu skyldur sem hvíli á forseta Íslands og forsætisráðherra.“
Í ákvörðun kjararáðs var horft til þess að „ gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður, og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.“
Þá vekur athygli að grunnlaun biskups hafa nú verið hækkuð lítillega yfir þingfararkaup Alþingismanna, sem kjararáð hækkaði um 44 prósent í einni hendingu á kjördag, 29. október 2016. Því er ljóst að kjararáð hefur með ákvörðunum sínum raskað innbyrðis samræmi, sem það vegur nú upp með hækkun á launum biskups.
Yfirlýsing biskups
Í framhaldi af úrskurði Kjararáðs um launakjör í prestastétt vill biskup Íslands að gefnu tilefni árétta að það er ekki í hans verkahring að tjá sig efnislega um niðurstöðuna. Eðlilegt er þó að benda á að um er að ræða kerfisbreytingar og launaleiðréttingar eftir tólf ára kyrrstöðu að undanskilinni kjaraskerðingu hjá prestastéttinni á árinu 2009.
Prestafélag Íslands lagði mikla vinnu í að gera kjararáði grein fyrir starfsumhverfi og starfsskyldum presta og biskupa. Á meðal þeirra gagna sem lögð voru fram var lýsing á daglegum verkefnum biskups Íslands sem hann vann að beiðni félagsins. Niðurstaða ítarlegrar skoðunar og endurmats kjararáðs á starfskjörum biskupa og presta liggur nú fyrir og þarf ekki að koma á óvart að ástæða hafi þótt til ýmissa breytinga og leiðréttinga. Að öðru leyti mun biskup Íslands ekki tjá sig um niðurstöðurnar né svara fyrirspurnum um persónulega afstöðu sína til þeirra.
Athugasemdir