Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Húmor og beiskja bæjarstjórans

Ævi­saga Gunn­ars Birg­is­son­ar ein­kenn­ist af því að vera ein­stak­lega ill­yrt á köfl­um. En húm­or­inn er líka til stað­ar.

Húmor og beiskja bæjarstjórans
Bókin Forsíðumyndin lýsir húmor og einlægni. Hið síðarnefnda skortir þó að mestu.

Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri og verktaki í Kópavogi, er enginn venjulegur maður. Hann hefur í lífi sínu og starfi farið ótroðnar slóðir og gjarnan náð hæstu metorðum. Hann stýrði öflugu verktakafyrirtæki lengi og sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn auk þess að vera bæjarstjóri í Kópavogi. Hann er einna þekktastur fyrir það starf. Slagorð hans, það er gott að búa í Kópavogi, er fyrir löngu landsþekkt. Gunnar stýrði Kópavogsbæ í mikilli uppbyggingu ásamt framsóknarmanninum Sigurði Geirdal um árabil. Ákveðinn ljómi lék um hann á fyrri hluta valdaskeiðsins. Hann var sterki maðurinn. En svo hallaði á ógæfuhliðina. Fréttir voru sagðar af frændhygli bæjarstjórans og ýmsum sporðakostum sem ekki þóttu sæma opinberri persónu. Gunnar varð þekktur fyrir heimsóknir á nektarstaðinn Goldfinger og vinátta hans og eigandans var rómuð. Sá sterki fékk smám saman á sig ímynd þess spillta og hrökklaðist á endanum af bæjarstjórastóli og úr Kópavogi.  

Annálaður sögumaður

Það er vel til fundið að skrifa ævisögu svo áberandi og litríks manns. Orri Páll Ormarsson blaðamaður tók að sér verkið. Margt skemmtilegt og fræðandi er að finna í bókinni, enda er Gunnar annálaður sögumaður. Sögupersónan lætur gamminn geisa og skrásetjarinn slær inn texta, gagnrýnislaust.

Skemmtilegasti hluti bókarinnar fjallar um það tímabil þegar Gunnar sat á þingi. Hann segir sögur af sér og Davíð Oddssyni, þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Davíð fékk Gunnar til að fara fram með frumvarp um að leyfa hnefaleika á Íslandi. Gunnar varð þekktur fyrir þá baráttu. Þegar Davíð varð gerður afturreka af forsetanum með fjölmiðlalögin frægu segist Gunnar hafa varað hann við því að fara strax aftur fram með frumvarp af þeim toga. Lýsir hann því þannig að þingflokkurinn hafi sagt „já og amen, nema ég“. Og „Davíð brjálaðist gjörsamlega og veittist að mér með þvílíkum skömmum og óþverra að ég hef aldrei heyrt annað eins,“ segir Gunnar og kveðst hafa svarað Davíð fullum hálsi. Hann gortar af því að hafa verið einn af fáum sem þorðu að standa uppi í hárinu á Davíð.

Davíð OddssonGunnar segist hafa verið óhræddur við leiðtogann sem margir óttuðust.

Úrsagnarbréf Einars Odds

Góð vinátta var á milli Gunnars og Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns. Eitt sinn var Einari ofboðið vegna framgöngu Sjálfstæðisflokksins í kvótamálum smábáta og ákvað að segja sig úr þingflokknum. Hann fór með bréf til Vilhjálms Egilssonar þingflokksformanns sem hringdi í ofboði í Davíð og bað hann að koma strax. „Einar Oddur er að segja sig úr þingflokknum …,“ sagði Vilhjálmur og Davíð brá skjótt við og mætti ásamt Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Gunnar segir að orðið hafi „helvítis hávaði“. Davíð tilkynnti loks að kvóta smábáta ætti að auka og Árni kyngdi þeirri skipun. Einar hætti við úrsögnina. Í framhaldinu bauð Davíð öllum í mat. Einhver sá fyrir sér steik og rauðvín en Davíð stormaði með félagana að pylsuvagninum og bauð upp á „tvær á kjaft“.

Bjarni BenediktssonGunnar segist hafa lagt grunninn að frama hans.

Í þessum hluta bókarinnar kemur fram að Gunnar hafi tryggt Bjarna Benediktssyni pólitíska framtíð sem formaður með því að taka hann upp á arma sína. „Kemur karlinn með strákinn,“ var viðkvæðið þegar Gunnar fór með Bjarna á milli fyrirtækja. Þessi hluti bókarinnar einkennist af frásagnargleði og bráðskemmtilegu karlagrobbi. Þó vottar fyrir sársauka þar sem hann segir frá því að hafa ekki fengið ráðherrastól.

„Kvikindin"

Biturðin er skammt undan þegar Gunnar fjallar um árin í Kópavogi. Gerist hann þar illyrtur. Gunnar segir frá kraftaverkum sínum við uppbyggingu bæjarins. En svo hallar undan fæti og Gunnar var felldur af leiðtogastóli. Það gerðist í framhaldi ýmissa hneykslismála sem voru til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þeim hluta bókarinnar er mikill harmagrátur og hann fer hörðum orðum um Ármann og að „þessum kvikindum“ hefði tekist að flæma hann í burtu af bæjarstjórastóli. Hann telur upp fjölda samherja úr Sjálfstæðisflokki sem höfðu svikið hann. Verstur af öllum er Ármann Kr. Ólafsson, núverandi bæjarstjóri, sem felldi hann á sínum tíma. Ármann vildi ekki, að sögn, leita í reynslubanka Gunnars og milli þeirra varð „algjör trúnaðarbrestur og vinslit“. Gunnar segist aldrei fyrirgefa Ármanni.

Guðlaugur ÞórGunnar líkir þessum samherja sínum við mafíuleiðtoga.

Og fleiri sviku leiðtogann. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafði stungið hann í bakið. Guðlaugur Þór Þórðarson uranríkisráðherra, sem Gunnar segir að hafi verið á vegum Baugsfeðga, „áttu hann skuldlausan“ og svo er að skilja að Baugur hafi staðið undir kosningabaráttu Guðlaugs.

Guðlaugur sem mafíósi

Hann talar um samherja Guðlaugs sem Gulla-klíkuna og kallar þá gangstera. Hann nefnir líkindi með Guðlaugi og Guðföðurnum, Don Corleone. Hann segir að margir hafi fengið umbun þegar Guðlaugur varð heilbrigðisráðherra og rétti vinum og vandamönnum verkefni. Gunnar treystir þó Bjarna Benediktssyni, núverandi formanni, til að halda aftur af Guðlaugi, enda Bjarni heiðarlegur maður og vandaður. Fyrrverandi tengdasonur Gunnars fær einnig slæma einkunn. Gunnar segir hann hafa haldið dóttur sinni í stofufangelsi og ýjar að því að hann hafi beitt konu sína líkamlegu og andlegu ofbeldi. Og það er ekkert gefið eftir. „Ég ber engan kala til Guðjóns. Þetta er veikur maður og vonandi ber hann gæfu til að leita sér aðstoðar í framtíðinni,“ segir Gunnar eftir að hafa gefið tengdasyninum einkunn.

Góður við súludansara

 Tengsl Gunnars bæjarstjóra við súlustaðinn Goldfinger voru mjög til umfjöllunar á sínum tíma. Góð vinátta var milli Gunnars og Ásgeirs Davíðssonar, eiganda staðarins, sem var rekinn í Kópavogi og átti mikið undir góðvild bæjarstjórans. Telur Gunnar að nektardansmeyjarnar á staðnum hafi fengið góða meðferð. „... Geiri hélt líka alla tíð vel utan um stelpurnar …,“ segir Gunnar og áréttar að ekki hafi verið vændi á staðnum. Mynd birtist af Gunnari og tveimur konum í tímaritinu Ísafold sem setti allt á annan endann. Gunnar segir að konurnar hafi verið kunningjahjón sín. Myndbirtingin í Ísafold varð til þess að verslanakeðjan Kaupáss, sem stýrt var af félaga Gunnars, tók blaðið alfarið úr sölu. Þetta varð mikið fjölmiðlamál og viðurkenndi eigandinn að hann hefði misbeitt húsbóndavaldi sínu með þessum hætti.

„Ég fékk mér ekki oft í glas en það kom fyrir …“ segir Gunnar í ævisögunni um heimsóknir sínar á Goldfinger. Hann gefur til kynna að tímaritið Mannlíf hafi ráðist á sig með myndbirtingunni og „breiðsíðu“. Þar er hann væntanlega að vísa til greinarinnar Kóngurinn í Kópavogi. Gunnar segir að blaðamaðurinn Sigurður Bogi Sævarsson hafi margbeðið sig afsökunar á umfjölluninni! Óljóst er með hvaða hætti Sigurður Bogi bar ábyrgð á greininni, skrifunum eða myndbirtingum. 

Mikið var fjallað um Gunnar í fjölmiðlum á þessum tíma. Hann var sviptur ökuskírteini og gaukaði verkefnum á vegum Kópavogsbæjar að dóttur sinni. Spillingarhjúpur var yfir honum. Ævisagan tekur ekki á þessum málum. Gunnar snýr Goldfingermálinu upp í það að umfjöllun fjölmiðla hafi verið eiginkonu hans og fjölskyldu þungbær. Heimsóknir hans á þennan alræmda stað urðu hreint aukaatriði. Hvergi örlar á iðrun vegna eigin gjörða. Þvert á móti eru slæm örlög Gunnars alltaf öðrum að kenna. Gunnar líkir raunar umfjöllun íslenskra fjölmiðla um sig við það sem Donald Trump hafi þurft að þola í Bandaríkjunum. Talsverðu púðri er eytt í að lýsa því hversu slæmir fjölmiðlarnir, að undanskildu Morgunblaðinu, hafi verið. Fréttamenn Rúv fá sérstaklega slæma dóma hjá Gunnari. Skrásetjari hans er blaðamaður á Morgunblaðinu!

Gott að vera á Úlfarsfelli

Gunnar fjallar í bókinni um þann sem þetta skrifar vegna ritstjóratíðar hjá DV og vísar til fleygra orða um að taka menn niður. Gefur Gunnar þar ranglega til kynna að þar hafi hann sjálfur verið til umfjöllunar en ekki Björgólfur Guðmundsson eins og raunin var. „… Núna er Reynir mest upp á Úlfarsfelli – og ágætlega geymdur þar ...“ segir í bókinni. Þetta er reyndar ágætt dæmi um húmorinn og léttleikann sem dúkkar reglulega upp í bókinni á milli þess sem harmur hins fallna nær yfirhöndinni með tilheyrandi froðufellingum.

Glufan í girðingunni

Í kaflanum um bernskuárin er ágæt lýsing á því sem seinna varð í lífi Gunnars. „Ég kom snemma auga á glufuna undir girðingunni“. Einmitt þar liggur hundurinn grafinn. Glufurnar í girðingunni urðu Gunnari að falli í Kópavogi.

Bókin um Gunnar er dæmigerð segulbandabók. Höfundurinn gerir enga tilraun til að sannreyna frásögn viðmælandans eða tóna niður illmælgina og vara hann við sleggjudómum um samherja og pólitíska andstæðinga. Það er engin leið að fallast á að andstæðingar Gunnars séu kvikindi eða að Guðlaugur Þór Þórðarson sé ígildi morðóðs mafíuforingja eða gangsters. Að þessu frátöldu eru skemmtilegir kaflar í bókinni sem varpa ljósi á pólitík fyrri ára. Þetta hefði getað orðið fín bók ef húmor og yfirvegun hefðu verið meira ráðandi og söguhetjan hefði játað mistök sín og sýnt örlitla iðrun. En því miður er ekki svo. Ævisöguritarinn krossbregst viðmælanda sínum með því að láta hann vaða á súðum. Bók sem lýsir fyrrum samherjum sem mafíósum, kvikindum og gangsterum er ekki sérlega falleg gjöf á hátíð ljóss og friðar.

Kápa bókarinnar er ágæt. Myndin á forsíðu er lýsandi fyrir viðfangsefnið. Myndin ber með sér einlægni og stríðni en það eru röng skilaboð. Einlægnina vantar alveg.  Það er einnig galli að nafnaskrá vantar. Kannski er það vísvitandi vegna orðfærisins. Gunnar Birgisson fær tvær og hálfa stjörnu. Stjörnurnar eru fyrir skemmtilegu kaflana.

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Bókadómar

Sagan um Rúnu
GagnrýniBókadómar

Sag­an um Rúnu

Rúna, ör­laga­saga, er snot­ur bók um sveita­stúlku norð­an úr Húna­vatns­sýslu sem náði mikl­um ár­angri á heims­mæli­kvarða við að temja hross og keppa til glæstra sigra. Sjálf­ur Orri frá Þúfu, verð­mæt­asti stóð­hest­ur Ís­lands, er eitt þeirra hrossa sem Rúna, eða Guð­rún Ein­ars­dótt­ir,  upp­götv­aði. Upp­haf sög­unn­ar er á Mos­felli fyr­ir norð­an þar sem Rúna elst upp í faðmi stór­fjöl­skyld­unn­ar. Þar kynnt­ist hún...
Einstök saga Önnu
GagnrýniBókadómar

Ein­stök saga Önnu

Trans­kon­an Anna Kristjáns­dótt­ir varð ann­ar ein­stak­ling­ur­inn á Ís­landi til að brjót­ast út úr lík­ama sín­um sem karl og verða kona. Anna fædd­ist sem dreng­ur og fékk nafn­ið Kristján. Snemma upp­götv­aði dreng­ur­inn að hann væri í raun­inni stúlka. Hann hafði yndi af því að klæð­ast fatn­aði sem stúlka. Guðríð­ur Har­alds­dótt­ir blaða­mað­ur skráði sögu Önnu í bók­inni, Anna, eins og ég er....
„Goodbye my friend its hard to die“
GagnrýniBókadómar

„Good­bye my friend its hard to die“

Mika­el Torfa­son er ein­stak­lega ein­læg­ur, sum­ir kynnu að segja mis­kunn­ar­laus, í frá­sögn­um sín­um af fjöl­skyldu­mál­um. Synda­fall­ið er bók af svip­uð­um toga og Týnd í para­dís sem kom út fyr­ir tveim­ur ár­um. Um­fjöll­un­ar­efn­ið er sem fyrr fjöl­skylda höf­und­ar og vensla­fólki. Og það er ekk­ert dreg­ið und­an. Mika­el tek­ur fyr­ir öll tabú­in. Þarna er fram­hjá­hald, geð­veiki, sjálfs­vígstilraun, drykkju­skap­ur og trú­arof­stæki.   Synda­fall­ið...

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
4
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.
Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
5
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár