Undanfarna daga hafa komið fram nýjar upplýsingar um meðferð gjaldeyris Seðlabankans síðustu dagana fyrir hið „svokallaða íslenska efnahagshrun“ í október 2008, svo notað sé orðalag talsmanna ráðherra ríkisstjórnar, Geirs H. Haarde. Viðbrögð stjórnvalda varð til þess að ég fór yfir nokkra af minnispunktum mínum frá þessum tíma.
Sé litið til efnahagsumræðunnar allt frá árinu 2003 fram að hruninu haustið 2008 þá er orðið „fullkomið klúður“ áberandi. Ríkisstjórnir okkar fengu úr öllum áttum ábendingar um að hagstjórnin væri glannaleg og áhættusöm. Alþjóðastofnanir gerðu ítrekað athugasemdir við mótsagnakennda hagstjórn sem kynti undir ofþenslu á sama tíma. „Klúður sem allar líkur eru á að muni leiða okkur í miklar þrengingar á næstu misserum“, sögðu hagfræðingar ASÍ í mars 2008 og áttu eftir að reynast sannspáir. Áhrif þessara mistaka ríkisstjórnarinnar í hagstjórninni kostuðu heimilin 1,7 milljarða árið 2004, 3,3 milljarða 2005, 26,0 milljarða árið 2006 og síðan 38,5 milljarða árið 2007 og áttu eftir að margfaldast á árinu 2008.
„Öllum þessum tækifærum glutraði ríkisstjórnin niður og hélt áfram að kynda undir ofþenslu og verðbólgu.“
Aðilar vinnumarkaðarins lögðu endurtekið fram grundvöll að ábyrgri hagstjórn upp í hendurnar á ríkisstjórninni. Ekki bara einu sinni, heldur þrisvar sinnum á þessu tímabili. Fyrst með gerð ábyrgra kjarasamninga til fjögurra ára vorið 2004. Síðan með samkomulagi í nóvember 2005 við endurskoðun kjarasamninganna, en forsendur þeirra höfðu brostið vegna aðhaldsleysis ríkisstjórnarinnar. Í júní 2006 gerðu samningsaðilar enn eina tilraunina til þess að koma böndum á verðbólguna með því að flýta endurskoðun kjarasamninga um fimm mánuði og leggja enn einu sinni grunn að efnahagsaðgerðum. Öllum þessum tækifærum glutraði ríkisstjórnin niður og hélt áfram að kynda undir ofþenslu og verðbólgu með ekki bara aðhalds- og sinnuleysi heldur beinlínis þensluhvetjandi ákvörðunum.
Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, kallaði nokkra ráðherra á sinn fund í febrúar 2008 og fór yfir áhyggjur sínar um að allir íslensku bankarnir virtust stefna í þrot. Davíð sendi nokkru síðar beiðni um gjaldeyrisskiptasamninga til Englandsbanka og norrænu seðlabankanna. Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, svaraði beiðni Davíðs Oddssonar um gjaldeyrisskiptasamning neitandi og Norðurlöndin sögðust ekki treysta sér til þess að lána Íslendingum nema þá í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar Seðlabankans, lýsti því síðar fyrir Landsdómi að hann hefði í febrúar 2008 farið ásamt Davíð Oddssyni til London. Þar hefðu þarlendir kollegar þeirra talað allt annað en rósamál um íslensku bankana og þeir treystu ekki uppgjörum bankanna. Ástandið á Íslandi væri grafalvarlegt. Í ársskýrslu Seðlabankans í byrjun júní 2008 kom ekkert fram um þessa alvarlegu stöðu bankanna.
Sé meðal annars litið til þeirra gagna er ekki hægt annað en að draga þá ályktun að það hafi verið samantekin ráð beggja ríkisstjórna Geirs H. Haarde og Seðlabankans að sveipa bankakerfið huliðshjúp samhliða því að halda á lofti velgengni hins íslenska efnahagsundurs með röskri aðstoð þáverandi forseta Íslands. Í útgefnum gögnum frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum vorið og sumarið 2008 kom ekkert fram sem gaf til kynna að bankarnir stæðu höllum fæti. Það varð til þess að fjöldi saklausra borgara var plataður til þess að setja allan sinn sparnað í bankana. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að ársreikningar bankanna reyndust í besta falli vera lélegur skáldskapur. Í fyrstu vikunni í október 2008 rann síðan upp fyrir landsmönnum sú jökulkalda staðreynd að vandi íslenska efnahagskerfisins væri margfalt meiri en stjórnvöld höfðu haldið að þjóðinni. Aðilar vinnumarkaðarins höfðu árið þar á undan ítrekað en árangurslaust reynt að koma á framfæri við stjórnvöld þeim skilaboðum að ef ekki yrði gripið til umfangsmikilla aðgerða myndi þessi spírall leiða til brotlendingar íslenska fjármálakerfisins.
Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sagði í viðtali við fréttaveitu Reuters föstudaginn 3. október, „að ekki væri unnið sérstaklega að björgun bankanna, enda standi íslensku bankarnir mjög vel. Hins vegar þyrfti að treysta gjaldeyrisstöðuna og markaðinn til þess að liðka fyrir viðskiptum.“ Tryggvi Þór setti sig seinni part sama dag í samband við framkvæmdastjóra og stjórnarformenn fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins og fór fram á að þeir mættu samstundis á fund í Stjórnarráðið. Á þeim fundi kom fram að ef lífeyrissjóðirnir myndu flytja erlendar eignir sjóðanna heim væri á tiltölulega einfaldan hátt hægt að koma í veg fyrir mikla dýfu íslenska hagkerfisins. Í kjölfar þessa fundar var ákveðið að kalla strax saman þá um kvöldið um 200 manns úr forystu samtaka á vinnumarkaði og stjórnarmenn lífeyrissjóðanna í Karphúsið og kanna til hlítar hvort og þá á hvaða forsendum mætti losa erlendar eignir lífeyrissjóðanna. Í minnisblaði eftir Karphúsfundinn á föstudagskvöldinu voru fyrri viðvaranir samtaka atvinnulífsins ítrekaðar og ítrekað að ríkisstjórnin væri komin á enda vegferðar afskiptaleysis og mistaka. Þessi afstaða leiddi til harkalegra viðbragða ráðherranna. Þeir væru réttkjörnir til þess að stjórna landinu og atvinnulífið ætti ekkert með að ganga inn á þeirra verkefnasvið.
„Þar var ítrekað að lífeyrissjóðir gætu komið að fjármögnun innviða eins og til dæmis Sundabrautar og byggingu nýs Landspítala.“
Ljóst var að íslensku lífeyrissjóðirnir ættu eignir í erlendum gjaldmiðlum sem samsvöruðu um 500 milljörðum króna og helmingur fjármagnsins væri fast í langtímafjárfestingum. Hinn helminginn væri mögulegt að losa en það yrði ekki gert nema gegn öruggum tryggingum ríkissjóðs ásamt því að bankarnir og fjármálastofnanir kæmu einnig að málinu með því að flytja heim jafnmikið fjármagn. Ríkisstjórnin yrði jafnframt að leggja fram ítarlega skýrslu um í hvaða verkefni þessir fjármunir yrðu settir. Á laugardagseftirmiðdag 4. október náðist samkomulag um að taka saman yfirlit um mögulegt samstarf vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Þar var ítrekað að lífeyrissjóðir gætu komið að fjármögnun innviða eins og til dæmis Sundabrautar og byggingu nýs Landspítala og yfirlit um hvernig mætti tryggja frið á vinnumarkaði fram á árið 2010 og uppfylla skilyrði hvað varðar peninga- og efnahagsstjórn. Mikilvægasta verkefnið væri að tryggja stöðugleika til lengri tíma. Þessari vinnu lauk á sunnudagseftirmiðdag og þá hófst löng bið hins stóra hóps í Karphúsinu en ekkert heyrðist frá ríkisstjórninni.
Síðar komu fram gögn sem sýndu að ríkisstjórninni og stjórn Seðlabankans var orðið ljóst að bankarnir myndu falla og ríkisstjórninni var eindregið ráðlagt að ganga í þessi mál áður en bankarnir myndu opna á mánudagsmorgun. Í gagnaleka sem birtist síðar kom hins vegar fram að áhrifamenn úr fjármála- og stjórnmálaheiminum fengu aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hins vegar frestað fram á mánudagseftirmiðdag. Á mánudagsmorguninn hófust strax við opnun bankanna umfangsmiklir flutningar fjármagns út úr íslenska krónuhagkerfinu yfir á erlenda bankareikninga, eins og til dæmis var opinberað í gögnum sem sett voru í fjölmiðlabann. Þar var staðfest að þröngur hópur bjó yfir innherjaupplýsingum og náði að taka út lausafé í skiptum fyrir hlutabréf í bönkunum og koma því úr landi inn á leynireikninga á aflandseyjum. Í þetta var nýttur allur fáanlegur gjaldeyrir í landinu á mánudagsmorgun. Hlutabréf í bönkunum urðu skömmu síðar einskis virði, auk þess að dagana fyrir hrunið gufaði upp liðlega þriðjungur af peningamarkaðssjóðum bankanna.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að vinna við neyðarlögin voru kynnt á ríkisstjórnarfundi á mánudagsmorgni 6. október sem hófst kl. 8.30. Þá var ljóst orðið að ekki yrði hægt að bjarga Landsbankanum og Glitni. Seðlabankinn lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra um hádegisbilið þennan dag, eða nánast allan gjaldeyri sem til var í bankanum. Leiða má líkum að því að ef stjórnir lífeyrissjóðanna og aðilar vinnumarkaðarins hefðu látið undan þrýstingi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og ráðgjafa hans um heimflutning erlendra eigna lífeyrissjóðanna hefði sá gjaldeyrir farið sömum leið.
Í vitnaskýrslu hjá sérstökum saksóknara árið 2012 sagði Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar Seðlabankans, að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi komið inn á skrifstofu sína til þess að hringja í Geir Haarde forsætisráðherra vegna þess að Davíð vissi að öll símtöl úr þeim síma voru hljóðrituð, ólíkt síma seðlabankastjóra. Í vitnaskýrslu Sturlu kemur fram að hann hefði varað Davíð Oddsson við því að innherjar gætu nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett. Í vitnaskýrslunni segir: „Sturla kvað að Geir H. Haarde hefði átt að stöðva einum sólarhring fyrr. Sturla kvaðst hafa verið áhyggjufullur yfir því að bankarnir skyldu opnaðir á mánudeginum. Neyðarlögin hefðu átt að koma sólarhring fyrr.“
„Fyrir liggur að ef aðilar vinnumarkaðarins hefðu farið að óskum ríkisstjórnarinnar hefðu um nokkur hundruð milljarðar af sparifé sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna gufað upp.“
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, sagði síðar: „Frágangur þessi var allur óvenjulegur þar sem Seðlabanki Íslands millifærði einfaldlega 500 milljónir evra til Kaupþings mánudaginn 6. október eftir samtal um lánveitinguna milli mín og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans. Engin lánaskjöl voru undirrituð og Seðlabankinn gekk ekki frá veðsetningu FIH bankans til sín. Það var svo ekki fyrr en á næstu dögum á eftir að Seðlabankinn fór fram á það við okkur að við gengum frá lánaskjölum og veðsetningu danska FIH bankans vegna lánveitingarinnar. Það gerðum við stjórnendur Kaupþings að sjálfsögðu eins og um hafði verið rætt en þá var búið að millifæra lánsfjárhæðina í heild sinni til Kaupþings.“
Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, lýsti lánveitingunni þannig í bók sinni um bankahrunið og afleiðingar þess að Seðlabankinn hafi „látið Kaupþing hafa allan gjaldeyrisforðann sem þeir voru með hér heima þannig að það voru engir peningar eftir í Seðlabankanum“.
Hvað varðar hinn stóra fund forystu atvinnulífsins þá sat hún í Karphúsinu langt fram á sunndagskvöld en fékk engin skilaboð af neinu tagi frá ríkisstjórninni. Á mánudagsmorgun komu heldur ekki skilaboð frá ríkisstjórninni. Sé litið til símtals Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde, sem var birt í Morgunblaðinu undir ritstjórn Davíðs, þá er ljóst að Geir er allan tímann að senda forystu atvinnulífsins og stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna rangar upplýsingar. Markmiðið virðist hafa verið það eitt að ná erlendum eignum lífeyrissjóðanna heim til þess að setja skyldusparnað launamanna í vonlausa gjaldþrotahít bankanna. Erlendir seðlabankar voru búnir að loka á Ísland nema þá í gegnum AGS. Atvinnulífið og lífeyrissjóðirnir settu einnig niður hælana og sögðu hingað og ekki lengra, þar með var sjónarspili ráðherranna endanlega lokið.
Fyrir liggur að ef aðilar vinnumarkaðarins hefðu farið að óskum ríkisstjórnarinnar hefðu um nokkur hundruð milljarðar af sparifé sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna gufað upp og horfið inn á aflandsreikningana. Eins og komið hefur fram í gegnum lekamálin þá skildi á milli feigs og ófeigs, fámennur hópur sem hafði upplýsingar um stöðuna fengu allan þann gjaldeyri sem handbær var hér á landi og nýtti hann til þess að flytja eignir sínar í öruggt skjól á meðan tugþúsundir Íslendinga töpuðu öllum sínum eignum. Það er ekki nema von að ráðamenn Sjálfstæðismanna hafi fengið bann á birtingu þessara gagna.
Athugasemdir