Um þessar mundir er verulegur hluti íslenskra rithöfunda að senda frá sér bók á sama tíma og þó segja sumir að bókaflóðið svokallaða gæti orðið að lækjarsprænu í skugga kosninga – annað árið í röð. Margir höfundar tala um að það sé liðin tíð að býsnast yfir útgáfu og að þeir sakni tíunda áratugarins þegar slegið var upp greinum og einstaka blaðamaður lagði á sig að slengja því fram að rithöfundurinn væri dauður sem gerði starfsheitið að minnsta kosti svolítið spennandi í eyrum almennings, því ekkert var meira sexí en sombí á bíóbarnum.
En er höfundurinn þá ekki dauður eftir allt saman? spyr ég þá næsta mann í hálfgerðri örvæntingu. Nei, er svarað. Höfundurinn er sprelllifandi og dælir frá sér að minnsta kosti einni skáldævisögu á tveggja ára fresti. Hins vegar er intróvertinn kannski dauður því íslenskir listamenn eru búnir að vinna svo mikið í sér undanfarin ár. Það trúir enginn lengur á þunglynda bölsýnismenn, allir eru bara ferskir á Facebook. Glötuðu snillingarnir sem sátu niðurlútir í kringum hringborð dauðans á tuttutugu og tveimur eru dauðir og hafa endurfæðst sem skælbrosandi barnabókahöfundar. Svona er nútíminn, Tóti minn! Troddu þeim tíunda upp í rassinn á þér!
En ég er með bók! mjálma ég þá og stilli mér upp með hinum höfundunum á hafnarbakkanum. Við mænum út á blátt hafið því bækurnar okkar voru prentaðar lengst úti í finnskum skógi fyrir þessi jól. Það er von á skipsfarmi með herlegheitin.
„Sumir af vinsælustu höfundum þjóðarinnar eru ekki einu sinni á Facebook og ef þeir eru þar þá þykjast þeir oftast vera rússneskar vændiskonur.“
Ég stend þarna við sjóinn, bugaður af virðisauka, svolítið á skjön við túristana og lundabúðirnar. Minni svolítið á frambjóðanda Bjartrar framtíðar mínus frekjuskarðið. Það er úði í loftinu og þegar líður á daginn finn ég að mörkin á milli rithöfundarins og stjórnmálamannsins verða æði óskýr. Ég fer að öfunda helvítis pólitíkusana af allri athyglinni sem þeir fá inni í bæ meðan ég bíð eftir bók í slippnum.
Einhver hnippir í mig. Ekki vera að glenna þig svona mikið á netinu, félagi! Það er óþarfi að svara öllum þráðum samfélagsmiðla. Íslenskir lesendur vilja vissa dulúð og ákveðna fjarlægð við höfundinn þegar hann er að gefa út. Sumir af vinsælustu höfundum þjóðarinnar eru ekki einu sinni á Facebook og ef þeir eru þar þá þykjast þeir oftast vera rússneskar vændiskonur.
Íslenskur höfundur þarf að vera hreinn og strokinn en um leið svolítið sexí – skakkt sexí, svona eins og Laxness í glansandi plastleðurbuxum. Einu sinni varð ég vitni að því þegar ágæt bóksölukona í miðbænum þuldi upp bækur vertíðarinnar og klykkti svo út með því að segja við farsælan höfund sem var staddur í búðinni að hún skriði einatt með bækur hans upp í rúm á aðfangadagskvöld. Það var eitthvað fallegt og um leið verulega ógnvekjandi við þetta móment. Voru ástir þessa lesanda verðlaunin eftir allt erfiðið? Hefði maðurinn þá ekki alveg eins átt að fara í hljómsveitarbransann?
„Ég finn hvernig ég sekk ofan í sófann hjá Gísla Marteini við hliðina á frægum álitsgjafa.“
Þegar ég er orðinn langeygur eftir helvítis dallinum stytti ég mér stundir með því að hringja í markaðsdeild Forlagsins. Ég er með fullt af góðum hugmyndum. Ég finn hvernig ég sekk ofan í sófann hjá Gísla Marteini við hliðina á frægum álitsgjafa. Við ræðum atburði vikunnar. Við ræðum Bjarna Ben og Sigmund og Kötu Jak og hlæjum kattarlega. Ég fer til Andra Freys og Gunnu Dísar í óvirka morgna og þau elska mig. Ég lýg því upp í opið geðið á þeim að Lars von Trier ætli að gera bíómynd upp úr Götumálaranum en svo sé ég einmitt með nýja bók um þessi jól. Nei ekki tala um Lassa perra! hvæsir þá markaðsdeildin. Ljúgðu því frekar að Björk sé að gera myndband upp úr mannætupabbabókinni!
Ég sting símanum aftur í vasann og horfi út á hafið. Ég á örugglega eftir að fara í nokkur viðtöl en enginn fjölmiðill mun vita rass um nýju bókina fyrirfram. Af hverju ættu þau svosem að gera það? Sjálfur myndi ég aldrei nenna að lesa tuttugu bækur á mánuði bara af því að einhver sjálfsupptekinn sköllóttur miðaldra gaur ætlar að mæta í viðtal klukkan hálf átta á þriðjudegi. Ég myndi aldrei nenna að taka þetta viðtal. Ég myndi ekki einu sinni nenna að fara á fætur til að fá mér kaffibolla til að pæla í því hvort ég ætti að gera það.
Einhvern tímann í miðju flóðinu munu fyrstu metsölulistarnir birtast. Nokkrar bækur hanga inni í tíunda eða fimmta sæti en detta svo út aftur. Og ef þær gera það ekki, ef þær slá raunverulega í gegn, þá fara höfundarnir fljótlega að efast um tilgang alls þess sem er. Hvað er að slá í gegn? spyrja þeir hver annan. Er sá sem kemst í gegnum hávaðann í nærsamfélaginu ekki jafnframt dæmdur til að lokast inni á sínum æskuslóðum? Er hann ekki óþýðanlegur með sínar sjálfsævisögulegu anekdótur af hjara veraldar; eitthvert þus um Sigga í næsta húsi sem vísar í Gunnu á Hjarðarhaganum meðan þýskir og franskir lesendur eru engu nær?
Ég fiska símann upp aftur og leita að útvarpsstöð. Einhvers staðar gasprar hárgreiðslumaður sem var að enda við að skrifa sinn fyrsta krimma í hjáverkum. Hann lýsir því yfir að það sé bara ekkert mál að skrifa bók. Maður teiknar bara upp plott í excel og klárar svo bókina á tveim vikum í sumarbústað. Menn ætli sér hvort eð er aldrei að skrifa snilldarverk. Helvítis lygi! tauta ég í barminn. Alla höfunda dreymir um að skrifa snilldarverk. Ég píri augun út á blátt hafið en hvergi bólar á bókafarminum. Til hvers erum við að þessu? spyr ég. Til hvers að eyða tveimur árum af ævi sinni inni á bókasafni bara til að standa hérna á bryggjunni á sultarlaunum? Vegna þess að þetta er drullu gaman, er svarað.
Meira að segja helvítis bókaflóðið er drullu, fokking, gaman.
Athugasemdir