Flest teljum við okkur vera óspillt og heiðarleg. Flest erum við það svona yfirleitt en spillingin getur tekið á sig ótrúlegustu myndir sem ekki eru alltaf augljósar. Hún þarf heldur ekki að vera á einhverjum þeim skala sem telst vera fréttaefni um allt land eða allan heim.
Spilling er vel skilgreind sem misnotkun á valdi eða stöðu þar sem einstaklingar eða hópar nota aðstöðu sína á óeðlilegan máta til að hafa áhrif á stöðu mála og yfirleitt í hagnaðarskyni.
Spillingin er eins og syndin, lævís og lipur og ekki alltaf auðvelt að þekkja hana, en hér að neðan tek ég nokkur dæmi um spillingu sem eru ekki endilega þau grófustu en algengari en margir halda.
* Ef þú ræður Gunnu, systur vinar þíns, í vinnu hjá sveitarfélaginu þínu af því að hún er blönk en ekki manneskjuna sem sótti um og er með menntun í faginu þá er það ekki í lagi.
* Ef þú vinnur í banka og veist að fyrirtækið hans Nonna frænda verður gert gjaldþrota þá máttu ekki láta hann vita svo hann geti forðað verðmætum.
* Ef þú býrð yfir upplýsingum um að fyrirtækið sem Jóna systir var að fjárfesta í sé að fara að birta uppgjör sem verðfellir hlutinn hennar þá máttu ekki láta hana vita svo hún geti selt.
* Ef þú færð það verkefni að selja fyrirtæki eða fasteign í eigu ríkisins þá máttu ekki kaupa þau sjálfur og ráða verðinu.
* Ef þú ert að stýra útboði á vegum opinberra aðila þá máttu ekki láta Sigga, besta vin þinn, vita hvað er lægsta tilboð svo hann geti breytt sínu.
* Það má heldur ekki leyna upplýsingum, eða leka þeim eftir því hver á í hlut af opinberum aðilum til að koma sínu fólki vel eða andstæðingum illa.
* Það má heldur ekki tefja upplýsingagjöf til þeirra sem hafa beðið um upplýsingar til að þú getir náð utan um hvað er best að segja.
Hér eru bara nokkur dæmi sem tengjast valdi og stöðu. Flest elskum við ættingja okkar og vini og viljum að þeim vegni vel eða allavega lendi ekki í tjóni og þess vegna er freistandi að "aðstoða? með óformlegum hætti. Ekkert af þessu er í lagi.
Þó að það sé kannski ekki á allra færi að eiga milljónir á Tortóla þá eru freistingarnar víða og það er kannski bara bitamunur en ekki fjár á því hvernig hún birtist. Spilling er ekki bara eitthvað sem gerist í öðrum löndum með mútum á skuggalegum börum, spillingin getur líka verið heima hjá þér.
Verum meðvituð um spillinguna, látum hana ekki ná til okkar og gera okkur værukær fyrir því sem skiptir máli eins og meðferð almannafjár, skattsvik og leyndarhyggja.
Athugasemdir