Gríðarleg óánægja er á meðal eftirlaunafólks vegna skerðinga á frítekjumarki ellilauna og fyrirkomulags eftirlauna sem duga vart til framfærslu. Troðfullt var út úr dyrum á fundi sem Félag eldri borgara hélt í höfuðstöðvum sínum í Stangarhyl. Þar kom fram megn óánægja með það að stjórnvöld skertu með einu pennastriki frítekjumark þeirra eldri borgara sem þiggja ellilaun. Frá 2007 hafði frítekjumarkið verið rúmar 100 þúsund krónur á mánuði en var skorið niður í 25 þúsund krónur. Með þeirri aðferð var afkomu stórs hóps ógnað og fólk festist í fátækragildru.
Í einföldu máli þýðir þetta að sá sem þiggur ellilífeyri og þénar aukalega 125 þúsund krónur sætir skerðingu á þeim tekjum sem eru umfram 25 þúsund krónur. Heildartekjur eru 125 þúsund krónur á mánuði. Tekjur sem hafa ekki áhrif á ellilífeyri, 25 þúsund krónur dragast frá. Eftir standa 100 þúsund krónur sem lækka lífeyrinn frá Tryggingastofnun um 45 prósent, eða 45 þúsund krónur á mánuði. Þá eru aukatekjurnar skattlagðar að fullu. Niðurstaðan er sú að ellilaunaþeginn heldur sáralitlu eftir við það að takast á hendur aukavinnu og þarf jafnvel að greiða með sér vegna vinnunnar. Hann er fastur í fátæktargildru.
Vilja vinna en það borgar sig ekki
Fundarmenn voru gríðarlega ósáttir með þetta og margir tóku til máls og lýstu því að kjör þeirra væru með þessu skert þannig að þeir kæmust ekki af. Þá voru margir á því að ríkið væri að etja fólki út í að verða skattsvikarar og í rauninni að neyða fólk til þess. „Ég vil ekki verða skattsvikari,“ sagði rúmlega áttræð kona sem enn er á vinnumarkaði.
„Ég vil ekki verða skattsvikari“
Þá var á það bent að eftirlaunafólk er margt hvert með mikla starfsgetu en situr heima fremur en að borga með sér á vinnumarkaði. Á sama tíma væri flutt til landsins erlent starfsfólk, þúsundum saman. Því fylgdi ferðakostnaður og húsnæðiskostnaður sem ekki þyrfti að koma til ef hið vannýtta íslenska vinnuafl væri notað. Eftirlaunafólkið væri á landinu og með húsnæði. Það væri því þjóðhagslega hagkvæmt að nýta krafta þess.
Hrópað að ráðherra
Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra taldi að ríkisstjórnin væri að gera vel við eldra fólk og benti á að ákveðið hefði verið að taka skerðingu frítekjumarksins til baka í áföngum á fimm árum. Reyndar væri vandinn aðeins bundinn við lítinn hluta eftirlaunafólks. Ráðherrann uppskar hróp fundarmanna sem var greinilega mjög misboðið. Fundarstjóri greip á endanum í taumana og bað fólk um að sýna stillingu.
Á það er bent að þegar frítekjumarkið var tekið upp 1. janúar 2009 var það 109 þúsund krónur. Þá var launavísitalan 355,7. Í júlímánuði 2017 var launavísitalan komin í 623,9. Það þýðir að frítekjumarkið ætti að vera 191.187 krónur en er þess í stað 25 þúsund krónur. Það er því búið að skerða kjör þeirra sem lifa á ellilífeyri einum sem nemur þeirri upphæð. Ráðherra lagði áherslu á að þáverandi ríkisstjórn stefndi að því að hækka frítekjumarkið að nýju í 100 þúsund krónur á næstu árum. Fundarmenn gáfu lítið fyrir þá yfirlýsingu.
Lífeyririnn einskis virði
Viðmælendur Stundarinnar tala um hreinan þjófnað á eftirlaunum sem liggur í því að þeir sem hafa safnað upp lífeyri í gegnum lífeyrissjóði sæta skerðingum á eftirlaunum almannatrygginga í samræmi við það. Sá sem fær 500 þúsund úr lífeyrissjóði fær ekki krónu í eftirlaun frá ríkinu. Lífeyrissparnaðurinn er því látinn standa undir framfærslunni. Grunnlífeyrir sem áður var fyrir alla hefur verið afnuminn. Sá sem aldrei greiddi í lífeyrissjóð fær hátt í 300 þúsund krónur. Þetta þýðir í raun að sá fyrrnefndi er rændur lífeyri sínum. Með öðrum orðum: Framlag hans í lífeyrissjóð er sokkið og hann hefði allt eins getað byggt lífsafkomu sína á öðru en launatekjum. Þetta gerist vegna þess að stjórnvöld líta á greiðslur úr lífeyrissjóði sem fyrstu stoð í eftirlaunagreiðslum. Í stað þess að ellilífeyrir sé jafnhár hjá öllum og lúti sömu lögmálum hafa greiðslur úr lífeyrissjóðum verið gerðar að grundvallarlífeyri og ellilífeyrinn notaður sem uppbót. Sem sagt: Lífeyrisþegarnir eru sjálfir látnir sjá sér fyrir ellilífeyri og þeir þannig í ákveðnum skilningi sviptir sparnaði sínum. Á móti kemur það viðhorf að ellilífeyrir sé öryggisnet og til að jafna kjör fólks. Vandinn er hins vegar sá að stór hluti þeirra sem hafa alla starfsævina greitt í lífeyrissjóð fá það sama á endanum og hinir sem aldrei greiddu krónu. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur undirstrikaði þetta á stórfundinum í Stangarhyl.
Ísland greiðir fjórðung
Haukur sýndi töflu sem undirstrikaði það hvernig íslenska ríkið kemur fram við elstu borgarana og er í einu af allra lægstu sætunum á meðal þjóðanna. Fram kom í erindi Hauks að Ísland greiðir sem nemur 95 þúsund krónum á mánuði með hverjum eftirlaunamanni. Meðaltal OECD-ríkjanna er aftur á móti rúmlega 382 þúsund krónur, eða fjórfalt hærra. Munurinn skýrist að miklu leyti af því að lífeyrissparnaðurinn er talinn íslenska eftirlaunamanninum til tekna og hann þannig svikinn um sparnaðinn til efri áranna. Haukur segir að þarna sé um að ræða jaðarskatt sem sé siðferðilega og lagalega óverjandi. Haukur bendir jafnframt á að skerðingarnar þýði að aukatekjur séu í sumum tilvikum yfir 100 prósent.
Allt verður til skerðinga
Annað sem er gagnrýnt harðlega er að ellilífeyrisþegar mega ekki eiga fjármuni á bankabók eða selja eignir eða fá arf án þess að sæta skerðingum. Sá sem selur eign samhliða því að þiggja ellilífeyri frá Tryggingastofnun má reikna með stórfelldri skerðingu. Ef einstaklingi í þessum sporum tæmist arfur er afkomu hans sömuleiðis ógnað. Alls staðar er sótt að afkomu þeirra sem þiggja ellilífeyri.
Athugasemdir