Föðurafi minn Jakob Jónsson var lengi prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Þá höfðu bæði hann og amma mín Þóra Einarsdóttir ýmislegt saman að sælda við hinn svipmikla listmálara Jóhannes Sveinsson Kjarval.
Hann var svo sannarlega einn af þeim sem settu svip á bæinn, eins og það var orðað.
Ég veit ekki hvort afi vann einhver sérstök prestsverk fyrir Kjarval eða hversu náin kynni þeirra voru yfirleitt, en alla vega var einu sinni barið að dyrum prestsbústaðarins að Engihlíð 9, þar sem afi og amma bjuggu með börnum sínum.
Á tröppunum var Kjarval með heilmikinn stranga í höndunum.
Það var málverk sem hann hafði ákveðið að gefa afa og ömmu.
Ég veit semsagt ekki hvort það var af einhverju tilefni, eða bara merki um hjartagæsku Kjarvals og almenna velvild hans í garð afa og ömmu.
Það væri gaman að vita, en mér skilst að enginn viti það almennilega.
Sem sagt leyndardómur!
En málverkið var alla vega engin smásmíði.
Ætli það sé ekki hátt á annan metra á breidd og vel rúmur metri á hæð?
Afi og amma höfðu að sjálfsögðu himin höndum tekið, settu málverkið í gylltan ramma og það var einkar eftirminnilegt uppi á vegg í Engihlíðinni.
Þetta kalda, sterka landslag settist að í barnsminninu.
Og lifnaði við að nýju þegar ég rakst á það um daginn.
Gat ekki stillt mig um að sýna ykkur það. Ekki viss um að margir þekki þetta öfluga verk.
- - -
Ég get svo ekki stillt mig um að bæta við því sem Jón Einar föðurbróðir minn skrifaði í tilefni af þessum pistli:
„Ógleymanlegt, þegar Kjarval kom með málverkið, en ég var heima þá. Ég skemmti mér enn við minninguna um, þegar pabbi fór að sýna honum og spyrja álits hans á öðrum verkum, sem héngu þar á veggjum, m.a. eftir Svein Þórarinsson, Finn Jónsson o.fl.. Hann leit stuttlega á myndirnar og svaraði ætíð hinu sama: „Þetta er sennilega það bezta, sem hann hefur gert!““
Athugasemdir