Stöku sinnum gengur illa að nota debetkort hér í Kaupmannahöfn. Mér hefur ekki tekist að taka út úr hraðbönkum með debetkorti og stundum vilja vélarnar í búðunum ekki debetkortið mitt, að minnsta kosti ekki fyrr en í annarri eða þriðju tilraun.
Þetta er svo sem ekkert stórt vandamál og kreditkortasamband er alltaf í góðu lagi.
En gestur sem er hérna hjá mér í Jónshúsi núna lenti í þessu í gær. Hann var á kaffihúsi að reyna að borga reikninginn sinn með debetkorti, og posinn á kaffihúsinu vildi ekki kortið.
Þjónninn var alveg í vandræðum og fékk kortið í hendur svo hann gæti sjálfur prófað.
Hann leit á kortið, sá hvaðan það kom og varð að orði:
„Ahá, svo það er íslenskt. Það er áreiðanlega skýringin á því að bankinn hérna vill það ekki. Við erum ekkert búin að gleyma því sem gerðist í hruninu.“
Athugasemdir