Við höfum kannski sannfært okkur um annað dagsdaglega, en við sjáum ekki heiminn eins og hann er í sjálfum sér. Við skynjum módel af heiminum sem við búum til með hugmyndum okkar og samvitund. Hún er huglæg og samhuglæg. Það stendur yfir stöðug barátta við að ná tökum á hugarheiminum, yfirtaka módelið og breyta því, til þess að ná stjórn á raunheiminum, sem verður í vaxandi mæli að eign, sem gerir aðra ýmist utangarðs eða leigjendur.
Yfirtaka hugarheimsins
Saga fornfrægasta fjölmiðils Íslands er um leið sýnidæmi um hvernig ráðandi aðilar leggja sig fram um að stýra því sem getur haft áhrif á módelið af heiminum. Morgunblaðið var í grófum dráttum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, áður en það var síðan yfirtekið af bankamönnum – einna helst Björgólfi Guðmundssyni. Árið 2008 tapaði útgáfusamstæða Morgunblaðsins tæpum þremur milljörðum króna. Bankamennirnir misstu á nokkrum mánuðum stöðu sína sem ráðandi aðilar á Íslandi. Með falli krónunnar risu útgerðarmenn upp sem valdamesti hópur landsins á ný. Hópur þeirra keypti Morgunblaðið og sameinaði stjórnmála- og viðskiptavaldið með því að gera helsta leiðtoga Sjálfstæðisflokksins að ritstjóra. Það ár tapaði Morgunblaðið 666 milljónum króna, eða tæpum 900 milljónum króna að núvirði. Frá árinu 2009 hefur Morgunblaðssamstæðan tapað 1,6 milljörðum króna, og alltaf fengið fjárframlög frá útgerðunum. Þetta jafngildir vel á þriðja milljarð króna á núverandi verðlagi.
Með þessum hætti reynir valdið að styrkja sig í sessi með því að yfirtaka síurnar sem fólk sér veruleikann í gegnum, og yfirtaka um leið aðilann sem veita ætti valdinu aðhald fyrir hönd almannahagsmuna.
Yfirtakan á raunheiminum
Yfirtakan á módelinu og yfirtakan á heiminum er samstofna og samtímis.
Eins og bent hefur verið á fjallaði viðskiptadálkur Morgunblaðsins nýverið um að eðlilegt væri að greiða þyrfti gjald til að ganga á Esjuna. „Af hverju er ókeypis að fara á Esjuna? Að þessu spurði Innherji sig á dögunum þegar hann brá undir sig betri fætinum og gekk í fyrsta sinn á toppinn. Það eru þekkt sannindi að menn kunna oft betur að meta hluti sem þeir greiða fyrir en þá sem þeir fá ókeypis. Með greiðslunni myndast ákveðið viðskiptasamband, og báðir aðilar geta gert hóflegar kröfur á hinn ... Útlendingum finnst eðilegt að greiða fyrir góða upplifun, og með auknum möguleikum í því hvernig greitt er fyrir vörur og þjónustu verður sífellt auðveldara að taka gjald af fólki.“
„... verður sífellt auðveldara að taka gjald af fólki.“
Yfirlýstir stuðningsmenn frelsis eru endalaust áfram um yfirtöku einkaeignarréttarins á almannagæðum.
Á jarðsögulegum tíma er það að gerast ógnarhratt á Íslandi að borga verði fyrir að sjá heiminn, eða hann aflokaður með grindverkum, hliðum og öryggismyndavélum.
Á síðustu öld nutum við tækninýjunga, sem gerði okkur kleift að upplifa landið, keyrandi um, en núna er þróunin komin á rönguna. Við erum orðin svo mörg að það þarf að takmarka aðgengi að perlum landsins með því að rukka fyrir upplifunina á náttúrunni.
Björt framtíð ákvað í fyrra að setja það sem stefnu að Íslendingum myndi fjölga um hálfa milljón á rúmlega þrjátíu árum. En á sama tíma tilgreinir Efnahags- og framfarastofnun Evrópu í nýjustu skýrslu sinni um Ísland að óbyggðir landsins og möguleikinn á einveru sé ein helsta auðlind landsins. Stöðug fjölgun og tilheyrandi skerðing takmarkaðra auðlinda getur unnið gegn hagsmunum einstaklinga. Mannkynið hefur fjórfaldast á tæpri öld. Á síðustu misserum hafa verið gerðar tilraunir til að rukka fyrir upplifun af: Helgafelli, Geysi, Seljalandsfossi, Víðgelmi, Raufarhólshelli, Námaskarði, Jökulsárlóni, Dettifossi, Kerinu og svo framvegis. Þetta er bara byrjunin og á endanum er tilgangur eigenda almennt að fá arð.
Náttúran, hinn óbreytti heimur, er á sama tíma á hröðu undanhaldi. Á jarðsögulegum skala teldust það hamfarir hvernig maðurinn hefur í veldisvexti yfirtekið óspillt land á síðustu áratugum og öldum. Þetta eru hamfarir, en hugur okkar nær ekki utan um þær.
Eftir því sem ný tækni þróast gerum við yfirleitt ráð fyrir því að hún muni nýtast okkur. Hefðbundna sýnin á tækni er að hún valdefli okkur sem einstaklinga og opni okkur nýja möguleika.
En á sama tíma verður einstaklingurinn einn og sér í sjálfum sér smærri og valdaminni. Möguleg upprisa einstaklingsins gegn ofríki er ólíklegri til árangurs þegar hægt er að greina hann og uppræta auðveldlega með tækni.
Forsenda valds einstaklingsins og frelsis hans er ekki hugsjón, heldur geta hans til verðmætasköpunar – eða geta hans til að ná fram valdbeitingu yfir heiminum.
Á næstunni er búist við hröðun á þeirri þróun að gervigreind komi í stað mennskra launþega. Auðvitað tapast ekki öll störf, en hins vegar getur ör þróun í þessa átt gert launþega valdaminni og eigendur framleiðslutækjanna valdameiri. Eftir því sem manneskjur verða óþarfari og lítilvægari við framleiðslu og valdbeitingu minnkar vald þeirra. Það skiptir minna máli að einstaklingur fari í verkfall, ef verðmætasköpun heldur áfram óháð aðkomu hans. Og ef stríð eru háð með vélum og gervigreind mun einstaklingurinn missa vægi og vald. Samkeppnin hlýtur að leiða af sér að hæfasta samfélagsformið til framleiðslu og/eða valdbeitingar verði ofan á, hver sem staða einstaklingsins verður í því.
Ein líkleg niðurstaða er hins vegar að eigendur framleiðslutækjanna muni öðlast meira vald, líkt og sést nú þegar í vaxandi misskiptingu í Bandaríkjunum.
Valdið yfir einstaklingunum
Al Gore lýsti því í nýlegu viðtali vegna nýrrar myndar hans – framhalds af myndinni Óþægilegur sannleikur – hvernig sameiginlegur hugarheimur okkar hefur verið beygður undir einkavaldið:
„Þeir sem hafa aðgang að háum peningaupphæðum og hráu valdi hafa náð að beygja alla rökhugsun og staðreyndir í sameiginlegri ákvarðanatöku.“
Nýlega var greint frá því að ný tækni gerði kleift að falsa sjónvarpsviðtöl eða –ræður. Þetta er dæmi um tækni sem hefur öfug áhrif – hún valdeflir ekki einstaklinga heldur getur brenglað greiningargetu þeirra fyrir heiminn.
Áróðursaðferðir Donalds Trump og stuðningur bandarískrar lágstéttar við hann segja okkur að nú þegar er kominn vírus í hugarheiminn; módelið virkar ekki rétt.
Hugurinn okkar vinnur almennt þannig að okkur finnst líklega flestum orðið leiðinlegt að heyra um valkvæðar staðreyndir og afnám kröfunnar um hlutlægan sannleika í stjórnmálaumræðu.
Það er ekki nógu nýtt og of huglægt og óáþreifanlegt. Mannshugurinn greinir illa hægfara breytingar á heiminum, hversu örlagaríkar sem þær kunna að vera. Hugur okkar virkar ekki endilega þannig að hann beinist að því sem skiptir mestu máli til langs tíma. Hann hefur þróast á milljónum ára með því að greina skammtímahættur og félagslegan ábata, til dæmis með því að óttast fólk sem er öðruvísi og sýna sjálfsöruggum einstaklingum í ráðandi stöðu fylgispekt. Okkur er fremur eðlislægt að fylgja þeim sem ráða, fylgja eigendunum og reyna að vera með.
Endalok almenninga
Eignarrétturinn er stöðugt að þenjast út. Eftir því sem tíminn líður fækkar svæðum sem eru í eigu okkar allra eða einskis eigu. Svokallaðir almenningar.
Það er frumspekilega skiljanlegt að verundir reyni að þenjast út. Þannig verða þær ofan á. Það er að segja, þær verundir sem hafa tilhneigingu til útþenslu og yfirtöku eru þær sem á endanum taka yfir. Félagslega er líka skiljanlegt að það hafi skilað ábata að fylkja sér með þeim sem hafa orðið ofan á og sýnt valdbeitingargetu.
Í mannlegu samfélagi er mótvægið við slíka virkni samtakamáttur fólks í þágu almannahagsmuna. En með vaxandi tækni eiga sér stað átök valdeflingar einstaklinga og svo valdasamþjöppunar.
Það er ekki sjálfsagt að sannleikurinn sé sameign. Hann er markvisst yfirtekinn. Sannleikurinn verður oft einkaeign.
Margir gera út á þá jákvæðu sálfræði að maður eigi ekki að hafa áhyggjur af slíkum hlutum því maður geti ekki haft áhrif á þá. En það er vandamálið með almannahagsmuni. Aðeins almenningur getur gætt hagsmuna almennings gegn yfirtökunni, og almenningur er bara samsetning af mér og þér. Við þurfum að hugsa áhrif ákvarðana okkar á löngum tímaskala, i mörgum skrefum og út frá nauðsyn almennrar aðkomu að ákvarðanatöku.
Án mótverkandi afls er hætt við því að heimurinn allur, að meðtalinni náttúru hans, verði að einkaeign eigenda. Og við verðum almennt leigjendur.
Til þess að fara á Esjuna munum við ekki aðeins þurfa að borga eigandanum gjald, heldur sækja okkur tekjur með því að starfa fyrir fyrirtæki. Í stuttu máli getum við auðveldlega þurft að borga fyrir að fá að fara á Esjuna með því að vinna í einn klukkutíma fyrir eiganda. Þeir sem tala fyrir þessu eru yfirlýstir talsmenn frelsis. En þeir eru talsmenn eigenda; þeirra sem eignast landið, eignast tíma okkar og vilja eignast hugarheim okkar.
Leiðarinn birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Hér má styrkja Stundina eða kaupa áskrift að henni.
Athugasemdir