Þó að ég hafi fæðst í Reykjavík fyrir hálfri öld síðan hef ég dvalið langdvölum erlendis undanfarin ár. Hvert sinn sem ég kem aftur heim er ég því túristi í eigin landi fyrstu dagana, rétt á meðan sálin innheimtir líkamann. Þegar þetta er skrifað er ég búinn að vera á Íslandi í viku.
Fyrsta daginn brotlenti ég eins og venjulega í því troðfulla helvíti Dantes sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er orðin. Við töskufæribandið spjallaði ég örstutt við enskumælandi hjón sem höfðu ákveðið að skjótast til Íslands úr brúðkaupsferð á Kúbu. Þau voru svolítið spennt yfir því að hafa leigt sér húsbíl og ég óskaði þeim til hamingju með það, enda hefur mig alltaf lúmskt langað til að prófa þannig ferðamáta.
Síðar um nóttina, þegar bróðir minn var að hjálpa okkur fjölskyldunni með töskurnar út í bíl, rak ég augun í parið rétt áður en við renndum úr hlaði. Stæðilegur húsbíllinn sem ég hafði séð fyrir mér í samtalinu var orðinn að litlum sendibíl, líkastur gömlum ísskápi sem búið væri að leggja á hliðina. Og þarna í vindbarinni auðninni var kominn einhver skelfingarsvipur á ungu hjónin meðan þau hlustuðu einbeitt á starfsmann bílaleigunnar – líkt og hvert orð af vörum hans væri spurning um líf eða dauða. Aumingja fólkið, hugsaði ég þegar bróðir minn slakaði rjómagula Toyota-jeppanum gegnum fyrsta hringtorgið í átt að Reykjavík.
Daginn eftir leist mér naumast á blikuna því Reyjavíkurborg var búin að drulla á sig í bókstaflegri merkingu, skólpdælustöð hafði bilað og í tíu daga höfðu milljónir lítra af mannaskít, eyrnapinnum og klósettpappír flætt niður í fjöru hverja einustu klukkustund. Nokkurn veginn á sama tíma var tilkynnt að það væri orðið þriðjungi dýrara að búa á skerinu en í New York; Reykjavík væri metin áttunda dýrasta borg í heimi.
Hvað um það! Ég var mættur og tilbúinn að byrja skutlið sem einkennir alltaf líf mitt við hjara veraldar. Í raun ætti Reykjavík með réttu að heita Skutluvík, því við erum alltaf að skutla hvert öðru. Krakkarnir okkur þurfa að fara í sund og á alls konar námskeið og makarnir í kaffiboð og á vinnufundi. Allt þetta í vegakerfi sem er eins og það gerist verst í þriðja heiminum, við skáskjótum allt of stórum bílum inn eftir þröngum götum, sem ættu flestar að vera í einstefnu, og önnur hver gatnamót lokuð vegna viðgerða. En ég skutlast þetta nú samt.
Á þriðja degi var ég næstum því búinn að keyra niður tvo bankamenn í Borgartúninu. Ég var að skjóta konunni minni í hraðbanka og þegar hún hafði lokið sér af og sest aftur í farþegasætið með úttroðið veskið stímdi ég út af bílaplaninu og var þá næstum því búinn að keyra niður tvo bjöllusauði sem gengu í hægðum sínum á ská þvert fyrir útkeyrsluna án þess að líta til hægri eða vinstri. Ég segi bjöllusauðir því þegar ég flautaði litu þeir upp með einkennilegum sauðasvip – alveg eins og rollurnar sem ég sá um árið í löngum bíltúrum undir fjallshlíðum inn eftir Ísafjarðardjúpi. Kallaðar sjálfsmorðsrollur vegna þess að þær virtust hálfpartinn vonast eftir því að vera keyrðar niður.
„Hvergi annars staðar er þessi skarpa birta, hvergi jafn sætur ilmurinn af nýslegnu grasi og hvergi jafn sætur ómurinn af hlátri barna“
Þeir eru komnir aftur, íslensku bankakarlarnir, sagði ég við konuna mína. Þeir eru komnir aftur með græskulausan sauðasvipinn og í þetta sinn eiga þeir eftir að kosta okkur skildinginn.
Síðan leið vikan. Ég fór í skemmtilegt brúðkaup á dalli úti fyrir Reykjavíkurhöfn og á listasýningu í Marshallhúsinu á eftir, fékk lélegustu pitsu Evrópu á Hverfisgötunni og langbesta kaffi sömu heimsálfu á Skólavörðustíg.
Á sjöunda degi braust sólin svo allt í einu út úr skýjunum og gerði Reykjavík að fegurstu borg í heimi. Hvergi annars staðar er þessi skarpa birta, hvergi jafn sætur ilmurinn af nýslegnu grasi og hvergi jafn sætur ómurinn af hlátri barna sem leika sér undir gráum húsveggjum.
Reykjavík hefur aldrei verið fjölbreyttari og skemmtilegri en núna. Jú, annað hvert kaffihús er kannski ofhannað og tilgerðarlegt, heimagerði bjórinn er drullulélegur og allt of dýr meðan annar hver ferðamaður strunsar fýldur niður Laugaveginn með tárin í augunum yfir dýrtíð í lundabúðunum.
En heiti potturinn í Nauthólsvík er ókeypis og kúkurinn, eyrnapinnarnir og túrtapparnir drifu víst aldrei alla leið fyrir nesið. Hér er aldrei óþarflega heitt, grámyglan og tíu stigin gera að verkum að það er auðveldara að einbeita sér að vinnu en víðast hvar annars staðar. Það hjálpar að mannlífið er tiltölulega einsleitt, fólkið almennt forljótt og samanrekið þannig að maður þarf ekki sífellt að vera að líta upp úr lyklaborðinu eða í drykk á bar og eyða þannig óþarfa tíma í að góna á það.
Svo eru ekki þessar eilífu freistingar í ódýrum mat og drykk út um allar trissur.
Við étum okkar Bónusdjönk og kaupum tuttugu og fimm kíló af hrísgrjónum í Kostkó.
Já, við elskum þig, Reykjavík. Líka vegna þess að það er svo fjandi auðvelt að stinga þig af.
Athugasemdir