Við erum aftur í góðæri, en höfum smám saman komist að því að í síðasta góðæri réði óheiðarleikinn ríkjum, róttækar en við hefðum viljað trúa. Baráttan við óheiðarleikann er hins vegar ekki fortíðarmál. Óheiðarleikinn er ennþá aðferð háttsettra manna til að ná sínu fram og þeir verða ennþá ofan á.
Róttækur óheiðarleiki íslenska fjármálakerfisins
Við vitum núna að stór hópur í bankakerfinu vissi að það væri verið að svindla á almenningi í einkavæðingu bankanna árin 2002 og 2003. Það var enginn þýskur banki að kaupa í Búnaðarbankanum, eins og var forsendan fyrir sölunni, heldur var Ólafur Ólafsson athafnamaður og hópur í kringum hann að blekkja okkur til að komast yfir bankann, sem fór á hausinn á fimm árum eftir stjórnleysi og lögbrot.
Við vitum að sá eiginleiki bankanna að blekkja almenning í viðskiptum var ekki viðbragð við lausafjárstöðu, heldur inngróinn eiginleiki á störfum þeirra og forsenda eignarhaldsins. Þegar fólk kemst í áhrifastöðu með óheiðarleika er líklegast að lygar verði ofan á.
Stjórnmálamenn vernda óheiðarleikann
Við áttum að vera löngu búin að fá svör við því hvað gerðist í einkavæðingu bankanna. Í nóvember 2012 samþykkti Alþingi að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu bankanna. Skýrslan átti að vera tilbúin 1. september 2013, fyrir þremur og hálfu ári. En stjórnmálavaldið stóð í vegi fyrir því.
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur báru mesta ábyrgð á því að ekki skyldi vera gengið úr skugga um að raunverulegt eignarhald væri á bakvið kaupendur Búnaðarbankans.
Einn lykilmeðlimur Framsóknarflokksins var lykilmaður í kaupum á bankanum og nýtti þar reynslu sína úr ráðherranefnd um einkavæðingu, þar sem hann sat nokkrum árum fyrr sem viðskiptaráðherra, kjörinn fulltrúi almennings sem átti að starfa eftir almannahagsmunum.
Það var ekki fyrr en sjálfstæð eftirlitsstofnun, Umboðsmaður Alþingis, tók ákvörðun um að rannsaka málið, sem sannleikurinn um óheiðarleikann kom fram.
Fleira á eftir að koma í ljós, ef þingmenn standa ekki í vegi fyrir því. Til dæmis þarf að skýra hvers vegna einn nefndarmaður í einkavæðingarnefnd sagði af sér í nefndinni vegna vinnubragða hennar þegar hún ákvað að selja Björgólfsfeðgum Landsbankann.
Samúðin framleidd
Hluti af því að viðhalda óheiðarleikanum er að afla samúðar gagnvart þeim sem er óheiðarlegur.
Sjálfur hefur Ólafur Ólafsson kvartað undan því að vera dæmdur í fangelsi fyrir aðild að markaðsmisnotkun Kaupþings í Al Thani-málinu og sagt að þjóðin sé að bregðast þjóðfélagshópi með dómum yfir bankamönnum. Hann segist mest sjá eftir því að hafa treyst kerfinu.
„Menn gerðu þau stóru mistök, lögmenn og við, að við treystum á kerfið. Við treystum dómstólum og lögðum á það traust að Hæstiréttur myndi alltaf dæma samkvæmt lögum. Þarna eru okkar mistök. Við áttum strax í upphafi að ganga út frá því að kerfið héldi ekki,“ sagði hann í viðtali við Stöð 2 um „skelfilega aðför“ réttarkerfisins að bankamönnum sem dæmdir voru fyrir efnahagsbrot. „Samfélagið mun skammast sín fyrir þetta þegar fram líður,“ var niðurstaða hans.
Hagsmunir óheiðarlegra yfir fjölmiðlum
Við eigum að geta treyst því að fjölmiðlar vinni ekki út frá hagsmunum eigenda bankanna eða efnahagsbrotamanna, heldur almennings.
Eigendur 365, sem gefur út Fréttablaðið, réðu í ritstjórastól fyrrverandi starfsmann samskiptasviðs Baugs og nána vinkonu eigendanna, eftir að hún hafði skrifað greinar þar sem rannsóknum sérstaks sakskóknara á efnahagsbrotum var mótmælt harðlega. Eiginmaður eiganda 365 og fyrrverandi eigandi, Jón Ásgeir Jóhannesson, var þá til rannsóknar vegna efnahagsbrota sem skuggastjórnandi Glitnis.
Í einu dómsmálinu, sem snerti Ólaf Ólafsson, boðaði ritstjóri Fréttablaðsins að fjölmiðlar myndu bregðast við dómi Hæstaréttar, sem hún taldi rangan. „Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“
Björn Ingi Hrafnsson er orðinn helsti fjölmiðlaeigandi landsins. Annar eins óheiðarleiki og hagsmunaárekstur hefur sjaldan komið upp í fjölmiðlastétt, eins og þegar hann þáði 230 milljóna króna kúlulán frá Kaupþingi, banka Ólafs Ólafssonar og félaga, á sama tíma og hann var ritstjóri viðskiptablaðs Fréttablaðsins árið 2008. Björn Ingi var settur yfir viðskiptafréttir Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Á sama tíma hafði hann verulegra persónulegra hagsmuna að gæta. Hagsmunir hans voru samofnir hagsmunum þeirra fyrirtækja sem hann stýrði umfjöllun um. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kom í ljós að Björn Ingi hafði þegið langhæstu lán allra fjölmiðlamanna. Í skýrslunni segir meðal annars að fjölmiðlar leiki lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi við að „veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag“ og að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki rækt þetta hlutverk sitt í aðdraganda bankahrunsins.
Björn Ingi tók til dæmis viðtal við Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings, sem lánaði honum hundruð milljóna, í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, 9. apríl 2008. Umfjöllunarefnið var vaxandi vantraust á íslenskum fjármálafyrirtækjum og niðurstaðan var fengin frá Sigurði: Fjórir vogunarsjóðir stóðu fyrir árásum. Þar greindi Björn Ingi frá því að „Ísland og íslenskur fjármálamarkaður [hefði] mátt þola kerfisbundnar árásir“. Þar segir að tilteknir aðilar hafi komið af stað vondum orðrómi í þeim tilgangi að fella íslenskt fjármálakerfi. Þess ber að geta að þessi skoðun var í samræmi við yfirlýsta skoðun Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Björn Ingi hefur eftir lánveitanda sínum að neikvæð fjölmiðlaumfjöllun væri hluti af þessu: „Menn láta ekki plata sig aftur og aftur,“ sagði Sigurður meðal annars við Björn Inga.
Við höfum ekki fengið góðar skýringar á því hvernig hann hefur farið úr því á stuttum tíma að vera nálægt þroti í það að geta fjármagnað yfirtöku á fjölda fjölmiðla. Hverjir eru vinir hans og hvaða hagsmuni hafa þeir?
Óheiðarleikinn sigrar í stjórnmálum
Kannski hefur ekki mikið breyst. Fáir virðast til dæmis kippa sér upp við að Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, taki afstöðu með kaupum vogunarsjóða á Arion banka sem kjörinn fulltrúi og eigi samtöl við bankastjórann, án þess að geta þess að eiginkona hans sé náinn samstarfsmaður bankastjórans og sitji í framkvæmdastjórn bankans. Formaður nefndarinnar sem sér um eftirlit með bankanum á erfitt með að taka afstöðu gegn honum, þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir og velvild eru undir, og bankinn hefur mikla hagsmuni af tengingunni.
Það sem hefur orðið ofan á er því miður ekki vel heppnað uppgjör við óheiðarleikann.
Við vitum jú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem var forsætisráðherra, átti hálfs milljarðs kröfu á bankana á laun ásamt eiginkonu sinni og beitti óheiðarlegum aðferðum til að leyna því. Við losnuðum við hann úr forsætisráðuneytinu, en kusum hann aftur á þing og fengum annan forsætisráðherra sem hafði líka sagt ósatt um aflandsfélag. Við fyrirgáfum það sem yfirsjón og horfðum fram hjá samhengi praktísks óheiðarleika í bakgrunni hans.
Þrennar alþingiskosningar í röð hefur Bjarni Benediktsson sýnt óheiðarleika í stærstu málum hverra kosninga fyrir sig.
Stjórnmálaflokkarnir voru hluti af óheiðarleikanum þegar þeir leituðu eftir tugmilljóna króna styrkjum frá krosstengdu fjármálafyrirtækjunum árið 2006, rétt áður en lög tóku gildi sem hefðu gert þeim skylt að upplýsa um þetta. Nú er maðurinn innan Sjálfstæðisflokksins sem átti mesta milligöngu um að afla styrkjanna orðinn utanríkisráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ráðherrann, Guðlaugur Þór Þórðarson, sagði ekki af sér, eins og flokkur hans ályktaði um, heldur hélt áfram og gerðist baráttumaður gegn kostnaði við rannsóknir: „Þeir sem borga fyrir þetta allt saman eru skattgreiðendur, og þeir eiga betra skilið,“ sagði Guðlaugur 2014. „Það sem vekur athygli manns þegar maður skoðar þetta, er að það er eins og menn læri ekki neitt ... það er enn verra þegar menn læra ekkert af mistökunum,“ sagði hann svo, um of mikinn kostnað við rannsóknarnefndir, en ekki spillinguna sem þær afhjúpa.
Kannski ættum við að læra meira af mistökunum.
Úrræði Bjarna í stóru málunum
Háir leynistyrkir til stjórnmálaflokka urðu, ásamt hrunmálum, stóra mál kosninganna 2009. Bjarni Benediktsson brást við með því að lofa að styrkirnir yrðu endurgreiddir. En svo kom í ljós að þá átti að endurgreiða án vaxta og verðbóta, en upphæð 55 milljóna króna styrkja FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins 2006 er jafnvirði 91 milljónar á verðlagi ársins í ár. Eins og Stundin greinir frá er svo komið að Sjálfstæðisflokkurinn svarar ekki hvort hann hafi endurgreitt styrkina sem var lofað 2009, fyrir átta árum síðan.
Bjarni hefur nú sögu um heiðarleikabrest fyrir alþingiskosningar. Hann lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um gjaldmiðils- og Evrópusambandsmálið fyrir kosningarnar 2013, vitandi að það var lykilmál kosninganna. Enn þann dag í dag er gjaldmiðilsmálið kjarninn í óleystum umræðum um efnahagsvanda á Íslandi. Fyrir kosningarnar 2016 ákvað hann að sleppa því að birta opinberlega skýrslu um skattaskjólsviðskipti Íslendinga, sem var áfellisdómur yfir stefnu og aðgerðaleysi Sjálfstæðisflokksins, og sagði svo ósatt í svörum sínum um málið eftir á. Skýrsla sem sýndi misskiptingaráhrif Leiðréttingar ríkisstjórnar Bjarna og Sigmundar Davíðs var líka geymd fram yfir kosningar.
Aðgátin við óheiðarleikann
Umburðarlyndi hefur löngum verið talið mannkostur. Og íslenska þjóðin býr yfir menningarlegu umburðarlyndi fyrir óheiðarleika. Málshættir eins og: „Oft má satt kyrrt liggja“ og „aðgát skal höfð í nærveru sálar“ hafa gjarnan verið nýttir af þeim sem styðja óheiðarleikann eða sýna honum samúð.
Við vonum auðvitað það besta. Við viljum treysta og erum beðin um að treysta. En von og trú ýta undir meðvirkni með óheiðarleikanum. Nú er kominn tími til að afnema umburðarlyndi gagnvart óheiðarleikanum. Því er ekki persónulega beint gegn þeim sem sýna óheiðarleika að við hættum meðvirkninni, heldur praktískt viðhorf fyrir farsæld samfélagsins.
Við eigum ekki að treysta þeim fyrir framtíð okkar sem gefa ítrekað tilefni til annars. Þeir óheiðarlegu geta gert eitthvað annað en að sinna helstu ábyrgðarstöðum.
Það er nóg til af heiðarlegum Íslendingum til að fylla ábyrgðarstöður. En þeir komast síður áfram ef við setjum ekki heiðarleika sem viðmið þegar við ákveðum hvert við setjum ábyrgðina. Því, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson sagði um spillingarskýrslur, við eigum betra skilið.
Athugasemdir