Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist hafa náð lendingu með kröfur sínar í Grænlandsmálinu, eftir að forsætisráðherra Kanada, forseti Frakklands og fleiri leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja risu upp gegn ásælni hans. Hann lýsti því yfir rétt í þessu að hann hefði fengið allt sem hann vildi, eftir fund með Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO.
Hann sagði síðar við fréttamenn á Alþjóðaefnahagsmálaráðstefnunni í Davos í Sviss að samningurinn „gæfi okkur allt sem við vildum“ og yrði í gildi „að eilífu“.
Trump kvað ótilgreint rammasamkomulag um Grænland verða í gildi að eilífu, án þess að svara því hvort það uppfyllti ítrekaða kröfu hans um eignarhald Bandaríkjanna.
„Þetta er samningur sem fólk stökk á, virkilega frábær fyrir Bandaríkin, tryggir allt sem við vildum, sérstaklega raunverulegt þjóðaröryggi og alþjóðlegt öryggi,“ sagði Trump við fréttamenn. Hann sagðist myndu því falla frá tollum sem áttu að leggjast á evrópska bandamenn.
Vonast hafði verið eftir því að Trump færi þá leið að lýsa einfaldlega yfir sigri í málinu án þess að hann fengi sínu fram um yfirtöku á Grænlandi, eins og hann hefur tilhneigingu til. Ekki er hins vegar ljóst hvað leiðir af yfirlýsingum hans nú.
Trump gaf engar upplýsingar um bráðabirgðarammann en tilkynningin kom í kjölfar vikna af sífellt herskárri orðræðu forsetans um að taka Grænland með valdi og hóta refsiaðgerðum ef lönd stæðu í vegi hans. Hótanirnar skóku fjármálamarkaði og leiddu af sér fall á hlutabréfavísitölum í Bandaríkjunum.
„Við höfum mótað ramma fyrir framtíðarsamning varðandi Grænland og raunar allt norðurskautssvæðið,“ sagði Trump í færslu á Truth Social eftir viðræður í Davos við Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, sem neitaði að tjá sig þegar AFP spurði hann um bráðabirgðasamninginn.
Grænlandsmálið hafði áður verið í forgrunni í fyrstu ræðu Trumps á Alþjóðaefnahagsráðstefnunni í sex ár, þar sem hann gagnrýndi „vanþakkláta“ Danmörku fyrir að neita að gefa eftir norðurskautseyjuna, en virtist þó útiloka hótun um hernaðaraðgerðir.
„Ég þarf ekki að beita valdi. Ég vil ekki beita valdi. Ég mun ekki beita valdi. Allt sem Bandaríkin biðja um er staður sem heitir Grænland,“ sagði Trump.
Hlutabréf á Wall Street hækkuðu eftir ummæli forsetans.
Grænlendingar fá leiðbeiningar um hættuástand
Danir sögðu það „jákvætt“ merki að Trump hefði sagt að hann vildi forðast hernaðaraðgerðir – en lögðu áherslu á að bandaríski forsetinn hefði ekki fallið frá kröfu sinni um að eignast Grænland.
„Það sem er alveg ljóst eftir þessa ræðu er að metnaður forsetans er óbreyttur,“ sagði Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra.
Grænlenska stjórnin afhjúpaði á meðan nýjan bækling í dag þar sem íbúum eru gefin ráð ef til „krísu“ kæmi á svæðinu og sagði hann vera „tryggingu“.
Trump ítrekaði kröfur sínar til Grænlands – sem hann kallaði Ísland nokkrum sinnum fyrir mistök – í löngu máli um dýpstu kreppu í samskiptum yfir Atlantshafið í áratugi.
Bandaríkjaforseti – sem fullyrðir að Grænlandi stafi ógn af Rússlandi og Kína – gagnrýndi einnig Evrópu á ýmsum sviðum, allt frá öryggismálum til tolla og efnahagsmála, og sagði hana „ekki stefna í rétta átt“.
Trump flaug til Davos með þyrlu og gekk á rauðan dregil sem lagður var í snjóinn – en hann flaug inn í vaxandi alþjóðlegan storm vegna Grænlands.
Hann kom um tveimur klukkustundum á eftir áætlun, eftir að rafmagnsbilun neyddi Air Force One til að snúa aftur til Washington og forsetann til að skipta um flugvél.
„Rof“ á alþjóðakerfinu
Evrópa og Kanada höfðu áður risið upp gegn því sem þau líta á sem ógn við alþjóðlega heimsskipan vegna landakrafna Trumps.
Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, fékk standandi lófaklapp í Davos í gær þegar hann varaði við „rofi“ á kerfinu sem Bandaríkin leiða. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði á meðan að Evrópa myndi ekki láta kúga sig.
Trump endurtók árásir á leiðtogana tvo og hæddist sérstaklega að Macron fyrir að vera með sólgleraugu í Davos, sem Frakklandsforseti sagði vera vegna augnsjúkdóms.
Trump lýsti einnig ítrekað yfir efasemdum um NATO í ræðu sinni og sagði að Bandaríkin væru beitt „svo miklu óréttlæti“ og efaðist um að bandalagið myndi verja Bandaríkin ef þess væri óskað.
Í upphafi fundar síns með Trump reyndi Rutte að fullvissa hann um að bandalagið myndi „algjörlega“ aðstoða Bandaríkin ef ráðist yrði á þau og benti á að NATO hefði þegar gert það í Afganistan í kjölfar árásanna 11. september 2001.
Auk þess að skekja NATO hefur Grænlandsdeilan einnig sýrt samskipti Bandaríkjanna við Evrópusambandið, sem hafði hótað gagnráðstöfunum vegna fyrirhugaðra tolla Trumps.
Karol Nawrocki, forseti Póllands og bandamaður Trumps, sagði við AFP eftir „mjög mikilvæga“ ræðu: „Ég held að ástandið muni róast.“ Hann sagðist skilja afstöðu forsetans í ljósi ágangs frá Rússlandi við landamæri ESB.
Í ummælum sem flökkuðu milli málefna lýsti Trump einnig yfir von um að binda enda á stríðið í Úkraínu fljótlega og sagðist búast við að hitta Volodymyr Zelensky forseta í Davos á morgun.
Trump ætlar einnig á morgun að tilkynna formlega um fyrsta stofnskjal svokallaðs „Friðarráðs“ síns, stofnunar til að leysa alþjóðlegar deilur með 1 milljarðs dollara verðmiða fyrir fasta aðild.


















































Athugasemdir (1)