Erla Björg Gunnarsdóttir hefur sagt upp starfi sínu sem ritstjóri fréttastofu Sýnar eftir þrettán ára starf á miðlinum. Núverandi stöðu sinni hafði hún gengt í fjögur og hálft ár „sem mér skilst að sé tímamet á þessari fréttastofu,“ skrifar hún í færslu á Facebook.
Þar þakkar hún sérstaklega samstarfsfólki sínu á fréttastofunni sem hún segir hafa gefið sér kraft til að takast á við alls konar áskoranir. „Ekki síst í rekstri og baráttu fyrir góðri blaðamennsku.“
Eftir marga „hringi“ kemur að tímapunkti þar sem sé best að kveðja
Erla Björg nefnir að frá því hún hafi tekið við starfi ritstjóra hafi fjórir forstjórar starfað og sviptingar hafi verið aftur og aftur í stefnu og sjónarmiðum.
„Af ástríðu fyrir þessari fréttastofu hef ég unnið eins og ég get með síbreytilegan farveg, reynt af öllum mætti að beina straumnum í rétta átt og láta þetta flæða áfram af fullum krafti.“
Oft segir hún það hafa gengið vel. „En stundum hef ég þurft að minna mig á æðruleysið og hvað er í minni stjórn og hvað ekki. Eftir marga slíka hringi kemur að þeim tímapunkti að það er best að kveðja og hleypa nýjum kröftum í baráttuna. Eftir vandlega íhugun í nokkurn tíma finn ég að sá tímapunktur er núna.“
Kolbeinn Tumi Daðason fréttastjóri tekur við stjórn fréttastofunnar frá og með deginum í dag. Í frétt Vísis um málið segir að Erla Björg hafi greint frá ákvörðun sinni að segja upp starfi sínu í morgun.
Færri fréttatímar og breytt vörumerki
Reglulega hafa borist fréttir af breytingum innan Sýnar, sem lagði niður vörumerkið Stöð 2 í fyrra. Í haust var tilkynnt um fækkun sjónvarpsfréttatíma og í síðasta mánuði var fréttaflutningi í sjónvarpi hætt um helgar og á almennum frídögum. Þá var fjórum starfsmönnum fréttastofu sagt upp sem og verktakasamningum.
„Þetta er gert í ljósi þess að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla heilt yfir á Íslandi er að óbreyttu algjörlega ósjálfbært,“ sagði Herdís Dröfn Fjeldsted við RÚV þegar þetta var tilkynnt.
Gengi Sýnar hefur fallið um 42% á einu ári í kauphöllinni og hafa markaðsaðilar spáð því að hún muni falla mest af öllum skráðum félögum því ári sem nú er hafið. Engin viðskipti hafa verið með hluti félagsins þegar þetta er skrifað.













































Athugasemdir