Ljósvist í íbúðarhúsnæði hefur nú í fyrsta sinn verið skilgreind í byggingarreglugerð, auk þess sem fjallað er ítarlega um kröfur sem henni tengjast og sett fram markmið. Þetta kemur í kjölfar gagnrýninnar umræðu um skuggavarp og aðgengi að dagsbirtu á síðustu árum.

Ljósvist er samansafn ýmissa þátta sem snúa að lýsingu, svo sem dagsljósi og raflýsingu, sem saman lýsa sjónskilyrðum og þeirri upplifun sem rýmið veitir. Þetta er í fyrsta sinn sem heildstæð umfjöllun um ljósvist er innleidd í byggingarreglugerð, segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Breytt reglugerð á aðeins við um þær framkvæmdir sem byggja á deiliskipulagi sem er samþykkt eftir 1. maí næstkomandi og frá 1. ágúst 2027 gildir hún um allar framkvæmdir sem sótt er um byggingarleyfi fyrir. Hverfi sem byggð voru áður eða eru í byggingu nú byggja á óljósari og rýmri reglum um skuggavarp. Sem dæmi um ramma fyrir þéttleika og skuggavarp sem verið hefur í gildi eru einföld „meðmæli“ í aðalskipulagi með fjarlægð milli bygginga, sem ekki voru bindandi á neinn hátt.
Þannig mátti sjá að í skipulagi fyrir nýtt hverfi á Ártúnshöfða í Reykjavík, sem nú er í byggingu, voru flest leiksvæði barna og götur í skuggavarpi þegar venjulegum vinnudegi lauk á jafndægrum, auk þess sem hin skipulagða byggð skyggir á Bryggjuhverfið fyrir neðan. Það þrátt fyrir að „mælt væri með því“ að fimm tímar af sólarljósi ættu að berast á helming sérstakra dvalar- eða leiksvæða utandyra 1. maí, en 72% daga ársins eru dimmari en það.
Breytingarnar á reglugerðinni voru undirritaðar á föstudag og var þetta síðasta reglugerðin sem Inga Sæland undirritaði sem félags- og húsnæðismálaráðherra.
Með breytingunum er neglt niður að gæta skuli að því að byggingar og önnur mannvirki hafi „eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð“ og staðsetning vistarvera taki mið af dagsbirtu og útsýni þannig að góðrar ljósvistar gæti í vistarverum.
Þá verði mannvirki hönnuð og byggð þannig að tekið sé tillit til þarfa allra aldurshópa vegna ljósvistar og að hún sé í fullu samræmi við þá starfsemi sem fer fram við eða innan mannvirkis.





Skilgreindar kröfur eru gerðar varðandi raflýsingu, daglýsingu í vistarverum, útsýni í vistarverum og að komið sé í veg fyrir ljósmengun.
Markmiðum og kröfum í reglugerðinni er fylgt eftir með umfangsmiklum tæknileiðbeiningum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur unnið að í samvinnu við hagaðila síðustu mánuði. Reglugerðin inniheldur þannig rammann en tæknileiðbeiningarnar hina tæknilegu útfærslu – sem eru nýmæli.
Stundin, forveri Heimildarinnar, fjallaði um áhrif þéttingar byggðar á ljósvist í nýjum hverfum á höfuðborgarsvæðinu í maí 2022, í ljósi þess að ekkert viðmið væri til staðar um aðgang að sólarljósi eða dagsbirtu og að ný byggð byði upp á verulega skerta ljósvist.
Þar kom meðal annars fram að í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar væri fjallað um skuggavarp, þar sem segði meðal annars: „Bil á milli húsa þarf að vera tvöföld vegghæð svo nægjanleg birta náist á útisvæði yfir sumarmánuði. Einnig er á jafndægri skuggavarp á byggingu norðan megin ásættanlegt.“ Skipulag nýrra þéttingarreita tók hins vegar ekki mið af þessu, þar sem ekki var um bindandi ákvæði að ræða. Tilgreiningin kom þar að auki fram í viðauka en ekki í meginhluta skipulagsins.

Ásta Logadóttir, verkfræðingur og sérfræðingur í ljósvist, benti á að þetta ylli breytingu á hversdagslífi og lífsgæðum Íslendinga.
„Í torfkofunum var verið að vinna úti mikinn hluta ársins og þá fékk fólk mun meiri dagsbirtu heldur en við erum að fá í dag, því við erum yfir 90% tímans innandyra. Þau fengu dagsbirtuna í mun meiri mæli,“ sagði hún. „Með þéttingu byggðar þá byrjar þessi takmörkun að eiga sér stað, að dagsljósið komist ekki inn í byggingarnar. Og þá fer hættan að aukast. Ef við förum að búa til einhverjar skuggaborgir, þá er það ekki björt framtíð sem bíður okkar.“
Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir að vorið 2022 hafi komið fram gagnrýni á að skýrari reglur um ljósvist skorti í byggingarreglugerð hér á landi. Sama sumar hélt HMS opinn fund um mikilvægi ljósvistar og í kjölfarið tók til starfa samráðshópur sem í áttu sæti fulltrúar frá Arkitektafélagi Íslands, Grænni byggð, Ljóstæknifélagi Íslands, Samark (Samtökum arkitektastofa), Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Samtökum rafverktaka og Verkfræðingafélagi Íslands.


























Athugasemdir