Í fyrstu yfirlýsingu sinni eftir að bandamenn Úkraínu sögðust hafa samþykkt helstu öryggisábyrgðir fyrir úkraínsk stjórnvöld á leiðtogafundi í París, gagnrýndu Rússar áætlunina harðlega í morgun.
Í yfirlýsingu rússneskra stjórnvalda var áætlunin kölluð „hernaðarsinnuð“ og virtust slá á vonir um að hún myndi leiða til skjótra lykta átakanna sem brátt hafa staðið yfir í fjögur ár.
Evrópskir leiðtogar og sendifulltrúar Bandaríkjanna tilkynntu fyrr í vikunni að öryggisábyrgðir fyrir Úkraínu myndu fela í sér eftirlitskerfi undir forystu Bandaríkjanna og evrópskt fjölþjóðlegt herlið sem yrði sent á vettvang ef vopnahlé næðist.
„Allar slíkar sveitir og mannvirki verða álitin lögmæt hernaðarskotmörk fyrir rússneska herinn,“ sagði Maria Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, í yfirlýsingu.
Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað varað við því að þau myndu ekki sætta sig við að nokkurt NATO-ríki sendi friðargæslulið til Úkraínu og hótað að slíkt lið gæti orðið fyrir skotárás Rússa á meðan allsherjarárás þeirra heldur áfram.
„Nýjar hernaðarsinnaðar yfirlýsingar svokallaðs bandalags viljugra þjóða og stjórnarinnar í Kænugarði mynda saman raunverulegan stríðsöxul,“ sagði Zakharova og kallaði áætlanir bandamanna Kænugarðs „hættulegar“ og „eyðileggjandi“.

Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í París myndi fela í sér að Bretland, Frakkland og aðrir evrópskir bandamenn sendi herlið til Úkraínu eftir að vopnahlé kæmist á.
Nákvæmar upplýsingar um herliðið og hvernig það myndi bregðast við liggja ekki fyrir og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segist enn ekki hafa fengið „ótvírætt“ svar um hvað þau myndu gera ef Rússar réðust aftur inn í landið.
Leiðtogar Úkraínu hafa einnig sagt að erfiðustu spurningunum í hvers kyns mögulegu samkomulagi um að binda enda á átökin svo sem spurningum um yfirráð yfir landsvæðum í Donbas-héraði í austri og örlög Zaporizhzhia-kjarnorkuversins sem er á valdi Rússa, væri enn ósvarað.














































Athugasemdir