Einn er látinn eftir alvarlegt umferðarslys á Biskuptstungnabraut, sunnan við Þrastarlund, upp úr klukkan hálf tvö í dag. Þetta er fyrsta banaslysið í umferðinni í ár.
Um var að ræða árekstur tveggja bifreiða og þrír einstaklingar voru í bifreiðunum. Tveir voru fluttir til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en ökumaður annarrar bifreiðarinnar var úrskurðaður látinn á vettvangi.
Ásamt lögreglu voru sjúkrabifreiðar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Brunavarnir Árnessýslu og þyrla Landhelgisgæslu boðuð á vettvang en þyrla afturkölluð skömmu síðar. Jafnframt var Rannsóknarnefnd samgönguslysa boðuð.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi fer með rannsókn slyssins og ekki verða gefnar frekari upplýsingar að sinni.
Fyrsta banaslysið í umferðinni í fyrra varð 21. febrúar, en nú á það sér stað á þriðja degi ársins. Í fyrra létust tíu í umferðinni.
Uppfært: Maðurinn sem lést í slysinu er myndlistamaðurinn Goddur, Guðmundur Oddur Magnússon. Hann var stjötugur að aldri og var þekktur sem helsti listgagnrýnandi landsins.









































Athugasemdir