Rússar náðu sinni mestu framrás í Úkraínu í heilt ár

Rúss­lands­her her­tók meira úkraínsku landi í nóv­em­ber en í nokkr­um mán­uði ár­ið á und­an. Rúss­land hef­ur her­tek­ið mun meira land á þessu ári en því síð­asta, eða 5.400 fer­kíló­metra. Á sama tíma hafa Banda­rík­in hætt hern­að­ar­stuðn­ingi.

Rússar náðu sinni mestu framrás í Úkraínu í heilt ár
Árás nærri Kyiv Fólk gengur fram hjá skemmdum verslunum fyrir framan íbúðarhús sem stendur í ljósum logum eftir drónaárás Rússa á borgina Vyshhorod í Kyiv-héraði snemma í gær, í miðri innrás Rússa í Úkraínu. Drónaárás Rússa varð einum að bana og særði 11 í útjaðri úkraínsku höfuðborgarinnar, að sögn fylkisstjórans í gær. Mynd: AFP

Rússneski herinn náði mestu framrás sinni í Úkraínu í heilt ár í nóvembermánuði, samkvæmt greiningu AFP á gögnum frá bandarísku hugveitunni Institute for the Study of War (ISW).

Í nóvembermánuði náði Rússland yfirráðum yfir 701 ferkílómetra svæði, sem eru næstmestu landvinningar í innrás þeirra á einum mánuði, næst á eftir nóvember 2024, ef frá eru taldir fyrstu mánuðir innrásarinnar þegar víglínan var mjög hreyfanleg.

Ráða nú 19,3% Úkraínu

Í lok nóvember réð rússneski herinn yfir 19,3 prósentum af landsvæði Úkraínu, að fullu eða að hluta, samkvæmt greiningu á gögnum frá ISW, sem vinnur með Critical Threats Project.

Þetta nær yfir svæði sem bæði stjórnvöld í Kyiv og hernaðarsérfræðingar segja að séu undir stjórn Rússlands, auk þeirra svæða sem her Rússa segist hafa yfirráð yfir.

Áður en Rússland réðst inn í febrúar 2022 voru um sjö prósent af landsvæði Úkraínu – Krímskagi og svæði í Donbas-héraði í austri – undir stjórn Rússa.

Framsóknin í nóvember á sér stað á sama tíma og diplómatísk viðleitni til að binda enda á átökin hefur aukist, en Bandaríkin hafa átt í samningaviðræðum við bæði löndin.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ítrekaði kröfur sínar í síðustu viku um að Úkraína léti af hendi landsvæði – þar á meðal land sem Moskva ræður ekki yfir – til að samkomulag gæti náðst. Annars myndu Rússar „berjast til síðasta Úkraínumanns“.

Frá því Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna hafa þau því sem næst hætt öllum hernaðarstuðningi við Úkraínu.

Frá ársbyrjun 2025 hefur Rússland náð yfirráðum yfir nærri 5.400 ferkílómetrum af landsvæði í Úkraínu, sem er tæpum 2.000 ferkílómetrum meira en á sama tímabili árið áður.

Í nóvember hægði þó áfram á framsókn Rússa í Donetsk-héraði – þungamiðju bardaganna milli fylkinganna.

Pokrovsk komin að falli

Rússar náðu um 130 ferkílómetrum af Donetsk í síðasta mánuði, samanborið við meira en tvöfalt það að meðaltali í öðrum mánuðum ársins, og ræður nú yfir meira en 81 prósent héraðsins.

Sveitir Pútíns berjast þar nú um að ná borginni Pokrovsk, hernaðarlega mikilvægri miðstöð sem myndi hafa veruleg áhrif á varnir og birgðaflutninga Úkraínumanna ef hún félli.

Það var þó í Zaporizhzhia-héraði í suðri sem rússneskar hersveitir náðu mestri framsókn í nóvember, þar sem þær náðu 272 ferkílómetrum, jafn miklu og á fjórum mánuðum þar á undan samanlagt, en í Dnipropetrovsk-héraði náðu þær tæpum 200 ferkílómetrum.

Í september 2022 lýstu Rússar því yfir að þeir hefðu formlega innlimað Zaporizhzhia-, Donetsk-, Lúhansk- og Kherson-héruðin, þrátt fyrir að hafa ekki fulla hernaðarlega stjórn á þeim öllum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Úkraínustríðið

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu