Ef sonur minn klárar eitt lestrarhefti vinnur hann sér inn þrjátíu mínútur af öskrandi YouTube-vídeóum þar sem tveir karakterar eru að spila Minecraft, annar er eins konar fugl og hinn eins konar drengur en hvorugur er raunverulega drengur og hvorugur er raunverulega fugl. Þetta er örugglega afleit aðferð við að fá börn til að lesa, álíka og að verðlauna þau fyrir að borða hollan mat með eftirmat og gera þannig annað eftirsóknarvert og hitt leiðinlegt. En maður er bara örvæntingarfull manneskja með litla, ákveðna manneskju fyrir framan sig að reyna að selja bita af ofnbökuðu brokkolíi eða átta blaðsíður um Tínu og Tóta sem fara í Tívolí.
Vei, vei, sagði Tína.
Vó, vó, sagði Tóti.
Þú verður að geta gert það sem þig langar ekki, segi ég og stelst til að kíkja á skilaboðin í símanum. Það þýðir ekki að ætla að fara í gegnum lífið og gera aldrei neitt sem er leiðinlegt, bæti ég við og skrolla hugsunarlaust í gegnum instagram.
Seinna um kvöldið sit ég uppi í alltof litlu barnarúmi sem brakar í, dauðuppgefin, með einn til tvo krakka í fanginu og les. Það er ekkert annað í gangi og í raun ætti þetta að vera drepleiðinlegt. En þegar ég reyni að hætta er ég stoppuð – aðeins meira, bara aðeins meira. Þau eru djúpt sokkin í sinn eigin ímyndaða heim sem er mun stærri en brakandi rúm og háttatími og vilja ekki sleppa honum alveg strax.
Lestrarhraði er mælanlegur, málþroski líka. En það sem skiptir mestu máli fyrir börn og fullorðna er ósýnilegt – hæfileikinn til að ímynda sér veröld sem er ekki beint fyrir framan mann. Að mynda tengsl við fólk sem maður hefur aldrei hitt. Að læra að einhver hugsar öðruvísi og að það sé allt í lagi og mikilvægast af öllu er
bíddu RISA JÓLA GIVEAWAY andvirði 1.750.000 kr þarft bara að henda follow á
sextíu fyrirtæki og deila í story ok
bíddu bara smá






















































Athugasemdir