Blaðamenn af Morgunblaðinu, Vísi og Þjóðmálum sameinuðust í síðustu viku um að verðlauna fólk úr viðskiptalífinu.
Það var Þorsteinn Már Baldvinsson, einn stofnenda og fráfarandi forstjóri útgerðarfélagsins Samherja, sem hlaut svokölluð heiðursverðlun úr hendi blaðamanna við „hátíðlega athöfn“ í Hvalasafninu á Granda í Reykjavík, þar sem 280 manns voru viðstödd, samkvæmt umfjöllunum í Morgunblaðinu, á Vísi og í Viðskiptablaðinu.
Þorsteini var afhent nýtt málverk af honum sjálfum. Hann náði þeim áfanga á ferlinum í ár að víkja úr stóli forstjóra Samherja fyrir syni sínum, Baldvin Þorsteinssyni, en áður hafði hann framselt hluti sína í útgerðinni til Baldvins og annarra barna sinna.
Blaðamennirnir, Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri og eigandi hlaðvarpsmiðilsins Þjóðmála, Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri og þáttarstjórnandi á Morgunblaðinu, Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, og Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á Vísi.is, stýrðu veisluhöldunum og veittu verðlaunin. Þeir hafa verið fastagestir í reglulegum viðburðum undir merkjum Þjóðmála þar sem tekin eru lifandi hlaðvarpssamtöl með áhorfendur í sal, sem sóttir hafa verið af ráðherrum og forkólfum úr atvinnulífinu. Einnig veitti verðlaun Þórður Gunnarsson, fyrrverandi blaðamaður á Vísi og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Morgunblaðið fjallaði um viðburðinn í frétt undir titlinum „Mikið um dýrðir á hátíðarkvöldi Þjóðmála“.
Þar kemur fram að laxeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum var valið „bjartasta vonin“. Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, veitti bankastjóra Íslandsbanka „samfélagsverðlaun Þjóðmála“. Skógarböðin í Eyjarfirði voru valin „kaupmaður ársins“. Viðskiptaverðlaun ársins veittu blaðamennirnir forsvarsmönnum Vekru, fyrir að selja bílaumboðið Öskju og tengd félög til breska bílafyrirtækisins Inchcape, en bílaumboðið flytur inn og selur Kia, Mercedes-Benz, Honda og fleiri tegundir hér á landi.
Heiðursgestur Þjóðmála að þessu sinni var Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor.
Hlaðvarpið Þjóðmál er að öllu leyti í eigu Gísla Freys Valdórssonar í gegnum félagið SAM Consulting slf. Þjóðmál er í samstarfi við fyrrnefnda viðskiptablaðamenn af öðrum fréttamiðlum sem eru fastagestir á viðburðum miðilsins og í umfjöllunum, sem „sérfræðingar Þjóðmála“.












































Athugasemdir