Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í dag að Evrópa vildi ekki vera „leppríki“ sem væri háð bandarískum og kínverskum tæknifyrirtækjum og kallaði eftir því að „Evrópa yrði í forgangi“ í geiranum.
„Evrópa vill ekki vera viðskiptavinur stóru frumkvöðlanna eða stóru lausnanna sem koma annaðhvort frá Bandaríkjunum eða Kína, við viljum svo sannarlega hanna okkar eigin lausnir,“ sagði Macron á leiðtogafundi í Berlín og bætti við að þessi afstaða væri „höfnun á þeirri stöðu að vera leppríki“.
Macron talaði á evrópska leiðtogafundinum um stafrænt fullveldi þar sem saman voru komnir leiðtogar í tæknigeiranum og ráðherrar víðs vegar að úr álfunni, þar á meðal Friedrich Merz, kanslari Þýskalands.
„Ég er sannfærður um að það að setja Evrópu í forgang þurfi að verða okkar leiðarljós, og það þarf að byrja á opinberum innkaupum,“ sagði Macron.
„Því vitið þið hvað? Kínverjar velja eingöngu kínverskt ... og Bandaríkjamenn setja Bandaríkin mjög eindregið í forgang,“ sagði hann.
Hann sagði að breyta þyrfti áherslum í nálgun ESB á löggjöf í geiranum.
„Undanfarin ár höfum við sett í forgang að setja reglugerðir fyrir innlenda aðila,“ sagði Macron. „Við verðum að ná fram nýsköpun áður en við setjum reglur.“
Þetta er í samræmi við nýlegar ákvarðanir Evrópuþingsins og ákalli Friedrich Merz Þýskalandskanslara um að draga úr skrifræði og regluverki til að efla efnahagslíf Evrópu.
Hann lagði einnig áherslu á hversu mikið væri í húfi fyrir Evrópu þegar kemur að meira sjálfræði í tæknigeiranum.
„Það er ekki hægt að helga styrk efnahagslífsins „hinum stóru sjö“,“ sagði hann og vísaði þar til bandarísku tæknirisanna Alphabet, Amazon, Apple, Meta, Microsoft, Nvidia og Tesla.
„Þar að auki er ekki hægt að eftirláta (hinum stóru sjö) alla virkni lýðræðisins ... það er óþolandi,“ hélt hann áfram við lófaklapp fundargesta.



















































Athugasemdir