Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar, sem nær til sjálfrar borgarinnar og grunnstarfsemi hennar, á að skila 4,8 milljarða króna afgangi árið 2026, samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs sem kynnt var í dag. Tilkynning um áætlunina var birt í Kauphöllinni rétt fyrir hádegi. Áætlað er að afgangurinn vaxi á næstu árum og verði 10,6 milljarðar króna árið 2030.
Veltufé frá rekstri – sem mælir hversu sterkur daglegur rekstur er – verður 7,7 prósent af tekjum árið 2026 og gert er ráð fyrir að það haldist í kringum 8 prósent næstu ár. Þetta endurspeglar, að sögn borgarinnar, traustan rekstur og góða sjóðsstöðu.
Eignir A-hluta verða um 326,8 milljarðar króna í lok árs 2026, og eiginfjárhlutfall 30 prósent. Hreinar skuldir sem hlutfall af tekjum eru áætlaðar 82 prósent og eiga að lækka á áætlunartímabilinu.
Fjárfestingar A-hluta verða 23,7 milljarðar króna árið 2026, þar af 3 milljarðar í stofnframlög til íbúðabygginga og tengdra verkefna. Lántaka borgarsjóðs verður 14 milljarðar króna, en handbært fé í árslok á að nema 17,1 milljarði króna.
Reykjavíkurborg segir að fjárhagsáætlunin endurspegli árangur af markvissri fjármálastjórn og að öll markmið fjármálastefnu borgarinnar verði uppfyllt á tímabilinu. Skuldir borgarinnar séu lágar í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og rekstur byggi á sjálfbærum grunni.
Áætlað er að sameiginleg afkoma borgarinnar verði jákvæð um 18,7 milljarða króna, og að EBITDA – sem mælir rekstrarafkomu án fjármagnsliða – nemi 69,6 milljörðum króna. Útkomuspá fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir 14,6 milljarða afgangi, þannig að afkoman á næsta ári verður betri en í ár.
Einnig er gert ráð fyrir að rekstur haldi áfram að batna á tímabilinu 2027–2030, með auknu veltufé og sterkari stöðu til að standa undir fjárfestingum í innviðum borgarinnar.
Reykjavíkurborg áætlar að skuldaviðmið verði 103 prósent árið 2026, sem er vel undir 150 prósent hámarki sveitarstjórnarlaga.












































Athugasemdir