Samfylkingin mælist með langmestan stuðning allra stjórnmálaflokka á Íslandi í nýjum þjóðarpúlsi Gallups, sem Ríkisútvarpið greinir frá.
Ári eftir þingkosningar, þar sem Samfylkingin fékk 20,9% fylgi, mælist hún með 31,9% fylgi í könnun Gallups. Sjálfstæðisflokkurinn missir hins vegar enn fylgi og fer niður í 17,6%.
Mest ris er á Miðflokknum, sem stekkur upp í 16,3% fylgi eftir að hafa mælst með 11,8% fyrir mánuði í sömu könnun. Mest mældist hann með 18,7% fylgi í stakri könnun í lok september 2024, sem leiddi þó aðeins til 12,1% stuðnings í þingkosningunum.
Miðflokkurinn hefur undanfarið lagt aukna áherslu á þjóðrækni og það sem formaður flokksins kallar heilbrigða skynsemi, en undir það fellir hann áherslu á að draga úr komum flóttamanna, sem þó hefur fækkað mjög síðustu misserin, og andstöðu við nánara samstarf við Evrópusambandið. Á sama tíma hefur Sigmundur lagt til að Donald Trump Bandaríkjaforseti fái boð til Íslands og honum verði jafnvel veitt verðlaun.
Píratar mælast nú með 1 þingmann við 3,9% fylgi, sem er aukning úr 2,9% í síðustu könnun.
Hvorki Vinstri græn né Sósíalistar ná vopnum sínum á ný. Sósíalistar, sem fengu 4% í kosningunum, mælast aðeins með 2,3% fylgi í kjölfar hallarbyltingar fyrr á árinu. Vinstri græn fá stuðning 2,6% í könnun, sem er aukning um 0,3% miðað við alþingiskosningarnar.
            
        
    













































Athugasemdir