Hagnaður bankanna er aðdáunarverður. Í krefjandi efnahagsumhverfi högnuðust kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír – Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki – um 73 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Þeim gengur heilt yfir betur en á fyrstu níu mánuðum síðasta árs, þrátt fyrir krefjandi efnahagsumhverfi.
Einn þessara þriggja banka, Landsbanki, mun væntanlega endurgreiða Íslendingum stóran hluta hagnaðarins í formi arðgreiðslu í ríkissjóð. Það hefði átt við um Íslandsbanka líka en hann var fyrr á árinu seldur. Arion banki mun skila sínum hagnaði til fjárfesta, sem að stóru leyti er reyndar íslenskur almenningur í gegnum lífeyrissjóði.
Uppistaðan í eignum allra bankanna eru fasteignalán til einstaklinga. Í tilviki Arion banka er meira en helmingur af útlánum bankans til einstaklinga og þar eru fasteignaveðlán langstærsti hlutinn. Hjá Landsbankanum voru hreinar vaxtatekjur 49,4 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hreinar þjónustutekjur voru 9,2 milljarðar króna. Megnið af þessum peningum kemur frá skuldsettum heimilum og þeim sem nota þjónustu bankans. Sem í mörgum tilvikum er harla val. 43 prósent af heildarútlánum Landsbankans eru íbúðalán til einstaklinga, rétt um 800 milljarðar króna.
Þessar kröfur sem bankarnir eiga á íslensk heimili eru líka tryggar og góðar. Hjá Landsbankanum er aðeins hálft prósent útlána til einstaklinga í vanskilum sem hafa dregist meira en 90 daga á meðan 1,3 prósent lána til fyrirtækja eru það. Landsbankinn kallar þessi lán vandræðalán. Upp á samhengi voru fasteignalán til heimila upp á samtals 1,4 milljarða króna í vanskilum í meira en 90 daga en 2,1 milljarðs lán til fyrirtækja í sjávarútvegi.
Samandregið eru fasteignalán til íslenskra heimila uppistaðan í rekstri, hagnaði og gangi allra bankanna þriggja. Það verður því að segjast eins og er að algjör skortur á undirbúningi þeirra við vaxtadómi Hæstaréttar kemur á óvart. Þrátt fyrir að fimm ár séu frá því að Neytendasamtökin bentu bönkunum fyrst á að skilmálar fyrir vaxtabreytingum stæðust ekki lög, að fjögur ár séu liðin frá því að samtökin stefndu þeim öllum fyrir dóm, og meira en ár síðan EFTA-dómstóllinn gaf ráðgefandi álit um að Neytendasamtökin hefðu rétt fyrir sér, var enginn þeirra tilbúinn með nýja lausn fyrir neytendur.
Enginn þeirra gat sinnt mikilvægasta tilgangi sínum og óvíst er hvernig þeim mun takast að uppfylla það í náinni framtíð. Gerist það ekki fljótlega má velta fyrir sér hvort Íslendingar geti sætt sig lengur við að vera ofurseldir bankakerfi sem byggir ævintýralegan hagnað sinn á þeirri þörf okkar að eiga þak yfir höfuðið.
Sigurvegarar
Undanfarin misseri hafa bankarnir líka hagnast mjög á tilraunum Seðlabankans til að ná tökum á verðbólgu. Stjórnendur þeirra hafa litið svo á að það sé hluti af samfélagsábyrgð sinni að miðla vaxtahækkunum Seðlabankans áfram til lántaka, sem í reynd jók á vaxtamun þeirra og um leið myndarlegan hagnað.
Þessar öruggu eignir sem skila myndarlegum tekjum, hafa svo verið grunnur að misgáfulegum fjárfestingum og digrum útgreiðslum til eigendanna. Arion banki dregur það fram í árshlutauppgjöri sínu að 22 milljörðum króna hafi verið skilað til hluthafa bankans í gegnum arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa það sem af er ári. Íslandsbanki hefur á sama tíma byrjað að skila hagnaðinum til nýrra eigenda sinna eftir að einkavæðingunni lauk. „Íslandsbanki er í öfundsverðri stöðu,“ segir í fréttatilkynningu.
Á meðan stendur á árangrinum af vaxtavegferð Seðlabankans og sýna nýjustu mælingar hækkun en ekki lækkun á verðbólgu. Í fyrsta sinn síðan í janúar mælist hún 4,3 prósent í október, sem stillir væntingum allra um vaxtalækkun í hóf eða gerir kannski úti um þær í bili.
Stjórnvöld sem hafa um árabil treyst á að markaðurinn leysi húsnæðismálin. Það hefur þó augljóslega ekki virkað.
Húsnæðispakkinn
Staðan á fasteignamarkaði var þó þegar svo dimm að jafnvel algjör stöðvun í veitingu fasteignalána er ekki nema punkturinn yfir i-ið á nær óvirkum markaði. Fyrstu kaupendur hafa ekki fengið greiðslumat vegna stífra skilyrða Seðlabankans og heimilin hafa flúið í verðtryggð lán vegna óbærilegra vaxtahækkana. Nú þegar Hæstiréttur hefur bannað bönkunum að rökstyðja vaxtabreytingar með eigin tilfinningum hafa fulltrúar þeirra boðað að lán verði enn dýrari í framtíðinni fyrir vikið.
Svo slæm er staðan að ríkisstjórnin efndi til blaðamannafundar í efri byggðum Reykjavíkur í einhverri erfiðustu vetrarfærð síðari ára, til að kynna sérstakan húsnæðispakka. Þann fyrsta af að minnsta kosti tveimur slíkum pökkum.
Jafnvel þó að langflestar aðgerðirnar hafi í raun verið áður kynntar eða séu lausnir sem þegar hefur verið stuðst við, hlýtur fundurinn einn og sér að teljast vera til marks um hversu erfið staða blasir við flestu launafólki sem ekki hefur náð að eignast fjárfestingaeign og þannig passífa leiguinnkomu. Það sem stóð upp úr á þessum fundi var helst tvennt: boðað afnám verðtryggingar og ný nálgun þegar kemur að því að tryggja þarfa uppbyggingu.
Ríkisstjórnin ætlar að fasa út verðtrygginguna, sem fjármálaráðherra kallaði „barn síns tíma“, eftir rúmt ár. Bankarnir eru reyndar þegar búnir að grípa til þess ráðs að hætta að bjóða verðtryggð lán að mestu leyti. Nema auðvitað til fyrstu kaupenda sem fæstir virðast ráða við greiðslubyrði af óverðtryggðu húsnæðisláni sem ber hátt í tíu prósent vexti.
Á vettvangi Reykjavíkurborgar var þó jafnvel enn athyglisverðara skref stigið: uppbygging fjögur þúsund nýrra íbúða í Úlfarsárdal. Uppbygging á ekki að eiga sér stað líkt og áður þegar ný hverfi hafa verið byggð. Hugmyndafræðin um að treysta verktökunum hefur augljóslega ekki virkað. Í miðri húsnæðiskreppu stendur urmull nýrra íbúða tómar.
Uppbygging hefur sökum einhverrar hugmyndafræði fengið að vera um of á forsendum verktaka sem líkt og bankarnir vinna út frá því sem frumskyldu að hámarka arðsemi eigin fjár, en ekki lífsgæði íbúa. Af einhverjum ástæðum hefur borgin ekki staðið nógu fast á að byggt sé á forsendum fólks hingað til.
Svo víðtækur er sá vandi að það er bæði hægt að horfa til íbúanna í Breiðholti sem lifa í grænum skugga gímaldsins eða íbúa í þéttbyggðum lúxusíbúðakjörnum sem aldrei sjá skugga, því sólin nær ekki til þeirra. Svo má líka sjá þennan vanda með því að horfa upp á þaksvalir eins og tveggja svefnherbergja blokkaríbúða sem hafa staðið svo mánuðum skiptir á sölu fyrir 160 og upp í 250 milljónir. Vanda sem sumum dettur í hug að segja að stafi af skorti á bílastæðum.
Áhugi fjármagns
Borgin gengur þó ekki svo langt að boða að hún byggi hverfið sjálf, líkt og hugmyndir Sósíalistaflokksins sem í febrúar settist í meirihluta gerðu ráð fyrir, heldur á að fara í samkeppnisútboð við áhugasama. En þar hafa stjórnendur verktakafyrirtækjanna og fjármagnseigendur tækifæri til að stíga kirfilega niður fæti.
„Það á eftir að móta forsendur eða skilyrði og þá líka hvort það sé eitthvað sem uppbyggingaraðilum, verktökum, þyki áhugavert að taka þátt í,“ sagði framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hagsmunasamtaka fyrirtækja í byggingariðnaði, um áformin við RÚV, daginn eftir að þau voru kynnt. Það er líka eðlilegt að umbjóðendur hans hafi áhyggjur af því að þurfa að gera hlutina á öðrum forsendum en að reyna að hámarka arðsemi.
Nýleg umfjöllun Viðskiptablaðsins sýnir þó að það hefur ekki gengið jafn vel og oft áður. Hagnaður átta af helstu byggingaverktökum landsins hefur dregist saman á milli ára. Eins milljarðs króna hagnaður var þó hjá þessum fyrirtækjum árið 2024 en hafði verið 2,4 milljarðar árið áður. Mestu munar líklega um tæplega fimm hundruð milljóna aukið tap Íslenskra aðalverktaka, sem hefur oftar en ekki verið rekið með tapi síðustu ár. Jafnvel í gegnum einhverja mestu góðæristíma síðari tíma á fasteignamarkaði eftir Covid.
Upplegg Reykjavíkurborgar er afrakstur sameiginlegrar vinnu með stærstu launþegahreyfingum landsins. Það verður því að teljast líklegt að vel fjáð stéttarfélög standi vel að vígi í samkeppninni um að verða samstarfaðili borgarinnar um uppbygginguna. Hugmyndin er þó ekki ný heldur í sama takti og borgir annars staðar á Norðurlöndunum hafa farið um langt skeið, og í anda sögulegrar húsnæðisuppbyggingar á fyrri hluta síðustu aldar í Reykjavík.
Það kann að vera að bankarnir og verktakarnir og þau sem hafa síðustu áratugi byggt og selt þjóðinni heimili sín græði aðeins minna. Jafnvel að það verði ekki viðvarandi vöxtur í arðsemi eigin fjár næstu ársfjórðunga. Það kann líklega að vera að það sé allt í lagi, þýði það að húsnæði verði fyrst og fremst að heimilum en ekki fjárfestingavörum.
 
                 
            
        
    


























































Athugasemdir