Ívar hrekkjavöku fagnað víða um heim. Hátíðin rekur upphaf sitt til Kelta sem trúðu því fyrir 2.000 árum að mörk hinna lifandi og dauðu væru óljós þetta kvöld. En það er ekki aðeins á hrekkjavöku sem andi þeirra, sem horfnir eru á braut, brýst óþyrmilega milli heima.
Brostið hjarta
Í skáldskap er harmur gjarnan banvænn. Lér konungur deyr úr sorg í kjölfar fráfalls Kordelíu, dóttur sinnar. Heathcliff veslast upp eftir andlát Katrínar í Fýkur yfir hæðir. Nanna, kona Baldurs, andast í útför eiginmanns síns í norrænni goðafræði.
En ekki fyrr en nýlega var sýnt fram á að það er enginn skáldskapur að fólk geti dáið úr harmi.
Árið 1990 tóku japanskir læknar eftir því að fólk, sem hafði nýverið misst maka eða náinn ættingja, leitaði gjarnan á spítala með einkenni hjartaáfalls. Við skoðun kom þó í ljós að kransæðarnar voru ekki stíflaðar, eins og þegar um er að ræða hefðbundið hjartaáfall, heldur var hluti hjartans lamaður.
Japönsku læknarnir nefndu heilkennið Takotsubo eftir sekk-laga gildru sem kolkrabbar eru veiddir í, en þegar sjúklingur þjáist af Takotsubo verður hjarta hans í laginu eins og poki.
Engar skýringar hafa enn fundist á ástandinu sem á ensku gengur gjarnan undir heitinu „broken heart syndrome“ – eða „brostið hjarta“. En þótt læknar skilji ekki nákvæmlega af hverju það stafar er viðurkenning á tilvist þess mikilvægt skref í að bæta skaðann.
Dularfullt samband
Það er ekki aðeins harmur sem herjar á hjartað.
Kvennaverkfallið sem fram fór í síðustu viku fór fyrir brjóstið á mörgum. Virtust sumir ekki sjá þörf fyrir jafnréttisbaráttu í landi þar sem kona gegndi stöðu forseta, forsætisráðherra, biskups, borgarstjóra og ríkislögreglustjóra. En þótt við sjáum ekki eitthvað er það ekki sjálfkrafa skáldskapur.
Nýverið bárust fréttir af því að fundist hefði meðferð við „brostnu hjarta“. Þótt „brostið hjarta“ sé í fæstum tilfellum banvænt hættir þeim við heilsuleysi og hjartakvillum, sem einu sinni hefur þróað með sér heilkennið.
Ný rannsókn við Háskólann í Aberdeen í Skotlandi sýnir hins vegar að sambland af hugrænni atferlismeðferð og líkamsrækt getur snarminnkað langtímaskaðann sem hlýst af Takotsubo. Sagði David Gamble, sem fór fyrir rannsókninni, niðurstöðurnar sýna fram á hið dularfulla samband „hugar og hjarta“.
Grikkur í jafnréttisparadís
Samkvæmt nýrri könnun Gallup telur næstum helmingur landsmanna jafnrétti milli karla og kvenna hafa verið náð.
Á yfirborðinu virðist líka svo vera. Forseti, forsætisráðherra, biskup, borgarstjóri og ríkislögreglustjóri eru jú konur. En á yfirborðinu virðist Takotsubo heilkennið líka vera hefðbundið hjartaáfall.
Í dag er mörkum hins sýnilega og ósýnilega fagnað með gotti og grikkjum. Hætta er hins vegar á að þegnar hinnar íslensku jafnréttisparadísar geri sjálfum sér grikk er þeir afneita því sem virðist þeim hulið.
„Hugurinn ber þig hálfa leið“, segir máltækið. Hugarfar heillar þjóðar olli því að Ísland varð leiðandi á sviði jafnréttismála. En hvað verður um jafnréttisparadísina þegar hugarfarið breytist?
Hugurinn hefur áhrif á hið efnislega, hvort sem um ræðir hjartað eða samfélagið. Takotsubo er ekki hægt að meðhöndla með hefðbundnum hjartalyfjum. Ójafnrétti verður ekki upprætt öðruvísi en að hugur fylgi máli.
Baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna er hvergi nærri lokið. Afskrifum við ójafnréttið sem skáldskap er baráttan hins vegar töpuð.



















































Athugasemdir (3)