Hamas fer hamförum á frelsuðu svæðunum

Átta menn tekn­ir af lífi á göt­um Gaza á með­an Ham­as-sam­tök­in taka aft­ur völd á svæð­inu eft­ir vopna­hlé.

Hamas fer hamförum á frelsuðu svæðunum
Aftökur á götum úti Hamas-samtökin gáfu út myndband af aftöku á átta einstaklingum sem þau fullyrtu að væru samverkamenn Ísraels. Mynd: Skjáskot / Hamas

Hamas-samtökin hertu tök sín á rústum borga á Gaza í gær, hófu aðgerðir og tóku af lífi meinta samverkamenn Ísraels, á sama tíma og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hét því að afvopna samtökin.

Hamas birti í gær myndband á opinberri rás sinni sem sýndi aftöku átta grunaðra manna á götu úti. Mennirnir voru með bundið fyrir augun og krjúpandi. Vígamenn Hamas kölluðu þá „samverkamenn og útlaga“.

Myndbandið, sem virðist vera frá mánudagskvöldinu, birtist á sama tíma og vopnuð átök stóðu yfir milli ýmissa öryggissveita Hamas og vopnaðra palestínskra ættflokka á svæðinu, á fimmta degi vopnahlés milli Hamas og Ísraels sem Bandaríkin höfðu milligöngu um.

Norðarlega á svæðinu hefur vopnuð lögregla Hamas-stjórnarinnar, með svartar grímur, hafið aftur eftirlit á götum úti, í kjölfar brotthvarfs ísraelskra hermanna.

Þegar rútur með föngum sem sleppt var úr ísraelskum fangelsum komu til Gaza á mánudag, sáu liðsmenn Ezzedine al-Qassam-sveitanna, hersveita Hamas, um mannfjöldastjórnun.

Á sama tíma hefur öryggissveit Hamas staðið fyrir aðgerðum gegn vopnuðum ættflokkum og gengjum, sem sum eru sögð njóta stuðnings Ísraels.

„Hörð átök brutust út – og standa enn yfir – sem hluti af viðleitni til að uppræta samverkamenn,“ sagði vitnið Yahya, sem bað um að nafn sitt yrði ekki birt að fullu af ótta við hefndaraðgerðir.

 Sprengingar og handtökur 

Annar íbúi á Gaza, Mohammed, sagði við AFP: „Í margar klukkustundir í morgun voru hörð átök milli öryggissveita Hamas og meðlima Hilles-fjölskyldunnar.“

Bardagarnir áttu sér stað í Shujaiya, austur af Gazaborg, nálægt hinni svokölluðu Gulu línu, en Ísraelsher heldur enn um helmingi Gaza handan hennar.

„Við heyrðum mikla skothríð og sprengingar og öryggissveitirnar handtóku nokkra þeirra. Við styðjum þetta,“ sagði Mohammed, sem einnig bað um að nafn sitt yrði ekki birt að fullu.

Palestínskur heimildarmaður með þekkingu á öryggismálum á Gaza sagði við AFP að öryggisdeild Hamas, nýstofnuð sveit sem nefnist „Fælingarsveitin“, stæði að „viðvarandi vettvangsaðgerðum til að tryggja öryggi og stöðugleika“.

„Skilaboð okkar eru skýr: Það verður ekkert pláss fyrir útlaga eða þá sem ógna öryggi borgaranna,“ sagði hann.

Hermenn hefja skothríð 

Hamas-samtökin hafa verið ráðandi fylking Palestínumanna á Gaza síðan þau sigruðu keppinaut sinn Fatah í vopnuðum átökum árið 2007. Halda átti þingkosningar á Gazasvæðinu í maí 2021, en þeim var frestað um óákveðinn tíma. Skoðanakannanir höfðu sýnt mikið forskot Fatah-hreyfingarinnar. Eftir að átök hófust við Ísrael hafa Hamas-samtökin hins vegar mælst með mikið forskot.

Ísraelar krefjast þess að Hamas komi ekki að stjórn Gaza í framtíðinni, skili líkamsleifum allra látinna gísla og afvopnist að lokum.

Benjamin Netanjahú forsætisráðherra sagði í gær að áætlun Bandaríkjanna fyrir Gaza væri „mjög skýr“, að því leyti að eftir að Hamas skilaði föngunum myndi hefjast „bæði afvopnun og afhernaðarvæðing.“

„Í fyrsta lagi verður Hamas að leggja niður vopn sín og í öðru lagi viljum við tryggja að engar vopnaverksmiðjur séu inni á Gaza. Það er ekkert vopnasmygl inn á Gaza. Það er afhernaðarvæðing,“ sagði hann í viðtali við CBS News.

Í 20 punkta áætlun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, segir að liðsmenn Hamas sem samþykkja að „leggja niður vopn sín“ fái sakaruppgjöf.

„Ef þeir afvopnast ekki, munum við afvopna þá“
Donald Trump
Um Hamas-samtökin sem stjórna Gazasvæðinu.

„Ef þeir afvopnast ekki, munum við afvopna þá,“ sagði Trump við fréttamenn í Hvíta húsinu degi eftir að hafa heimsótt Miðausturlönd til að fagna vopnahléinu á Gaza.

„Og það mun gerast hratt og kannski með ofbeldi.“

Í skjalinu, sem heimsveldin samþykktu á mánudag á leiðtogafundi í Egyptalandi undir formennsku Trumps, segir að Gaza verði afhernaðarvætt og Hamas fái ekkert leiðtogahlutverk.

Traustvekjandi nærvera

En fyrir marga Palestínumenn sem voru að endurbyggja heimili sín og halda áfram með líf sitt í gær innan um rústir Gaza var nærvera vígamanna traustvekjandi.

„Eftir að stríðinu lauk og lögreglan dreifðist um göturnar fórum við að finna fyrir öryggi,“ sagði hinn 34 ára gamli Abu Fadi Al-Banna í Deir al-Balah, miðsvæðis á Gaza.

Hamdiya Shammiya, 40 ára, sem flúði heimili sitt í norðurhluta Gaza vegna bardaganna til að leita skjóls í borginni Khan Yunis í suðri, var sammála.

„Guði sé lof að stríðið er loksins búið. Við erum farin að anda aðeins,“ sagði hún.

Á meðan Palestínumenn leituðu stöðugleika juku ísraelskar fjölskyldur þrýsting á að fá líkamsleifar látinna gísla sem enn er haldið á Gaza til baka.

Bera kennsl á lík

Ísraelsher sagði að líkamsleifar fjögurra gísla til viðbótar sem haldið var á Gaza hefðu verið fluttar til Ísraels, daginn eftir að Hamas afhenti lík fjögurra annarra fanga og sleppti síðustu 20 gíslunum sem voru á lífi.

Í samkomulaginu var kveðið á um að öllum sem saknað var – lifandi og látnum – skyldi skilað og hafa fjölskyldur gíslanna og ísraelskir leiðtogar krafist þess að Hamas-samtökin standi við það.

Af þeim látnu gíslum sem hefur verið skilað hefur herinn nafngreint tvo, Guy Iluz, ísraelskan ríkisborgara, og Bipin Joshi, landbúnaðarnema frá Nepal.

Síðar greindi Fjölskylduvettvangurinn, sem berst fyrir lausn gíslanna, frá því að hinir tveir væru Yossi Sharabi og Daniel Peretz, liðsforingi í ísraelska hernum.

„Nú getum við loksins bundið enda á martröðina sem hófst fyrir rúmum tveimur árum og veitt Yossi þá virðulegu og ástríku útför sem hann á skilið,“ er haft eftir eiginkonu hans, Niru Sharabi, á vettvanginum.

Í Tel Aviv kom fólk saman til að fagna frelsun lifandi gísla og krefjast þess að líkamsleifum hinna yrði skilað.

„Ég veit ekki hvað mér á að finnast því ég hélt ekki að við myndum upplifa þann dag að allir lifandi gíslar kæmu aftur,“ sagði mótmælandinn Barak Cohen við AFP.

„En ég sé samt fyrir mér mikla erfiðleika við að fá látnu gíslana sem eftir eru aftur,“ sagði hann.

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Heimaskólinn ákveðin forréttindi
1
Viðtal

Heima­skól­inn ákveð­in for­rétt­indi

Systkini í Mos­fells­bæ fóru í hefð­bund­inn grunn­skóla í haust eft­ir að hafa ver­ið í heima­skóla síð­ustu ár. Sól­veig Svavars­dótt­ir, móð­ir þeirra, sem sinnti heima­kennsl­unni, seg­ir þetta hafa ver­ið dýr­mæta reynslu fyr­ir alla fjöl­skyld­una. Ekk­ert sveit­ar­fé­lag hef­ur veitt heim­ild til heima­kennslu á yf­ir­stand­andi skóla­ári, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­inu.
Sjálfsvígi fylgir eitruð sorg
4
Viðtal

Sjálfs­vígi fylg­ir eitr­uð sorg

Eg­ill Heið­ar Ant­on Páls­son á ræt­ur að rekja til Spán­ar, þar sem móð­ir hans fædd­ist inn í miðja borg­ara­styrj­öld. Tólf ára gam­all kynnt­ist hann sorg­inni þeg­ar bróð­ir hans svipti sig lífi. Áð­ur en ein­hver gat sagt hon­um það vissi Eg­ill hvað hefði gerst og hvernig. Fyr­ir vik­ið glímdi hann við sjálfs­ásak­an­ir og sekt­ar­kennd. Eg­ill hef­ur dökkt yf­ir­bragð móð­ur sinn­ar og lengi var dökkt yf­ir, en hon­um tókst að rata rétta leið og á að baki far­sæl­an fer­il sem leik­stjóri. Nú stýr­ir hann Borg­ar­leik­hús­inu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Heimaskólinn ákveðin forréttindi
4
Viðtal

Heima­skól­inn ákveð­in for­rétt­indi

Systkini í Mos­fells­bæ fóru í hefð­bund­inn grunn­skóla í haust eft­ir að hafa ver­ið í heima­skóla síð­ustu ár. Sól­veig Svavars­dótt­ir, móð­ir þeirra, sem sinnti heima­kennsl­unni, seg­ir þetta hafa ver­ið dýr­mæta reynslu fyr­ir alla fjöl­skyld­una. Ekk­ert sveit­ar­fé­lag hef­ur veitt heim­ild til heima­kennslu á yf­ir­stand­andi skóla­ári, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Endurkoma Jóns Ásgeirs
4
Nærmynd

End­ur­koma Jóns Ás­geirs

Jón Ás­geir Jó­hann­es­son er aft­ur orð­inn stór á mat­vörumark­aði, fast­eigna­mark­aði, í fjöl­miðl­um, ferða­þjón­ustu, trygg­ing­um, áfeng­is­sölu, bens­ín­sölu, lyfj­um og stefn­ir á vöxt er­lend­is. Veldi hans og eig­in­konu hans, Ingi­bjarg­ar Pálma­dótt­ur, minn­ir á upp­bygg­ing­una fyr­ir banka­hrun þeg­ar hann stýrði Baugi, Glitni og 365 miðl­um en hlaut enga dóma í mála­ferl­um sem fylgdu hon­um í meira en ára­tug.
„Það var enga vernd að fá“
6
Viðtal

„Það var enga vernd að fá“

„Við sitj­um eft­ir í sorg, horf­um yf­ir sögu son­ar okk­ar og klór­um okk­ur í höfð­inu. Eft­ir stend­ur spurn­ing­in: Hvað gerð­ist?“ seg­ir Hjör­leif­ur Björns­son, en son­ur hans, Há­varð­ur Máni Hjör­leifs­son, svipti sig lífi þann 2. sept­em­ber, að­eins tví­tug­ur. Feðg­arn­ir voru báð­ir áhuga­menn um tónlist, greind­ir með ADHD og glímdu ung­ir við fíkn, en eitt greindi þá að. Há­varð­ur var brot­inn nið­ur af kerfi sem hann féll ekki inn í.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár