Á fimmtudagskvöldið klukkan 20 mun fara fram fræðslu- og umræðufundur um húsnæðismál á vegum Sósíalistaflokksins, í nýju húsnæði hans við Hverfisgötu. Fundurinn er haldinn í boði kosningastjórnar Sósíalistaflokksins.
Þetta er þó ekki sami fundur og boðaður hefur verið á sama tíma og um sama mál í Bolholti 6, fyrrverandi húsnæði Sósíalistaflokksins. En þar býður Vorstjarnan til opins fundar um húsnæðiskrísuna.
Telur Vorstjörnuna herma eftir SÍ
Jökull Sólberg Auðunsson vakti máls á þessum vendingum sem hann kallar „klikkaðar“ á Facebook-síðu sinni í gær.
„Þegar ný framkvæmdastjórn ákvað að halda viðburð um húsnæðismál sem verður nú á fimmtudagskvöld þá ákvað Vorstjarnan, leidd af Sönnu Magdalenu (sem hefur hafnað sínum eigin flokk en notar enn húsnæðið fjármagnað af peningum sem voru gefnir af flokknum), **að halda viðburð um nákvæmlega sama viðfangsefni á nákvæmlega sama tíma** – einmitt í þessu húsnæði sem þau gætu aldrei verið í nema hafa fært fé úr flokknum og í þessi samtök, og sparkað framkvæmdastjórn svo úr þessu húsnæði,“ skrifar Jökull Sólberg.
Bolað úr Bolholti
Mikil og opinber átök hafa verið á milli nýrrar og fyrrverandi stjórnar Sósíalistaflokksins en hallarbylting var gerð á aðalfundi flokksins í vor. Fyrrverandi stjórn flokksins hlaut hins vegar kjör í stjórn Vorstjörnunnar en styrktarfélagið hefur verið fjármagnað með ríkisstyrkjum Sósíalistaflokksins.
Eftir að fyrrverandi stjórn Sósíalistaflokksins tók við stjórnartaumunum í Vorstjörnunni var skjótlega skipt um lykla og flokknum úthýst úr húsnæði sínu í Bolholti. Vorstjarnan er skráð fyrir leigusamningnum þar.
Gunnar Smári segir Vorstjörnuna á undan
Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, skrifaði athugasemd við færslu Jökuls og vildi meina að fundirnir hefðu verið boðaðir í öfugri röð við það sem Jökull hélt fram.
„Ég er í báðum félögum, fékk boð á fund í Vorstjörnunni föstudaginn 19. september kl. 17:28 en boð á fund í Sósíalistaflokknum laugardaginn 20. sepember kl. 10:33.“
Aðrir bentu þó á að viðburður Sósíalistaflokksins hefði verið auglýstur fyrst 11. september – en þá var Facebook-viðburðurinn búinn til. Viðburður Vorstjörnunnar var búinn til á Facebook þann 19. september.
Hvað rugl er þetta?