Það líður varla sá dagur að ég velti ekki fyrir mér hvort alþingismenn séu komnir á launaskrá hjá Skaupinu. Ekki af því að þau eru svo fyndin, heldur vegna þess að samband þeirra við raunveruleikann er orðið svo tæpt að það hlýtur að vera einhver einkahúmor í gangi sem ég fatta ekki.
Eins og þegar þingmaður Samfylkingarinnar mætti á mótmælin Þjóð gegn þjóðarmorði og birti mynd með yfirskriftinni „Ákall um aðgerðir“, og var kannski búin að gleyma að hún situr sjálf í aðgerðarlausri ríkisstjórninni, smá eins og þegar yfirmaður minn spurði mig einu sinni „hvort það ætlaði enginn að fara að gefa mér launahækkun bráðum?“ Svo fáránlegt að það er næstum fyndið. Næstum.
Líka eins og þegar þingmaður Miðflokksins kvartaði yfir því að hafa verið þaggaður niður og fá ekki rými til að segja skoðanir sínar í viðtali þar sem hann talaði 64 prósent af tímanum, nærri tvöfalt lengur en hinn viðmælandi viðtalsins, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, og þáttastjórnandinn til samans. Smá fyndið, næstum.
Og síðan þegar þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði að sér hafi blöskrað haturs- og fordómafull viðbrögð í garð þingmanns Miðflokksins sem fylgdu téðu viðtali … þar sem þingmaðurinn kaus að nota úrelt og stuðandi orðalag til að fara með rangfærslur um trans fólk.
Svo veruleikafirrt að það liggur við að maður hlægi. En maður gerir það ekki. Því þetta er ekkert fyndið.
Það hljómar eins og ákveðinn farsi þegar það er orðið hversdagslegt að stjórnendur landsins fari frjálslega með staðreyndir. Segi bara það sem þeirra kjósendur vilja heyra, eins og það skipti ekki máli hvort það eigi við einhver rök að styðjast eða ekki, eða hvort standa eigi við það sem er sagt, eða hvaða afleiðingar það hefur fyrir fólkið í landinu. En orðum fylgir alvara. Alþingismenn eru nefnilega ekki að reyna að vera fyndin og líklega ekki viljandi að skrifa Skaupið. Þetta er sem sagt ekkert grín, þetta er raunveruleikinn og hann er ógnvænlegur.
Pistillinn birtist fyrst í prentútgáfu Heimildarinnar 12. september síðastliðinn.






















































Nú á dögunum vakti einn nóbelsverðlaunahafinn í eðlisfræði opinberlega athygli á því að nú sé svo komið að BNA eru ekki lengur í fararbroddi varðandi vísindaiðkanir í heiminum Þar eru komnar aðrar áherslur þar sem forsetinn Donald Trump er kominn í stríð við bandarískt háskólasmfélag. Sama er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafsins þar sem háskólasamfélagið í Tel Aviv hefur verið einn harðasti andstæðingur Benjamins Natanyahos og farið fram á nýjar kosningar til að koma þessum skelfilega hugsandi manni frá völdum.
Mjög líklegt er að sama sé að gerast í Rússlandi en þaðan koma engar fréttir nema þær sem koma frá Pútín, myrkrahöfðingjanum sjálfum.