Mikill fjöldi fólks var saman kominn á Austurvelli í dag til að mótmæla þjóðarmorði Ísraels í Palestínu. Auk mótmælafundar í Reykjavík voru einnig haldnir fundir á Ísafirði, Egilsstöðum, Akureyri, Stykkishólmi, Húsavík og Hólmavík í dag þar sem yfirskriftin var: Þjóð gegn þjóðarmorði. 185 félög af ýmsum toga stóðu að fundunum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi framkvæmdastjóri Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE, var meðal ræðufólks á fundinum og hélt hún afar kröfugt erindi. Fida Abu Libdeh, tæknifræðingur og frumkvöðull flutti klökk ræðu skrifaða af Palestínufólki í Palestínu en hún er sjálf fædd og uppalin þar, en flutti til Íslands sextán ára með móður sinni og systkynum.

Meðal annarra ræðumanna var Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, en heildarsamtök launafólks, verkalýðsfélög, mannúðarsamtök, fagfélög og fleiri samtök tóku höndum saman til að halda mótmælafundina þar sem almenningur kom saman til að sýna samstöðu sína með Palestínsku þjóðnni og krefjast þess að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða gegn þjóðarmorðinu.

„Í nær tvö ár hefur heimsbyggðin fylgst með sífellt versnandi og óbærilegum þjáningum almennra borgara í Palestínu með hryllingi. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir fimmta og þar með efsta stigi hungursneyðar. Hún er alfarið manngerð af völdum Ísrael sem hefur lagt ræktanlegt landsvæði í rúst á Gaza og lokað fyrir að matvæli berist til íbúa,“ segir í auglýsingu um viðburðinn. „Samkvæmt gögnum ísraelska hersins eru 83% þeirra sem Ísrael hefur myrt almennir borgarar. Þar af eru a.m.k. 18.500 börn eða um 28 börn á hverjum einasta degi, álíka mörg og heill bekkur í grunnskóla á hverjum degi.
Þjóðarmorð stendur yfir af hálfu Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni. Stríðsglæpi Ísraels verður að stöðva.“

Birna Pétursdóttir leikkona var fundarstjóri fundarins á Austurvelli en þar voru ekki aðeins fluttar ræður heldur einnig flutt tónlist og ljóð. Tabit Lakhda og Rima Nasser spiluðu á oud, vinsælasta hljóðfærið í Palestínu sem er einn forvera nútíma gítars, og sungu Mawtini sem merkir Heimalandið mitt og er óopinbert þjóðlag Palestínu. Elísabet Jökulsdóttir flutti tvö ljóð en annað barst henni frá palestínskri stúlku aðeins klukkustund fyrir fundinn og skilaði stúlkan hlýrri kveðju til fundargesta. Páll Óskar Hjálmtýsson sló botninn í samkomuna um klukkan þrjú og söng lögin International og Allt fyrir ástina þar sem er að finna setninguna „Út með hatrið, inn með ástina.“











Athugasemdir