Úkraínski forsetinn Volodymyr Zelensky hefur upplýst að á fundi hans með Donald Trump á mánudag, hafi hann beðið Bandaríkjaforsetann um að þrýsta á Ungverjaland að falla frá neitunarvaldi sínu gegn umsókn Úkraínu um aðild að Evrópusambandinu (ESB).
Úkraína sótti um aðild að ESB nokkrum dögum eftir að Rússland réðst inn í landið í febrúar 2022, en hefur ekki getað haldið áfram aðildarviðræðum vegna neitunarvalds sem Viktor Orban, þjóðernis- og einræðissinnaður forsætisráðherra Ungverjalands, hefur beitt.
„Ég bað Trump forseta um að Búdapest myndi ekki hindra aðild okkar að Evrópusambandinu,“ segir Zelensky.
„Trump forseti lofaði að teymi hans myndi vinna að þessu,“ bætti hann við.
Úkraína hefur viljað aðild að varnarbandalaginu Nató, en vegna andstöðu Rússlands og þar með Bandaríkjanna við það er talið líklegra að Evrópusambandsaðild gæti haft áhrif til að tryggja öryggi landsins gagnvart Rússum.
Stjórnvöld í Ungverjalandi, nánasta bandamanni Rússlands innan ESB, segir að aðild Úkraínu að Evrópusambandinu skapi öryggisáhættu og að það að taka landið inn á meðan það er í stríði myndi draga Ungverjaland inn í átök við Rússland.
Stjórnvöld Úkraínu segja áhyggjur Ungverjalands vera ástæðulausar.
„Það er algjörlega sanngjarnt að Úkraína vilji ganga í Evrópusambandið ... Þetta er fullveldisréttur okkar,“ sagði Zelensky við blaðamenn.
Samskipti milli landanna tveggja hafa versnað verulega síðan stríðið hófst.
Orban hefur neitað að senda hernaðaraðstoð til Úkraínu og hefur jafnframt hindrað hluta af aðstoð ESB til landsins.
Í júlí kallaði Ungverjaland sendiherra Úkraínu á sinn fund í kjölfar fullyrðinga um að einstaklingur af ungverskum þjóðernisminnihluta hefði látist nokkrum vikum eftir að hermenn í Úkraínu hefðu ráðist á hann.
Öryggisþjónusta Úkraínu sagði í maí að hún hefði handtekið tvo meinta ungverska njósnara, sem leiddi til þess að löndin tvö vísuðu tveimur sendierindrekum hvort úr landi.
Ríkisstjórn Íslands stefnir að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu „eigi síðar en 2027“.
Athugasemdir