Nýverið lagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Pétur Zimsen, tilvistarlegt sjálfspróf fyrir þjóðina á Facebook. „Hver ertu?“ spurði þingmaðurinn í færslu. Valmöguleikarnir voru af ýmsum toga. Ertu manneskja sem finnst „erfitt þegar öðrum gengur vel“ og hugsar „hvers vegna ekki ég?“ Ertu manneskja sem borgar „minna til samfélagsins en þú þiggur“ og finnst „þeir sem eru vel stæðir hafa skarað eld að eigin köku með óeðlilegum hætti?“ Finnst þér „þeir sem standa sig vel eiga að vinna töluverða nauðungarvinnu fyrir þá sem leggja sig minna fram?“ „Ertu x(S, C, F) maður?“
Þeir sem svöruðu játandi voru samkvæmt þingmanninum „bitrir“. „Einhver hefur komið illa fram við þá og þeir eru í vandræðum með sjálfsmynd sína,“ úrskurðaði hann eins og blanda af stjörnuspámanni og sálfræðingi. „Þeim finnst þeir ekki metnir að verðleikum og að heimurinn sé ÓSANNGJARN. Að allt sé einhverjum ÖÐRUM að kenna og því nærtækt að kenna þeim um sem hafa það betur.“
En í stað þess að fella dóm um aðra væri Jóni hollt að líta í eigin barm.
Bæði illgjarn og nískur
Slúðurmiðlar í Bretlandi bíða nú fregna af barni sem koma á í heiminn í sumar. Árið 2016 varð hinn 25 ára Hugh Grosvenor yngsti milljarðamæringur Bretlands þegar faðir hans, Gerald Grosvenor, sjötti hertoginn af Westminster, lést óvænt.
Hugh kvæntist unnustu sinni í fyrrasumar. Enginn annar en Vilhjálmur Bretaprins sá um að vísa gestum til sætis í athöfninni. Erfingi Hugh mun senn prýða blaðsíður aðalsmannatímarita á borð við Hello! og Tatler.
Grosvenor -jölskyldan hefur kynslóðum saman verið ein auðugasta fjölskylda Bretlands. Fjölskyldunafnið sem og auðæfin má rekja aftur um þúsund ár. Forfaðir og nafni Hugh var Normanninn Hugh „Le Grand Veneur“ (veiðimaðurinn mikli). Sá var stór vexti og var því uppnefndur „Le Gros Veneur“ (feiti veiðimaðurinn). Helsta afrek Hugh „hins feita“ var að vera handgenginn Vilhjálmi bastarði Englandskonungi. Hlaut hann að launum mikið land.
Í ævisögu Geralds Grosvenor heitins segir að hann hafi verið bæði illgjarn og nískur. Hann sótti í gleðikonur, reifst við þær um verðið og greiddi þeim aldrei þjórfé. Hann vildi verða þekktur fyrir góðgerðarstarfsemi en „án þess þó að þurfa að láta of mikið fé af hendi rakna“. Hann drakk kampavín í morgunmat, elskaði hraðakstur og kom sér hjá hraðasektum með því að ljúga því til að hann væri orðinn of seinn á góðgerðarsamkomu.
Gerald var þó ekki alls varnað.
Gerald var eitt sinn spurður af upprifnum blaðamanni Financial Times hvaða ráð hann gæti gefið ungum athafnamönnum sem vildu leika eftir velgengni hans. Gerald mátti eiga eitt; hann var ekki haldinn nokkrum ranghugmyndum um eigin verðleika. Hann svaraði: „Að eiga forföður sem var góðvinur Vilhjálms bastarðar.“
Vitlítill vaðall
„Þingmaður Sjálfstæðisflokksins erfingi milljarða og lítur niður á þá sem minna eiga“, sagði í fyrirsögn dagblaðadálksins „Orðið á götunni“ á DV.is, sem vakti fyrst athygli á fyrrnefndu sjálfsprófi Jóns Péturs Zimsen. Rakti pistlahöfundur hvernig þingmaðurinn kæmi „úr fjölskyldu þar sem nokkrar kynslóðir hafa fengið ríflegt fjárhagslegt forskot vegna auðs sem gengið hefur í erfðir“.
Jón Pétur á fjölskylduauðinn sameiginlegan með Gerald Grosvenor. Því miður fyrir þingmanninn er honum hins vegar ekki gefin veruleikatenging hertogans.
Jón Pétur Zimsen hæðist að hinum „bitru“ sem finnist þeir ekki „metnir að verðleikum“ er þeir borga „minna til samfélagsins“ en þeir „þiggja“. Hann virðist telja sig vinna „nauðungarvinnu“ fyrir þá sem „leggja sig minna fram“, en þakkar eigin velgengni verðleikum sínum.
Í bókinni Kúgun verðleikanna (e. The Tyranny of Merit) heldur bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn Michael Sandel því fram að trú á verðleika sé skaðleg samfélaginu. Ástæðan sé sú að þeir sem njóti velgengni líti svo á að það sé þeim sjálfum að þakka að þeim vegni vel. Að sama skapi kenni þeir þeim sem vegni illa um eigin afdrif.
Sú kenning verður æ útbreiddari að helsta hreyfiafl tilverunnar séu tilviljanir á borð við í hvaða landi við fæðumst, inn í hvaða fjölskyldu og á hvaða tímabili. Það séu því ekki verðleikar sem skilji milli þeirra sem komast til metorða og hinna sem mistekst það, heldur þvert á móti heppni.
Vitlítill vaðall háttvirts þingmanns á Facebook virðist renna stoðum undir þá kenningu.
Smá viðbót: Kveðja til Sifjar: Áfram, Sif, áfram, les þig alltaf, því þú ert best/Gunnar Ingi.
Það er örugglega gaman fyrir suma að hafa ofurlaun og líka fyrir aðra að hafa háar arðgreiðslur, en hafa ber í huga að kakan er bara ákveðið stór hvort sem er hjá einkafyrirtækjum eða hjá ríkinu og ef sumir taka "ofursneiðar" þá er bara minna til skiptanna fyrir hina. Auk þess verður varan sem fyrirtækið framleiðir að vera dýrari fyrir vikið sem bitnar á neytendum eða skattgreiðendum.Ég heyrði um daginn stungið uppá að hæstu laun væru fjórföld lágmarkslaun, mér finnst það ekki slæm hugmynd í ljósi þess að öll störf eru mikilvæg og að sanngirni sé gætt. Það þyrfti þá að koma betur til móts við suma námsmenn þ.a. námslánin séu að meiru leiti styrkur en lán, þ.a. fólk tapaði ekki á að mennta sig. En þar sem sumir taka stærri sneiðar af kökunni en aðrir (og sumir raunar mun meira en þeir hafa nokkurn tíma þörf fyrir) þá finnst mér sanngjarnt að þeir leggi meira til svo sanngirni sé gætt.
Svar:. Þeir eru báðir á framfærslu vinnandi fólks.