„Myndavélin lýgur ekki,“ er gjarnan sagt. En þótt myndavélin ljúgi ekki segir hún ekki alltaf satt.
Ljósmynd af þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, Hildi Sverrisdóttur, að hvíslast á við Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins, fór á flug á samfélagsmiðlum í síðustu viku. Var myndin sögð sýna aðdraganda valdaránstilraunar, en stuttu eftir að myndin var tekin sleit Hildur þingfundi, að því er virtist í heimildarleysi.
Myndin reyndist þó sýna eitthvað allt annað. Í ljós kom að Bergþór var einfaldlega að ræða dagskrá þingsins við Hildi, sem stýrði þingfundinum sem varaforseti Alþingis. Hildur leitaðist jafnframt ekki við að fremja valdarán þegar hún sleit fundinum heldur taldi hún sig „fylgja venjum“. Hún viðurkenndi mistök og sagði að „eftir á að hyggja“ og „í ljósi aðstæðna“ hefði hún átt að „spyrjast fyrir“ um áætlanir og baðst afsökunar á að hafa valdið uppnámi.
Mynd af einhverju allt öðru
Myndin af meintri valdaránstilraun Hildar Sverrisdóttur var ekki eina margræða myndin sem fór á flug á samfélagsmiðlum í síðustu viku.
Eftir að stjórnarandstaðan sló umræðumet á Alþingi um frumvarp um veiðigjöld batt forseti Alþingis enda á sögulegt málþófið með því að virkja 71. grein þingskaparlaga. Í kjölfarið fór eftirfarandi fullyrðing á flakk um Facebook ásamt samsettri mynd: „Í 66 ár hafa allir forsætisráðherrar, allra flokka, ráðið við það verkefni að semja um þinglok. Núverandi forsætisráðherra hefur nú sýnt okkur að hún stenst ekki þann samanburð.“
Fullyrt er að myndin af nítján fyrrverandi forsætisráðherrum undir fagurblárri slikju og núverandi forsætisráherra undir logarauðri slikju sýni afglöp Kristrúnar Frostadóttur. En kannski, eins og í tilfelli ljósmyndarinnar af valdaráni Hildar Sverrisdóttur, er myndin af einhverju allt öðru.
Vilji almennings skýr
Arðurinn af sjávarauðlind landsins og hverjir skuli njóta hans hefur verið eitt helsta bitbein stjórnmálanna í áratugi. Vilji almennings hefur löngum verið skýr. Ekki fyrr en nú stígur hins vegar fram ríkisstjórn sem framfylgir þeim vilja.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun studdu 62 prósent landsmanna nýsamþykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á veiðigjaldi. Sama hlutfall fólks er ánægt með störf Kristrúnar Frostadóttur.
Fljótt á litið virðist ofangreind mynd vera af nítján forsætisráðherrum sem sömdu farsællega um þinglok og einum sem mistókst það. Sé betur að gáð og staðreyndir málsins skoðaðar blasir hins vegar við að myndin er ekki af verkum forsætisráðherra. Hún sýnir þvert á móti framgöngu stjórnarandstöðunnar: Í 66 ár hefur stjórnarandstaðan ráðið við það verkefni að semja um þinglok. Núverandi stjórnarandstaða hefur nú sýnt okkur að hún stenst ekki þann samanburð.
Aðrir guðir
Sú mynd, sem blasti við af stjórnarandstöðunni á Alþingi síðustu vikur fyrir sumarfrí, er torskilin. Hvað knúði stjórnarandstöðuna til að ganga gegn vilja þjóðarinnar af slíku offorsi? Ekki virtust pólitískir eigin hagsmunir ráða för, en óbilgirnin olli henni talsverðu fylgistapi. Fyrir hvern framdi stjórnarandstaðan pólitískt harakírí? Hvaða drottni þjónaði hún þegar hún kvað það „heilaga skyldu“ sína að standa gegn frumvarpinu með málþófi „í allt sumar ef til þarf“.
Myndir geta verið villandi. Hér skal því ekki ráðist í frekari túlkun. Rétt er þó að minna stjórnarandstöðuna á fyrsta boðorð hins almenna kjósanda: Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Athugasemdir