Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir nýlegan sýknudóm Landsréttar í meiðyrðamáli Aðalsteins Kjartanssonar gegn bloggaranum Páli Vilhjálmssyni grafa undan fjölmiðlafrelsi og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla.
„Með því að veita skotleyfi á blaðamenn, sem samkvæmt dómnum eiga að þurfa að þola að það sé opinberlega logið upp á þá alvarlegri refsiverðri háttsemi fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Slíkar árásir á orðspor og starfsheiður blaðamanna eru ekki aðeins til þess fallnar að fæla þá frá því að fjalla um tiltekin mál, heldur ætlað að beina athygli frá efni umfjöllunarinnar og grafa þannig undan blaðamennsku og lýðræði,“ skrifar Sigríður Dögg í skoðanapistli sem birtist á Vísi í dag.
Kærði ummæli á bloggsíðu
Aðalsteinn hafði stefnt Páli vegna ummæla sem sá síðarnefndi hafði uppi um hann á bloggsíðu sinni og krafðist miskabóta. Ummælin sem um ræddi snerust um það að Aðalsteinn og aðrir blaðamenn hefðu átt aðild að því að byrla Páli Steingrímssyni skipstjóra ólyfjan og stolið síma hans. Gögnin úr símanum hefðu síðar verið notuð í fréttaflutningi um svokallaða skæruliða Samherja.
Ummæli Páls um Aðalstein voru dæmd ómerk í héraði vorið 2024 og var bloggaranum gert að fjarlægja þau af síðu sinni og birta dóminn á síðunni.
Úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var snúið í Landsrétti í lok júní og sagði í dómsúrskurðinum að þótt ummæli Páls væru beinskeytt og óvægin yrði að líta til þeirrar staðreyndar að Aðalsteinn sætti, þegar ummælin féllu, rannsókn lögreglu.
Þá mátti Aðalsteinn, sem blaðamaður og opinber persóna gera ráð fyrir að þurfa að þola hvassa og óvægna gagnrýni í kjölfar eigin skrifa. Orð Páls voru því talin rúmast innan tjáningarfrelsis hans og var hann því sýknaður af kröfum Aðalsteins.
Ummælin féllu að ófrægingarherferði Samherja
Sigríður Dögg bendir á að fyrir dómi hafi ekki verið deilt um það hvort ummæli Páls hafi verið sönn.
„Þvert á móti voru þau upplogin og féllu vel að ófrægingarherferð sem Samherji hefur um margra ára skeið háð gegn blaðamönnunum Aðalsteini og Helga Seljan sem árið 2019 sviptu hulunni af því er virðast vera stórfelldar mútugreiðslur Samherja til namibískra stjórnmálamanna, skattasniðgöngu og peningaþvætti. Í framhaldi af þeim fréttaflutningi hóf Samherji skipulagða aðför að Aðalsteini og Helga sem hafði þann tilgang að grafa undan æru þeirra og starfsheiðri og að veikja tiltrú almennings á þeim upplýsingum sem fram komu í fréttum af meintri refsiverðri háttsemi Samherja.“
Segir hún þá að um alvarlega aðför að persónu Aðalsteins hafi verið að ræða með ummælum Páls. „Þau voru sett fram til að draga athygli almennings frá háttsemi Samherja í Namibíu og þaulskipulagðri aðför útgerðarinnar gegn blaðamönnum sem fjölmiðlar upplýstu um í umfjöllun um Skæruliðamálið svokallaða árið 2021.“
„Má mögulega ganga lengra í árásum á blaðamenn?“
Segir Sigríður Dögg að Páll Vilhjálmsson viti það mætavel að engin af fullyrðingum hans sé sönn. „Samt lýgur hann alvarlegum lögbrotum upp á nafngreinda blaðamenn. Landsréttur kemst að þeirri hættulegu niðurstöðu að það megi hann gera án afleiðinga.“
Skotleyfi á sakborninga
Í dómnum er, sem fyrr segir, tekið fram að Aðalsteinn hafi sætt lögreglurannsókn þegar Páll skrifaði ummæli sín. En Sigríður Dögg segir að með dómnum veiti Landsréttur rannsókninni, sem var á endanum niðurfelld, talsvert vægi.
„Þrátt fyrir þær alvarlegu athugasemdir sem gerðar höfðu verið við rannsóknina á fyrri stigum. Það er verulega alvarlegt í sjálfu sér að veita slíkt svigrúm til að brigsla mönnum um refsiverða háttsemi sem ekki hefur sannast með dómi.
Það er enn alvarlegra þegar lögreglurannsóknin var tilefnislaus og ósamrýmanleg tjáningarfrelsi hlutaðeigandi blaðamanna, líkt og Blaðamannafélag Íslands hefur bent á. Með því var í reynd aukið á íþyngjandi áhrif lögreglurannsóknarinnar og þar með þá óréttmætu skerðingu tjáningarfrelsis sem blaðamennirnir sættu af völdum hennar.“
Þá hafi hingað til ekki haft áhrif í meiðyrðamálum hvort sá sem telur sig hafa orðið fyrir ærumeiðingum hafi réttarstöðu sakbornings. Segir Sigríður Dögg að niðurstaðan í máli Aðalsteins gæti þannig haft þær alvarlegu afleiðingar að nú sé skotleyfi á alla sem fái réttarstöðu sakbornings í málum sem eru til rannsóknar hjá lögreglu.
„Og leyfilegt sé að saka þá um alvarlega glæpi, hvort sem þeir séu grunaðir um að hafa framið þá eða aðrir sakborningar í sama máli. Hvar dregur Landsréttur línuna? Við ærumeiðingar? Eða má mögulega ganga lengra í árásum á blaðamenn? Má berja blaðamann sem hefur réttarstöðu sakbornings í lögreglurannsókn ef sá sem beitir ofbeldinu telur að blaðamaðurinn hafi til þess unnið? Hvað með blaðamann sem hefur ekki réttarstöðu sakbornings? Má hafa æruna af honum?“
Heimilt að veitast að blaðamönnum með ósönnuðum staðhæfingum
„Þótt niðurstaða dómsins sé að formi til sú að tjáningarfrelsið hafi í þessu tilviki vegið þyngra en friðhelgi einkalífs er niðurstaða dómsins efnislega sú að heimilt hafi verið að veitast opinberlega að blaðamönnum vegna fréttaskrifa þeirra með ósönnuðum staðhæfingum um alvarlega refsiverða háttsemi af þeirra hálfu,“ skrifar Sigríður Dögg.
Segir hún að efnislega feli dómurinn í sér að heimilt sé að bregðast við réttmætri umfjöllun blaðamanna með alvarlegum og órökstuddum árásum á orðspor þeirra og starfsheiður.
„Slíkar árásir eru ekki aðeins til þess fallnar að fæla blaðamenn frá því að fjalla um mál þar sem búast má við viðbrögðum sem þessum heldur jafnframt til þess fallnar að draga úr trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla almennt og beina athygli frá efni fjölmiðlaumfjöllunar og að persónum þeirra blaðamanna sem í hlut eiga.“
Slík fordæmi séu til þess fallin að draga úr tjáningarfrelsi blaðmanna, auk þess að grafa undan bæði blaðamennsku og lýðræði.
Að lokum kallar formaður Blaðamannafélagsins eftir því að Hæstiréttur taki málið fyrir og skeri úr um hvort blaðamenn njóti ekki verndar gegn „upplognum árásum sem ætlað er að grafa undan trúverðugleika þeirra og starfsheiðri.“
Fyrirvari um hagsmuni: Í fréttinni er fjallað um atburði sem tengjast Heimildinni og starfsmönnum fjölmiðilsins beint.
Athugasemdir