Íslenskt menntakerfi fékk harða útreið í úttekt Efnahags- og framfarastofnunar, OECD, í síðustu viku. Telur stofnunin frammistöðu íslenskra nemenda hafa hrakað svo mikið undanfarna áratugi að ógn steðji að lífskjörum í landinu. Tilgreindi hún sérstaklega afnám samræmdra prófa sem sérlegt óheillaspor.
Það voru fleiri en OECD sem opinberuðu vonbrigði sín með íslenskt menntakerfi í síðustu viku.
Í aðsendri grein á Vísi gagnrýndi Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, nýtt einkunnakerfi þar sem nemendum er hvorki gefin einkunn með bókstöfum né tölustöfum heldur eru „nemendur settir í litakóða“. Hún sagði flesta vera græna, sem endurspeglaði einkunnir á bilinu 6 til rúmlega 8. „Haldið þið að það skipti ekki máli fyrir börn að vita hvort þau fá 6 eða rúmlega 8 í sama prófinu – og hvort þau hafi bætt sig á milli prófa?“ spurði Helga.
Þeir sem ekki unnu, töpuðu
Áður en dóttir mín hóf grunnskólagöngu í London fyrir sex árum hafði ég heyrt munnmælasögur af meintri linkind skólakerfis samtímans. Í breskum skólum, þar sem fólk af minni kynslóð var slegið með prikum á fingurna, var nú öllum vafið inn í bómull. Það tapaði enginn lengur í íþróttaleik heldur fengu allir medalíu. Héldi barn því fram að 1 + 1 væru 3 rengdi það enginn. Það þótti ekki lengur rétt að nota orðið „nei“ í návist barna.
Þegar dóttir mín byrjaði í skóla varð mér hins vegar um. Þvert á það sem ég hafði heyrt var þar töluvert um próf og allt var samkeppni. Það var „bókabardaginn“ þar sem krakkar kynntu uppáhaldsbókina sína fyrir bekknum og samnemendur völdu sigurvegara sem komst í úrslit yfir allan skólann. Það var stærðfræði-stigataflan sem hékk uppi á vegg. Það voru íþróttalið sem valið var í alfarið eftir getu. Það var inntökupróf í ræðuliðið, starfsumsókn til að verða umsjónarmaður bekkjarins, og viðskiptaáætlun sem lá til grundvallar hverjir fengu að vera með sölubás á sumarhátíð skólans. Þeir sem ekki unnu, töpuðu.
Í fyrstu leist mér ekki á blikuna. Þurfti allt að vera próf eða keppni? Meira að segja á „world book day“, hátíðisdegi þar sem börnin komu í skólann klædd eins og uppáhalds skáldsagnapersónan þeirra, voru veitt verðlaun fyrir flottasta búninginn.
Efasemdir mínar urðu hins vegar fljótt að engu. Bókaáhuginn blómstraði þar sem börnin börðust til síðasta manns í „bókabardaganum“. Löngunin til að taka fram úr vinum á stærðfræði-stigatöflunni olli því að þau tvíefldust við prófundirbúninginn. Auðvitað urðu þau vonsvikin þegar þau komust ekki í íþróttaliðið eða ræðuliðið. En mótlætið kenndi þeim að taka ábyrgð á eigin frammistöðu og gera betur.
Vanmetum við börnin okkar?
„Erum við að hvetja börnin nægilega í skólakerfinu eða erum við að einblína á meðalmennskuna?“ spyr Helga Þórisdóttir í grein sinni.
Litakóðakerfið sem Helga gagnrýnir sprettur upp úr góðum ásetningi. En getur verið að við vanmetum börnin okkar? Getur verið að við sviptum þau tækifæri til að vaxa og þroskast þegar við hlífum þeim of ákaft við áskorunum og álagi? Erum við ekki að skaða þau þegar við setjum þeim ábyrgð á herðar heldur þvert á móti að valdefla þau?
Pendúllinn á það til að sveiflast öfganna á milli. Hér er sannarlega ekki lagt til að við tökum aftur upp á því að slá á fingur barna með priki. En kannski er kominn tími til að við tökum utan af þeim bómullina.
Athugasemdir