Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Segja svör Íslands hvorki viðunandi né í samræmi við raunveruleikann

Hvít­þvott­ur, inni­halds­leysi og óvið­un­andi svör sem eru ekki í tengsl­um við raun­veru­leik­ann eru með­al þeirra orða sem Geð­hjálp not­uðu til að lýsa svör­um Ís­lands um geð­heil­brigð­is­mál í sam­ráðs­gátt. Inn­an stjórn­kerf­is­ins er unn­ið að drög­um að mið­ann­ar­skýrslu Ís­lands vegna alls­herj­ar­út­tekt­ar Sam­ein­uðu þjóð­anna á stöðu mann­rétt­inda­mála.

Segja svör Íslands hvorki viðunandi né í samræmi við raunveruleikann

Landssamtökin Geðhjálp eru harðorð í afstöðu sinni til svara Íslands um geðheilbrigðisstefnu sem birtast í drögum miðannarskýrslu Íslands vegna allsherjarúttektar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála. Samtökin segja sum svör Íslands til marks um hvítþvott auk þess að vera ekki í samræmi við raunveruleikann. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna í samráðsgátt stjórnvalda. 

„Vissulega er það jákvætt og til eftirbreytni að Ísland kjósi að svara langflestum þeirra tilmæla sem stjórnvöldum berast. Gera verður þá kröfu að svörin séu í samræmi við raunverulega stöðu en ekki lýsing á einhverju sem ekki er á döfinni,“ segir í niðurlagi umsagnarinnar frá stjórn landssamtakanna Geðhjálpar.

 Lögin séu lagfærð svo það megi brjóta á réttindum notenda

Í íslensku drögunum segir meðal annars að nú sé unnið að því að breyta lögum um réttindi sjúklinga, með tilliti til takmörkunar á beitingu nauðungar. „Við þá vinnu er byggt á notendasamráði og á grundvelli samningsins um réttindi fatlaðs fólks.“

Geðhjálp segir svar Íslands bæði einhliða og ekki í samræmi við þá stöðu sem raunverulega sé uppi. Samtökin benda á að þær lagabreytingarnar sem vísað sé til snúist ekki um að draga úr nauðung og þvingunum í geðheilbrigðisþjónustu – né aðlögun að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Þess í stað sé verið að lagfæra lögin þannig að það verði ekki lögbrot að brjóta á réttindum notenda þjónustunnar. Geðhjálp segir að vinna við breytingu laganna hafi farið fram í kjölfar eftirlits umboðsmanns Alþingis á þremur lokuðum geðdeildum sem leiddi í ljós að mannréttindi fólks þar væru brotin nær daglega.

„Benti umboðsmaður á að lagaheimildir skorti fyrir þeirri nauðung og þvingun sem sjúklingar væru beittir. Umboðsmaður benti á ýmislegt annað m.a. að dagleg útivera væri ekki tryggð öllum sem liggja á þessum lokuðu deildum. Geðhjálp tók undir þessar athugasemdir umboðsmanns en benti jafnframt á hugmyndafræði og meðferð sem eru lykilatriði þegar kemur að því að draga úr þvingun og nauðung á geðdeildum.“

„Reynslan hefur sýnt að nauðung væri beitt víða þar sem veita á meðferð með ýmsum hætti, þrátt fyrir skort á lagaheimildum til þess“

Ekki skýrar lagaheimildir bakvið verklag spítalans

Segir þá að Geðhjálp hafi ítrekað lýst yfir vonbrigðum með það að í stað þess að ráðast í endurskoðun á hugmyndafræði og meðferð, auk byggingar nútímalegs meðferðarkjarna geðsviðs, sé verið að „lagfæra lögin svo það verði ekki lengur lögbrot að brjóta á réttindum notenda þjónustunnar.“

„Lagaheimilda hefur hingað til skort fyrir beitingu þvingana á heilbrigðisstofnunum hér á landi og því væri nærtækast að ætla að þeim væri þar af leiðandi ekki beitt. Reyndin hefur þrátt fyrir það verið sú að sjúklingar eru beittir ýmsum þvingunum og stjórnarskrárvarin réttindi þeirra verið takmörkuð á einn eða annan hátt án þess að fyrir því hafi staðið lagaheimild. [...] Reynslan hefur sýnt að nauðung væri beitt víða þar sem veita á meðferð með ýmsum hætti, þrátt fyrir skort á lagaheimildum til þess.“

Með tilvísan í skýrslu umboðsmanns Alþingis segir Geðhjálp að Landspítalinn hafi sett sérstakar verklagsreglur sem lúti meðal annars að aðgerðum sem geti falið í sér inngrip, þvinganir eða aðra valdbeitingu gagnvart sjúklingum. „Og eru umfram það sem fyllilega verður fellt undir meðferð í merkingu laga um réttindi sjúklinga og þar með þvingaða meðferð í merkingu lögræðislaga. Um er að ræða reglur og verklag sem spítalinn hefur ákveðið sjálfur og styðst ekki við skýrar lagaheimildir.“

Nefnir Geðhjálp úrræði svo sem einangrun, herbergisdvöl, virkt eftirlit, líkamlega þvingun eða þvingaða lyfjagjöf, skerta útivist og handlagningu – sem hafi verið réttlætt með vísan til meðferðarsjónarmiða. „Hvað er því til fyrirstöðu að slíkar aðgerðir verði ekki notaðar í refsiskyni en réttlættar með vísan til þess að um „meðferð“ hafi verið að ræða?“ spyr Geðhjálp.

Innihaldslaust að tala um forgangsröðun taugaþroskaraskana

Annar þáttur í svari Íslands sem Geðhjálp setur út á er tilvísan í aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum árin 2023-2027. „Það þarf ekki annað en að líta á fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára og fjárlög þessa árs til að sjá að aðgerðaráætlun er því miður að mestu leyti ófjármögnuð.“ Segir Geðhjálp í því samhengi að ljóst sé að fjármagn sé ekki nægjanlegt miðað við umfang.

Þá segir í svari Íslands segir einnig að áætlað sé að fólk með taugaþroskaraskanir verði sett í forgang. „Þetta svar er því miður innihaldslaust og á sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir í umsögn Geðhjálpar og því bætt við að ekkert styðji þetta svar í fjárlögum fyrir árið 2025 og fjármálaáætlun til næstu fimm ára. 

„Það er hins vegar fullt tilefni að setja málefni hópsins í algjöran forgang því fjölmörg dæmi sýna að heilbrigðis- og félagsþjónusta hafa algjörlega brugðist þegar kemur að lögbundinni þjónustu þessara kerfa við þennan hóp. Það er grafalvarlegt.“

Geðhjálp setur einnig út á það að ekkert í fjárlögum bendi til sóknar í málefnum barna, líkt og Ísland heldur fram annars staðar í svörum sínum. „Það er ljóst að áralöng vanræksla málaflokksins verður ekki leiðrétt á nokkrum mánuðum enda innviðaskuldin mjög stór en málaflokkurinn hefði þurft miklu afgerandi viðbragð frá stjórnvöldum. Raunveruleiki næstu ára hvað varðar aðgerðir tengdum geðheilsu barna fylgir ekki hinum fögru fyrirheitum.“

Segja svarið til marks um hvítþvott

Annað svar sem Geðhjálp telur hvorki viðunandi né í samræmi við raunveruleikann er það að allar þvingunaraðgerðir sem Ísland hafi innleitt frá Evrópusambandinu eða Sameinuðu þjóðunum, séu í fullu samræmi við alþjóðalög – þar á meðal alþjóðlega mannréttindasamninga.

„Þrátt fyrir skort á lagaheimildum fyrir þeim inngripum, þvingunum og valdbeitingu sem viðhafðar hafa verið innan deilda og stofnana þar sem fólk fær þjónustu, þá er þeim beitt daglega.“

Segir þá að samkvæmt ákvæðum bæði stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála sé óheimilt að beita nauðung eða takmarka stjórnarskrárvarin réttindi fólks nema fyrir því sé skýr lagaheimild.

„Jafnvel þótt lagaheimild væri til staðar gilda ströng skilyrði um beitingu inngripa gagnvart persónuréttindum er varða líf og frelsi einstaklinga sem búin er sérstök vernd í stjórnarskrá. Á þetta hefur Geðhjálp bent um langt árabil og mótmælir því að þvingunaraðgerðir og nauðung sem einstaklingar eru beittir daglega á Íslandi séu réttlættar með þeim hætti og í raun hvítþvegnar eins og gert er í þessu svari Íslands.“

Kjósa
17
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Verndar íslenskan menningararf með því að gera við fornbækur
5
Menning

Vernd­ar ís­lensk­an menn­ing­ar­arf með því að gera við forn­bæk­ur

Forn­bóka­safn­ar­inn Ey­þór Guð­munds­son seg­ir mik­il­vægt að vernda þann menn­ing­ar­arf sem ligg­ur í ís­lensk­um forn­bók­um. Það ger­ir hann með verk­efn­inu Old Icelandic Books sem geng­ur út á að vekja áhuga hjá Ís­lend­ing­um og ferða­mönn­um á bók­un­um og mik­il­vægi þeirra. Með­al þeirra bóka og hand­rita sem Ey­þór hef­ur und­ir hönd­um eru Grett­is saga, Jóns­bók og tvö hundruð ára til­skip­un til Al­þing­is frá fyrr­um Dana­kon­ungi.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
3
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár