Íslenskir múslímar eiga uppruna sinn frá flestum heimshornum og endurspegla þannig hinn mikla menningarlega og etníska margbreytileika rúmlega eins og hálfs milljarðs múslíma heimsins. Þegar talað er um múslíma er oft eins og um sé að ræða eitthvað einsleitt og eðlislægt fyrirbæri með einhliða viðhorf og skoðanir, en svo er ekki. Þess vegna er ekki úr vegi að athuga hverjir þessir múslímar eru, eða öllu heldur, hverjir eru múslímar.
Þegar ákveðnir hópar af fólki eru flokkaðir af öðrum (t.d. meirihlutahópi eða félagsvísindamönum) er um ákveðnar valdaafstæður að ræða þar sem skilgreinandinn býr til mynd af þeim skilgreinda, hvort sem honum líkar það betur eða verr og er svona flokkun alltaf háð félagslegu og pólitísku samhengi hverju sinni (Jeldtoft, 2009). Það má tala um tvenns konar greiningarlegar nálganir, „flokkun“ og „hópa“. Flokkun felur í sér einhliða staðalmyndir, í þessu tilfelli „múslímann“ og er utanaðkomandi nálgun sem segir lítið um raunheim og fjölbreytileika þeirra sem fjallað er um. Nálgunin „hópar“ verður greiningin margbreytilegri og gerir ráð fyrir mörgum og ólíkum hópum, og er þessi greining innræn og gerir ráð fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika, einkum hvað varðar sjálfumleika (identity), trúarleg viðhorf, menningu, þjóðerni, etni og kyn, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta er breytilegt eftir aðstæðum hverju sinni og skarast eftir atvikum. Þetta sýnir að þegar flokkunin „múslími“ er notuð er mjög óljóst hvað átt er við. Múslímar - eins og aðrir hópar – eru ekki „bara“ múslímar, heldur alls konar fólk með margvíslegar skoðanir og viðhorf til flestra hluta sem ekki er hægt að alhæfa um af því að um múslíma er að ræða.
„Þetta sýnir að það er vafasamt að flokka margbreytilega félagslega og menningarlega hópa fólks, af hvaða tagi sem er, eftir einslitum og eðlislægum staðalmyndum“
Önnur flokkun á múslímum er annars vegar það sem kallað er „menningarlegir múslímar“, sem hafa múslímskan bakgrunn en sem iðka ekki trúna (eða lítið) eða eru trúlausir, og hins vegar þeir sem iðka trúna reglulega eftir settum reglum, mæta í moskuna og fara eftir boðum og bönnum íslam. Bent hefur verið á að þessi aðgreining getur verið óljós og fljótandi (Jeldtoft, 2009) þar sem trúariðkun getur verið mismikil eða lítil eftir aðstæðum, einnig að sumir múslímar telja sig trúaða múslíma án þess að stunda trúariðkun að ráði, þannig að það eru margar hliðar á þessu. Að lokum er flokkun sem mannfræðingurinn Mahmood Mamdani (2002, 2004) kallar „góðir múslímar“ og „vondir múslímar“. Góðir múslímar eru t.d. þeir sem hafa svipaðar skoðanir og viðhorf og „við“, eru veraldlegir (secular) og aðhyllast svipuð gildi og við. Vondir múslímar eru þeir sem sjá sig (eða við sjáum) í andstöðu við „vestrið“, hafna heimssýn þess og eru í andstöðu við áhrif þess í löndum múslíma, einkum vestrænar hernaðaraðgerðir. Þetta sýnir að það er vafasamt að flokka margbreytilega félagslega og menningarlega hópa fólks, af hvaða tagi sem er, eftir einslitum og eðlislægum staðalmyndum, en það er einmitt slík flokkun sem einkennir fyrirbærið íslamófóbíu sem verður fjallað um næst.
Íslamófóbía
Samkvæmt orðabók (snara.is) þýðir enska orðið phobia sjúklegur ótti eða hræðsla, fælni og á ensku er talað um „irrational fear“. Samkvæmt þessu er íslamófóbía sjúklegur ótti, órökstudd hræðsla við íslam og múslíma. Íslamófóbía er nokkuð útbreidd á Vesturlöndum (og víðar) og í seinni tíð verið mögnuð upp og haldið til haga af hægri öfgaöflum en einnig verið til staðar í opinberri orðræðu í fjölmiðlum og af vörum ýmissa stjórnmálamanna og svokallaðra álitsgjafa (Hervik, 2011; Lean, 2012; Shryock, 2010). Þessi orðræða, sem oft má kalla hatursorðræðu (Jóna A. Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova, 2013) hefur stundum áhrif á almenningsálitið og getur líka stuðlað að lagabreytingum (t.d. slæðubann, bann við halal slátrun, bann við bænaturnum, o.s.frv.). Slík löggjöf getur í sumum tilfellum brotið á borgaralegum réttindum múslíma (Shryock, 2010) og dæmi eru um að múslímar séu undir meira eftirliti en aðrir þjóðfélagshópar, einkum í Bandaríkjunum og í Bretlandi (Al-Arian, 2014; Sarsour, 2014).
Árið 1997 kom út skýrsla sem kortlagði hugtakið íslamófóbía og kom þessu orði á kortið á áberandi hátt (The Runnymede Trust, 1997). Þar er íslamófóbía skilgreind einkum sem neikvæð viðhorf og orðræða um íslam og múslíma, að þeir verði fyrir mismunun og aðkasti og að þátttaka múslíma í opinberu starfi sé gerð erfið. Þegar talað er um múslíma hér er átt við fólk sem kallar sig múslíma eða er kallað múslímar og hefur múslímskan bakgrunn. Eins og með önnur trúarbrögð þá eru margir múslímar sem iðka trúna lítið sem ekkert, en „múslími“ vísar fyrst og fremst í ákveðinn sjálfumleika (identity), tengdum uppruna og félagslegu umhverfi. Skýrslan dregur saman helstu niðurstöður sínar og lýsir íslamófóbíu, hlutverki fjölmiðla og ábyrgð fréttamanna, mikilvægi þátttöku og aðild múslíma í samfélaginu er undirstrikað og afleiðingar útilokunar og ofbeldis gegn múslímum er litið á sem rasískt ofbeldi. Fjallað er um nauðsyn lagalegrar skilgreiningar á trúarlegu og rasísku ofbeldi. Í skýrslunni er talað um að gera mismunun vegna trúarskoðana ólöglega og setja lög gegn hatursorðræðu vegna trúarskoðana. Það skal tekið fram að slík löggjöf er víða við lýði, sjá t.d, almenn íslensk hegningarlög, grein 233a, en þar stendur að „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum“ (almenn hegningarlög, grein 233a).
„Að vera ósammála múslímum eða gagnrýna íslam er ekki íslamófóbía“
Þessi skýrsla var gagnrýnd og höfundar hennar sagðir ýta undir pólitíska rétthugsun, koma í veg fyrir frjáls skoðanaskipti og gagnrýni á múslíma og íslam og vefengja gagnrýnendur íslam. Skýrsluhöfundar bentu á að á sama hátt og á vissum tíma í Evrópu þótti nauðsynlegt að nota hugtakið „andsemítismi“, eða „gyðingahatur“ vegna aukinnar andúðar og ofsókna gegn gyðingum, sé hliðstæð þörf á álíka hugtaki sem lýsir andúð, hatri og ofbeldi gegn íslam og múslímum. Að vera ósammála múslímum eða gagnrýna íslam er ekki íslamófóbía. Í lýðræðisríkjum eru gagnrýni og opin skoðanaskipti nauðsynleg og heilbrigð og sjálfsagt að benda á það sem miður fer hjá múslímum sem öðrum. Þessi gagnrýni er reyndar ekki síður meðal múslíma sjálfra og margir hörðustu gagnrýnendur þess sem á sér stað í mörgum samfélögum múslíma eru múslímar.
Það má velta því fyrir sér hvers vegna fólk sem þekkir engan múslíma né hefur þekkingu á íslam sé hrætt við múslíma og hafi andúð á íslam. Talað hefur verið um að eftir lok Kalda stríðsins og fall Sovétríkjanna hafi Vesturlönd þurft nýjan óvin og að múslímar hafi hentað vel í það hlutverk (Lean, 2012; Mamdani, 2004; Shryock, 2010). Hvað þetta varðar býr Evrópa yfir sögulegri arfleifð um samskipti „vestursins“ við íslam og „heim múslíma“ og má þar nefna yfirráð Mára yfir Andalúsíu, Krossferðirnar, Ottómanska veldið, nýlendutímann og í seinni tíð 9/11, stríðin í Afganistan og Írak og hér á Íslandi Tyrkjaránið sem lifir góðu lífi í minningu þjóðarinnar og er dregin fram þegar svo hentar (sjá t.d. Ólaf F. Magnússon, 2013).
Íslamófóbía er ekki einfalt fyrirbæri en þar skarast hugmyndir um kynþætti, trúarbrögð, heimsveldi, o.fl. Mannfræðingurinn Junaid Rana (2007) hefur fjallað um mótun myndarinnar af verunni (figure) „múslími“ og segir hann „múslímann“ vera að verulegu leyti byggðan á kynþáttahyggju þar sem menningarlegar flokkanir þjóðar, trúarbragða, etnis og kyngerfis skarast. Samkvæmt þessu er íslamófóbía tegund rasisma og þessi sérstaki ótti eigi sér m.a. rætur í efnahagslegu og félagslegu misrétti og flóknum sögulegum minningum um samskipti „vestursins“ við íslam.
Umræðan um íslamófóbíu sem tegund rasisma hefur líkst umræðunni um það hvernig kynþáttahugtakið og rasismi hefur færst frá líffræðilegri skilgreiningu yfir í menningarlega eðlishyggju (Rana, 2007). Í þessari umræðu leystu hugtökin menning og etni að vissu marki hugtökin kynþátt og rasisma af hólmi sem hefur m.a. lýst sér í að hópar eins og EDL (English Defence League) fóru að tala um menningu ákveðinna hópa (les: múslíma) í stað kynþáttar, eins og mannfræðingurinn Giulia Liberatore (2013) hefur bent á.
Þannig verður að skoða íslamófóbíu sem hluta af orðræðu um áhrif sögulegra og pólitískra afla á hugmyndir „okkar“ um „hina“, í þessu tilfelli um ímyndina af „múslímanum“. Eins og bent hefur verið á byggjast þessar hugmyndir á hreyfiöflum nýlenduhyggjunnar og á heimsveldabrölti þá og nú, þar sem íslam og „múslíminn“ gegnir ákveðnu hlutverki þar sem hann er smættaður og þröngvað í einsleitt, eðlisgert gervi.
„Fjöldamörg dæmi má finna í fjölmiðlum og netmiðlum um hatursorðræðu og hatursglæpi, en þessi dæmi mynda klasa yrðinga og gerða þar sem hið gegnumgangandi þema er það sama, sem er niðrandi orðræða og aðgerðir gegn múslímum og íslam“
Eins og komið hefur fram er hugtakið íslamófóbía að vissu leyti óljóst hugtak, en Sayyid (2014) segir íslamófóbíu vera hugtak til að flokka það sem rasisminn flokkar ekki. Komið hefur fram að íslamófóbía tengist kynþáttahugtakinu og rasisma, en hún snýst ekki eingöngu um hatur og ótta gegn múslímum eða íslam, heldur hindrar íslamófóbía múslíma að vera múslímar á margskonar hátt, leynt og ljóst. Samkvæmt Sayyid (2014) hindrar íslamófóbía múslíma í að lifa og tjá sjálfumleika sína sem múslímar. Vegna óskýrleika hugtaksins skilst það betur með því að nota dæmi af yrðingum, athöfnum, aðgerðum og viðhorfum í reynd. Fjöldamörg dæmi má finna í fjölmiðlum og netmiðlum um hatursorðræðu og hatursglæpi, en þessi dæmi mynda klasa yrðinga og gerða þar sem hið gegnumgangandi þema er það sama, sem er niðrandi orðræða og aðgerðir gegn múslímum og íslam. Með því að skoða þessa klasa sést hvernig íslamófóbía birtist (Sayyid, 2014). Sayyid bendir á nokkur dæmi máli sínu til stuðnings: árásir á múslíma, í hvaða formi sem er, líkamlegar eða munnlegar; árásir á eignir tengda múslímum, ógnun af einhverju tagi, t.d að brenna Kóraninn; stofnanabundin mismunun á opinberum stöðum og stofnunum; og skipulögð hatursorðræða á opinberum vettvangi (Sayyid, 2014, bls. 15-16). Dæmi um þetta eru ótalmörg og er ekki annað hægt en að líta á þetta sem samfélagslegan ófögnuð, alla vega fyrir þau sem vilja berjast gegn rasisma, íslamófóbíu eða öðrum neikvæðum viðhorfum mismununar til samferðafólks okkar.
Þessi pistill er stytt útgáfa af lengri grein um íslamófóbíu frá 2014, en það sorglega er að staða rasískrar orðræðu eins og andúð gegn múslímum hefur síður en svo skánað síðan þá. Tel ég fulla ástæðu til að brýna og fræða um samhengið sem sú orðræða þrífst í.
Heimildir
Al-Arian, A. (2014). The informants: Manufacturing terror. aljazeera.com, 21. júlí, 2014. Sótt 25. ágúst 2014 af http://www.aljazeera.com/indepth/opinion/2014/informants-manufacturing-terror-20147218131267614.html
Hervik, P. (2011). The annoying difference: The emergence of Danish neonationalism,, neoracism, and populism in the post-1989 world. Oxford: Berghahn.
Jeldtoft, N. (2009). On defining Muslims. Yearbook of Muslims in Europe, 1, 9-14. Leiden: Brill.
Jónína A. Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova. (2013). Hatursorðræða: Yfirlit yfir lög og reglur – ábending til framtíðar. Reykjavík: Mannréttindaskrifstofa Íslands – Icelandic Human Rights Centre. Sótt 25. ágúst, 2014 af http://www.humanrights.is/media/frettir/Hatursordraeda-yfirlit-yfir-gildandi-log-og-reglur-abendingar-til-framtidar.pdf
Lean, N. (2012). The Islamophobic industry: How the right manufactures fear of Muslims. London: Pluto Press.
Liberatore, G. (2013). Where´s Wally? How the EDL blends in. The Left Project. Sótt 26. ágúst, 2014, af http://www.newleftproject.org/index.php/site/article_comments/wheres_wally_the_edl_is_blending_in
Mamdani, M. (2002). Good Muslim, bad Muslim: A political perspective on culture and terrorism. American Anthropologist, 104(3), 766-775.
Mamdani, M. (2004). Good Muslim, bad Muslim: America, the cold war, and the roots of terror. New York: Harmony.
Ólafur F. Magnússon. (2013). Moska varasöm fyrir íslenska þjóðmenningu og öryggi. DV, 10. júlí, 2013. Sótt af http://www.dv.is/frettir/2013/7/10/ottast-ahrif-mosku-islenska-thjodmenningu/
Rana, J. (2007). The story of Islamophobia. Souls 9(2), 148-161.
Reelbadarabs. (heimasíða um kvikmynd með sama nafni). www.reelbadarabs.com
Sarsour, L. (2014, 9. júlí). Don´t be shocked that the US spied on American Muslims. Get angry that it justifies spying on whoever it wants. theguradian.com. Sótt af http://www.theguardian.com/commentisfree/2014/jul/09/us-spied-american-muslims-email
Sayyid, S. (2014). A measure of Islamophobia. The Islamophobic Studies Journal, 2(1), 11-25
Shryock, A. (ritstjóri). (2010). Introduction: Islam as an object of fear and affection (bls. 1-25). Í Islamophobia/Islamophilia: Beyond the politics of enemy and friend. Bloomington and Indianapolis: Indiana University Press.
Snara.is. orðabók. http://snara.is/bls/um/_enisal.aspx
The Runnymede Trust. (1997). Islamophobia: A challenge for us all. Report of the Runnymede Trust, Commission on British Muslims and Islamophobia. Sótt af http://www.runnymedetrust.org/uploads/publications/pdfs/islamophobia.pdf
Athugasemdir (1)