Er samtíminn jafnyfirborðskenndur og gagnrýnendur hans vilja vera láta? Nýjustu fréttir af Þjóðminjasafni Íslands benda til að svo sé. Uppsögn þriggja fornleifafræðinga hjá safninu hefur valdið óánægju. Þjóðminjasafnið auglýsir hins vegar eftir kynningarstjóra til að „styrkja ímynd“ þess.
En það er ekki aðeins á Þjóðminjasafninu sem innihaldið víkur fyrir umbúðunum.
Í síðustu viku sökuðu fulltrúar minnihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í borgarráði Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarstjóra Reykjavíkur, um að taka hagsmuni sela fram yfir hagsmuni íþróttaiðkenda. Gáfu þeir í skyn að til stæði að lækka framlög til byggingar íþróttahúss KR-inga úr fimm hundruð milljónum í fjögur hundruð milljónir svo að byggja mætti nýja sundlaug handa selunum í Húsdýragarðinum. „Fulltrúum Sjálfstæðisflokks er ekki um sel,“ sagði í glettnistóni í bókun flokksins.
RÚV flutti frétt af ásökuninni sem fékk byr undir báða vængi, jafnvel þótt formaður borgarráðs segði hana af og frá; breyting á fjárhagsáætlun væri aðeins tæknilegt atriði sem endurspeglaði töf á framkvæmdum á íþróttahúsi KR-inga og ekkert orsakasamhengi væri milli selalaugarinnar og hússins.
En allt kom fyrir ekki. Fullyrðingin lifði enn góðu lífi þrem dögum síðar þegar borgarstjóra var ekki annað stætt en að stíga fram í fjölmiðlum og bera af sér sakir um að vera sérlegur talsmaður sela og andstæðingur íþróttaiðkunar.
Upphrópanir eru umbúðir stjórnmálanna. Hver þarf stefnumál þegar hann getur ráðið kynningarstjóra?
Ásakanir minnihlutans í borgarráði sýna hversu lítið vægi innihald hefur í pólitík samtímans. En það er tvíeggja sverð að slaka á kröfunni um að inntak leynist á bak við skrautlegar umbúðir.
Hræið nýtt í refafóður
Sofa urtu börn
á útskerjum,
veltur sjór yfir,
og enginn þau svæfir.
Þannig orti Sveinbjörn Egilsson einni og hálfri öld áður en Húsdýragarðurinn leit dagsins ljós í Laugardal þar sem borgarbörnum gefst nú kostur á að berja augum seli – ekki þó á útskerjum heldur í lítilli sundlaug.
Húsdýragarðurinn var opnaður sumarið 1990 og voru þá þrír selir í selalauginni sem veiddir höfðu verið sérstaklega. Áratug síðar voru þeir orðnir sjö.
Það var ekki fyrr en árið 2015 að spurningar um réttmæti þess að halda seli í lítilli sundlaug urðu háværar. Kópur hafði fangað hug og hjarta almennings eftir að hann slapp út úr garðinum og verið handsamaður af lögreglu á tjaldstæðinu í Laugardal. Mörgum varð um þegar kópurinn var aflífaður af starfsmanni garðsins og hræið nýtt í refafóður. Í ljós kom að um 40 selskópar höfðu hlotið sömu örlög sökum plássleysis frá því að garðurinn var opnaður.
Í kjölfarið íhugaði borgarstjórn að sleppa dýrunum út í náttúruna. Ekki var hins vegar talið að þau lifðu slíkt af. Það var því annaðhvort að aflífa þau eða dýpka sundlaugina. Árið 2022 ákvað borgarráð að þyrma selunum og samþykkti framkvæmdir á lauginni.
Grimmileg einföldun
Sofa manna börn
í mjúku rúmi,
bía og kveða
og pabbi þau svæfir.
Minnihlutinn í borginni spyr hvort borgarstjóri taki hagsmuni sela fram yfir hagsmuni KR-inga og brosir í kampinn. Af sömu yfirborðsmennsku má spyrja minnihlutann: Takið þið hagsmuni íþróttaáhugafólks í Vesturbænum fram yfir hagsmuni þjáðra dýra? Finnst ykkur í lagi að selir kveljist svo að reykvísk börn geti glápt á þá sér til skemmtunar meðan þau borða ís á sólardögum? Er það vandað stjórnmálafólk sem hendir gaman að dýraníði?
Líklegt er að borgarráðsfulltrúar minnihlutans segðu slíka framsetningu grimmilega einföldun. Þeir hefðu á réttu að standa. Mótbárur þeirra hefðu þó lítið upp á sig. Því við uppskerum eins og við sáum og lifum í þeirri veröld sem við byggjum okkur.
Athugasemdir (2)