Fyrir langalöngu var eiginmaður minn nemandi í Verzlunarskóla Íslands. Í hádeginu hélt hann gjarnan í Kringluna ásamt félögum sínum til að kaupa sér mat á salatbarnum í Hagkaup. Kokteilsósa, í litlum plastboxum, var seld sér. Þótt sósan kostaði aðeins tíkall stal einn félaganna alltaf kokteilsósunni sem hann gæddi sér á með salatinu.
Þegar eiginmaður minn kom heim úr skólanum einn daginn og greindi föður sínum frá framferði skólafélaga síns kvaðst faðir hans mundu afneita honum ef hann gerðist þjófur fyrir minna en milljón.
Ummælin voru látin falla í gríni. Í þeim felst þó siðferðislexía sem ber að taka alvarlega: Í kapítalískri veröld selur maður aðeins sál sína fyrir rétt verð.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa staðið fyrir auglýsingaherferð gegn hækkun veiðigjalds. Hafa auglýsingarnar fallið í grýttan jarðveg en samkvæmt nýrri skoðanakönnun telur 66 prósent fólks auglýsingarnar slæmar fyrir málstað SFS.
Margir veltu fyrir sér hvaða fólk léti nota sig í gerð slíks „áróðurs“ eins og Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, kallaði auglýsinguna, í þágu stórútgerðarinnar og gegn almannahag. Samfélagsrýnirinn Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir kallaði eftir svörum: „Hver skrifaði handritið, hverjir framleiddu og hver leikstýrði?“ spurði hún á Facebook.
Fréttastofa Vísis hafði uppi á leikstjóranum sem svaraði blaðamanni í senn skömmustulegur og vígreifur. Hann sagðist hafa komið að verkefninu með skömmum fyrirvara og bar við þekkingarleysi; þrátt fyrir að hafa eitt sinn stýrt Hraðfréttum vissi hann varla hvað SFS var áður en hann tók að sér leikstjórn auglýsingarinnar. Hann sagðist ekki hafa neinar sérstakar meiningar í sjávarútvegsmálum og þyrfti einfaldlega að taka að sér þau verkefni sem byðust, því börnin hans þyrftu að borða.
Stríð og skilnaður
Í sjálfsævisögu sinni, „Aftermath“, eða Eftirleikur, fjallar breski verðlaunahöfundurinn Rachel Cusk opinskátt um skilnað við eiginmann sinn. Hún segir að um sum svið mannlífsins sé ekki nokkuð hægt að vita fyrir fram – svo sem stríð. „Hermaður sem heldur í stríð í fyrsta sinn veit ekki hvernig hann mun bregðast við því að standa andspænis vopnuðum óvini,“ skrifar Cusk. „Er hann vígamaður eða heigull?“ Hún segir sama gilda um stríð og skilnað. Þótt maður telji sig manneskju sem mæti endalokum hjónabands af reisn sé ekki nokkur leið að vita hver viðbrögðin verði fyrr en á hólminn sé komið.
„Með öðrum orðum: Hefði Riefenstahl átt börn hefðu þau þurft að borða“
Fyrir viku fór ég á frumsýningu nýrrar heimildarmyndar í London sem fjallar um eina umdeildustu persónu kvikmyndasögunnar, Leni Riefenstahl. Riefenstahl er þekkt fyrir listrænar áróðursmyndir sínar fyrir nasista. Í heimildarmyndinni talar Riefenstahl af innlifun um tæknileg atriði kvikmynda sinna á borð við myndatöku og lýsingu. Hún telur hins vegar boðskap myndanna ekki koma sér við. Hún hafi einfaldlega verið „ráðin til að sinna verkefni“ og að listamaðurinn sé „hlutlaust verkfæri“ verkkaupa. Með öðrum orðum: Hefði Riefenstahl átt börn hefðu þau þurft að borða.
Hvað myndi ég gera?
Sem verktaki í hugverkabransanum finn ég til nokkurrar samkenndar með leikstjóra áróðursauglýsinga SFS. Í fagi, þar sem fullyrðingin „þetta er gott fyrir ferilsskrána þína“ telst ígildi launagreiðslu, eru alvöru atvinnutilboð ekki á hverju strái.
Ég ætla ekki að láta eins og ég viti hvernig ég myndi bregðast við aðstæðum sem ég hef aldrei verið í. Þótt ég fái annað slagið tilboð um að skrifa til stuðnings málstað sem samrýmist ekki samvisku minni hef ég verið svo lánsöm (eða ólánsöm) að launin í boði voru alltaf alger kokteilsósa.
En hvað gerði ég ef sjávarútvegspeningar væru í boði?
Rachel Cusk taldi sig og eiginmann sinn siðfágað fólk sem flygi tignarlega í gegnum skilnað. Raunin varð önnur.
Ég tel sjálfri mér trú um að ég fengist aldrei til að semja vafasaman áróður, sama hvað ég fengi greitt fyrir. Staðreyndin er hins vegar sú að ég veit það ekki. Ekki frekar en ég veit hvernig ég stæði mig í stríði.
Ég vona bara að leikstjórinn prúði hafi ekki selt sál sína fyrir kokteilsósu eins og skólabróðir eiginmanns míns forðum.
Athugasemdir