Skömmin er ótemjandi eldur sem ólgar innra með mér, leitar upp í hálsinn og þrengir að raddböndunum. Ég sit stíf við hliðina á mömmu minni, andspænis okkur situr einkaþjálfarinn sem ég hafði grátbeðið mömmu um að fara til. Lófar mínir eru kófsveittir og ég berst við að halda aftur tárunum. Ekki gráta hér, ekki núna. Ég hélt að ef ég gæti bara breyst, lagfært mig, yrði ég loksins nóg. Einkaþjálfarinn dregur fram blað með fitumælinganiðurstöðunum, hún virkar stíf og afskiptalaus. Þjálfarinn merkir línu á blað og punkt í miðjuna. Hún lítur á mig, augun hennar einstaklega köld og segir með tilfinningasnauðri röddu: „Mamma þín er staðsett hér á línunni, hún er í eðlilegri þyngd … en þú ert staðsett hér.“ Hún teygir sig út fyrir blaðið og setur pennann niður á endann á skrifborðinu sínu. Eins og ég væri svo langt fyrir utan hið mælanlega svið að ég tilheyrði ekki lengur blaðinu. Ekki líkamanum mínum. Ekki þessum heimi. Ég var aðeins tólf ára.
Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég byrjaði að neita mér um fæðu en þessi minning situr alltaf í mér eins og djúpt, ólæknandi sár. Ég man eftir litlu stelpunni sem stóð fyrir framan spegilinn og las upp kaloríumagn af uppáhaldsmatnum sínum og minnti sig á að vera „góð“. Litlu stelpunni sem langaði svo í ís eins og litla systir sín en þorði ekki að biðja um vegna vonbrigðasvips stjúpmömmu sinnar. Litlu stelpunni sem vaknaði um miðjar nætur með garnirnar gaulandi af hungri en hughreysti sjálfa sig með því að ef hún yrði grönn, þá yrði hún „góð“, ef hún yrði „góð“, þá yrði hún elskuð og ef hún yrði elskuð, þá yrði hún loksins nóg. Það er erfitt að setja í orð þann sársauka sem fylgir því að líða ekki vel í eigin líkama, að upplifa líkama sinn ekki sem hluta af sjálfum sér, heldur óvin eða eitthvað sem þarf að laga, minnka eða breyta. Þó að sagan mín sé einstök er hún engan veginn einsdæmi. Ég er aðeins ein rödd í margra alda kórverki fólks sem hefur þjáðst vegna átröskunar.
* * *
Átraskanir hafa fylgt mannkyninu í aldaraðir, þó að aðeins á síðustu áratugum hafi þær fengið viðurkenningu og rými í opinberri umræðu. Í gegnum söguna hafa líkamar, sérstaklega líkamar kvenna, verið settir undir stækkunargler samfélagsins, mældir, dæmdir og mótaðir eftir síbreytilegum hugmyndum um fegurð. Þessi viðvarandi pressa til að falla að þröngum og oft óraunhæfum fegurðarstöðlum hefur haft djúpstæð áhrif á sjálfsmynd ótal einstaklinga og getur leitt til þróunar átraskana.
Richard Morton er almennt talinn hafa fyrst lýst lystarstoli (e. anorexia nervosa) með læknisfræðilegum hætti árið 1689. Hann lýsti þar ungri konu sem „virtist veslast upp af eigin vilja“, þó án þess að geta útskýrt orsakir ástandsins. Þessi heimild er hins vegar aðeins toppurinn á ísjakanum. Til eru eldri ritheimildir sem gefa til kynna að hegðun sem líkist lystarstoli hafi verið til staðar löngu fyrr. Fyrsta skráða dauðsfallið sem er mögulega af völdum lystarstols, og ein elsta frásögnin sem tengist lystarstoli, er frá árinu 383 e. Kr. en þar er kona sögð hafa svelt sig til dauða (Pearce, 2004).
Lystarstol er flókin og hættuleg geðröskun sem einkennist af langvarandi og verulegri skerðingu á fæðuinntöku. Þessi skerðing leiðir oft til óeðlilega lítillar líkamsþyngdar, sem er langt fyrir neðan það sem telst heilbrigt miðað við aldur og kyn. Röskunin einkennist jafnframt af stöðugum, nær þráhyggjukenndum vilja til að grennast, brenglaðri líkamsímynd og sterkri sífelldri hræðslu við það að þyngjast. Fólk sem þjáist af lystarstoli sér oft sjálft sig sem of feitt þrátt fyrir að vera mjög grannt (Moore og Bokor, 2023).
Margir halda að lystarstol sé eina átröskunin sem til er en raunveruleikinn er miklu flóknari. Aðrar átraskanir, líkt og lotugræðgi (e. bulimia nervosa) og átköst (e. binge eating disorder) eru einnig algengar og geta verið mjög skaðlegar, bæði andlega og líkamlega (Types of Eating Disorder Beat, e.d.). Þrátt fyrir það hefur lystarstol orðið sú röskun sem flestir tengja við hugtakið „átröskun“ vegna hættulegs eðlis hennar. Dánartíðni meðal fólks með lystarstol er um 10 prósent (Qian o.fl., 2013). Þetta gerir hana að einum banvænasta geðsjúkdómi sem til er en tæplega fjórðungur þeirra sem látast vegna lystarstols tekur eigið líf sem undirstrikar þá miklu andlegu vanlíðan sem fylgir röskuninni (Moore og Bokor, 2023).
* * *
„Ég mun aldrei hætta að finna fyrir sektarkennd vegna dauða dóttur minnar.“ Þau voru hamingjusöm fjölskylda. Pip var svo hláturmild, alltaf að stríða systkinunum sínum, en á þremur árum horfði Masie, mamma Pip, á hana glata sjálfri sér. Þetta byrjaði svo sakleysislega. Hún vildi ekki smjör í kartöflumúsina, sleppti hádegismat og vildi ekki sætindi. Masie hélt að þetta væri bara tímabil, unglingar breytast, verða meðvitaðir um líkama sinn. En brátt sá hún það í augum Pip hvað hún var hrædd en samt ákaflega ákveðin, eins og eitthvað annað stjórnaði henni.
Foreldrar Pip ruku með hana frá einum lækni til annars. Masie var orðin mamman sem læknarnir hvísluðu um á bak við luktar dyr, sú sem gerir „of mikið mál úr engu“. En hún sá dóttur sína hverfa. Pip var eins og tuskudúkka í rúminu sínu, segir Masie, og hún hugsaði: „Dóttir mín er að deyja og enginn vill viðurkenna það.“ Þau börðust en það var eins og kerfið væri lokað og læst, þau börðu á hurðir sem enginn vildi opna. Vandinn við lystarstol er að sjúkdómurinn veldur því að þú vilt hafa hann: Þó að Pip borðaði nánast ekkert heima tókst henni að borða lágmarksmagn af mat á sjúkrahúsinu svo hún gæti farið aftur heim og þar sem henni fannst hún geta haldið áfram þráhyggjukenndu lágkaloríu-mataræði sínu og óhóflegri líkamsræktinni.
Læknarnir sögðu Masie að leggja yrði Pip inn þrisvar í neyð áður en hún fengi meiri aðstoð. Þeir hlustuðu ekki þegar Masie sagði þeim að dóttir sín myndi deyja. Þann 9. desember árið 2015 hoppaði Pip fyrir lest og tók sitt eigið líf. Hún vildi lifa og skrifaði það niður: „Ég vil alast upp, eignast framtíð.“ En hún gat ekki barist lengur og lystarstolið vann. Ef þetta hefði verið krabbamein hefðu læknarnir komið hlaupandi. En þetta var geðsjúkdómur og enginn tók ástandinu alvarlega. Masie segir að hún muni alltaf spyrja sig, hvað ef þau hefðu hlustað strax?
* * *
Áhrif lystarstols eru ekki minni hér á landi en annars staðar í heiminum. Talið er að ein af hverjum tíu konum á Íslandi þjáist af lystarstoli á lífsleiðinni. Samt sem áður eru úrræði af skornum skammti, Landspítalinn er nær eina sérhæfða meðferðarúrræðið sem stendur til boða og þar getur bið eftir aðstoð verið allt að eitt og hálft ár (Sunna Valgerðardóttir, 2021). Þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu er mikilvægt að fólk missi ekki von.
Meðan beðið er eftir meðferð má stíga mörg lítil en þýðingarmikil skref sem styðja við bataferlið og hjálpa til við að halda í vonina. Það er mikilvægt að muna að enginn þarf að ganga í gegnum þetta einn. Leiðin til bata getur verið óljós í fyrstu, en mikilvægasta skrefið er að átta sig á því að vandamál sé til staðar. Þegar grunur vaknar um að lystarstol hafi áhrif á líf og heilsu er nauðsynlegt að leita til fagfólks sem getur útbúið meðferðaráætlun við hæfi. Þótt meðferð sé kjarninn í bataferlinu geta margir litlir þættir einnig skipt máli, atriði sem styðja við að endurheimta stjórn, sjálfsvirðingu og vellíðan.
Raunhæf markmið sem samræmast meðferð, geta verið hjálpleg. Það getur gagnast að skrá hugsanir, minningar eða staðreyndir sem minna á að einstaklingurinn er meira en bara tala á vigt eða spegilmynd. Félagslegur og tilfinningalegur stuðningur frá vinum, fjölskyldu eða stuðningshópum er ómetanlegur og mikilvægt er að leyfa sér að taka þeirri hjálp. Hvíld og sjálfsumhyggja skipta einnig máli, svefn, hugleiðsla og öndunaræfingar geta dregið úr álagi og stutt við bata (Self-Care for Anorexia, 2024). Bati er mögulegur. Sérhver manneskja á skilið að fá aðstoð og lifa lífi þar sem innri barátta ræður ekki ríkjum.
* * *
Nú þegar ég lít í spegilinn sé ég ekki einungis hlutina sem ég er óörugg með, ég sé fallega konu. Ekki vegna þess að ég uppfylli einhver tiltekin líkamsviðmið, heldur vegna þess að ég sé mig sjálfa með mildi, virðingu og skilningi. Ég er ekki lengur föst í þeim hugsunum að ég sé ekki nógu mjó, eða yfirhöfuð nóg. Þessar hugsanir sem voru einu sinni stór hluti af mínu daglega lífi stjórna mér ekki lengur, þótt þær birtist stundum enn.
Árið 2021 tók ég fyrsta meðvitaða skrefið í átt að bata. Ég fór til Röggu nagla í næringarráðgjöf þar sem áherslan var ekki á matarplön eða vigt, heldur á sambandið mitt við mat og það sem mér fannst raunverulega ógnvekjandi, að þyngjast. Í samtölum okkar fékk ég rými til að ræða tilfinningarnar sem fylgdu því að borða, að sleppa stjórn og að horfa á sjálfa mig af meiri samkennd. Þetta var ekki hefðbundin meðferð, en hún var mér ómetanleg.
Ég leitaði mér ekki aðstoðar í gegnum hefðbundna meðferð, einfaldlega vegna þess að ég sá ekki sjálfa mig sem veika. Ég hélt að þetta væri bara „eðlilegt“, að vera sífellt með samviskubit eftir mat, að telja hitaeiningar í huganum og að láta vigtina ráða því hvort dagurinn teldist góður eða slæmur. Það var ekki fyrr en ég horfði til baka að ég áttaði mig á hversu mikil orka fór í þessa baráttu og hversu mikið ég þurfti á hjálp að halda. Ég sé nú eftir því að hafa ekki leyft mér að biðja um hjálpina fyrr.
Ég er ekki „búin“ að komast yfir þessar hugsanir, mér finnst mikilvægt að segja það hreinskilnislega. Ég er enn að vinna í mínum málum, því bati er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu. Hann gerist smám saman í gegnum samtöl, erfiða daga, með því að mæta sjálfri mér aftur og aftur með meira umburðarlyndi en áður. Ég er ekki fullkomin, en ég er heilbrigðari og það eitt og sér er stórsigur. Ef ég gæti sagt eitthvað við mig þegar mér leið sem verst, þá væri það: Þér þarf ekki að líða verst af öllum til að eiga rétt á hjálp og þú þarft ekki að „sanna“ að þú sért veik til að fá stuðning. Það er hugrekki að viðurkenna að maður þarfnast hjálpar og það er styrkur að leita leiða til að líða betur í eigin skinni.
Heimildir:
Moore, C. A., & Bokor, B. R. (2023, August 28). Anorexia nervosa. StatPearls - NCBI Bookshelf. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/NBK459148/
Moorhead, J. (2017, September 20). ‘I can’t fight anorexia any more. I’ve tried so hard.’ The Guardian. https://www.theguardian.com/lifeandstyle/2017/jun/10/anorexia-pip-mcmanus-fight-died-eating-disorder-medical-care-failed
Pearce, J. (2004). Richard Morton: Origins of Anorexia nervosa. European Neurology, 52(4), 191–192. https://doi.org/10.1159/000082033
Self-Care for anorexia. (2024, September 28). WebMD. https://www.webmd.com/mental-health/eating-disorders/anorexia-nervosa/self-care-anorexia
Sunna Valgerðardóttir. (27. maí 2021). Meira en tíunda hver kona á Íslandi þjáist af átröskun. Rúv. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-05-27-meira-en-tiunda-hver-kona-a-islandi-thjaist-af-atroskun
Types of eating disorder - beat. (e.d.). Beat. https://www.beateatingdisorders.org.uk/get-information-and-support/about-eating-disorders/types/
Qian, J., Hu, Q., Wan, Y., Li, T., Wu, M., Ren, Z., & Yu, D. (2013). Prevalence of eating disorders in the general population: a systematic review. PubMed. https://doi.org/10.3969/j.issn.1002-0829.2013.04.003
Athugasemdir