Troðningur myndaðist meðal glorsoltinna Gaza-búa í Khan Yunis í dag þegar gefnir voru matarskammtar.
Ríkisstjórn Benjamíns Netanyahus í Ísrael hefur ákveðið að taka yfir Gasaströndina. Fjármálaráðherra Ísraels, Bazalel Smotrich, sagði í dag á ráðstefnu um landnemabyggðir Ísraela á Vesturbakkanum, svæði Palestínumanna, að Gasa-svæðið yrði „gjöreyðilagt“. Um tvær milljónir manna búa þar, en rúmlega 50 þúsund látist í árásum Ísraela síðasta eina og hálfa árið.
„Innan árs munum við geta lýst yfir sigri á Gasa,“ sagði hann. „Gasa verður gjöreyðilagt, borgarar verða fluttir til suðurs á mannúðarsvæði án Hamas eða hryðjuverka. Þaðan geta þau flykkst til annarra landa,“ sagði hann.
Yfirlýsingar fjármálaráðherrans endurspegla ekki endilega stefnu ríkisstjórnarinnar í heild. Stefna ríkisstjórnar Netanyahus er hins vegar að taka yfir Gasasvæðið og halda því um óákveðinn tíma. Forsætisráðherrann hélt því fram í gær að aðgerðin yrði kraftmikil og að Palestínumenn yrðu fluttir á suðurhluta Gasasvæðisins „til að gæta öryggis þeirra“.

Athugasemdir (1)