Umhverfismál hafa enga rödd á Alþingi. Enginn málsvari er þar lengur fyrir náttúruna og mikilvægi þess að á hana sé hlustað og hún vernduð gegn gróðaöflum sem sjá botnlausa nýtni hennar sem eina kostinn. Þess í stað er keyrt á blindri hagnaðarsýki sem engu eirir og tekur engum rökum.
Tillögur að lagabreytingum eru lagðar fram til að einstaka mál nái fram að ganga án allrar heildarsýnar eða með samfélagsleg sjónarmið í huga. Undanþágur til matsskyldra orkurannsókna á virkjunarhugmyndum í biðflokki er varhugaverðar þar sem þær grafa undan meginmarkmiðum verndar- og orkunýtingaráætlunar. Slíkar undanþágur opna á framkvæmdaforsendur áður en endanlegt faglegt mat hefur farið fram og pólitísk afstaða hefur verið mótuð. Þetta er vanvirðing við náttúruna, samfélögin og lýðræðið.
Við sjáum oftar framapot og vinavæðingu í krafti einkahagsmuna en heildstæða stefnumótun. Viðspyrna stjórnarandstöðunnar engin. Skilvirkni er látin vega þyngra en ábyrgð og dýpt í viðkvæmum málaflokki..
Viðkvæm sjálfsmynd og vaxandi álag
Á Íslandi hefur náttúran löngum verið hluti af sjálfsmynd okkar. En hún er líka brothætt. Nú blasa við loftslagsbreytingar, fjölgun ferðamanna, sívaxandi mannvirkjagerð og aukinn þrýstingur á orkuöflun. Álagið vex hratt og við stöndum frammi fyrir vali. Við veljum ekki aðeins á milli nýtingar og verndar. Við veljum hvort við ætlum að leyfa börnum okkar að erfa náttúru sem nærir eða að samþykkja í þögn að glata því sem við elskum og þörfnumst.
Landvernd, ein stærstu umhverfisverndarsamtök landsins, hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að náttúruvernd verði ekki aðeins orð í stefnuyfirlýsingum heldur virk aðgerð í stefnumótun stjórnvalda og daglegu lífi. Þau minna á að náttúran sjálf hefur enga rödd í nefndum eða stjórnsýslu, hún þarf að treysta á okkar stuðning og vernd.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur haft sömu áherslur í stefnuskrá sinni. Þar er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda, friðun náttúruverðmæta og að ákvarðanataka taki mið af langtímahagsmunum frekar en skammtímahagnaði. Þetta eru ekki eingöngu pólitískar yfirlýsingar heldur grundvallaratriði sem snerta velferð framtíðarkynslóða. Á sama tíma sýna rannsóknir að þegar náttúruvernd er jaðarsett í stefnumótun, þegar ákvarðanir um stóriðju, virkjun eða landnýtingu eru teknar án fullnægjandi umhverfismats eða lýðræðislegs samráðs tapar samfélagið verðmætum sem aldrei verða endurheimt.
Vernd náttúru er vernd lífs
Náttúruvernd snýst ekki aðeins um fugla eða mosa. Hún snýst um loftið sem við öndum að okkur, vatnið sem við drekkum og um líffræðilegan fjölbreytileika sem styður vistkerfi jarðar. Hún snýst um rétt komandi kynslóða til að njóta sömu fegurðar, friðar og heilnæmis og við höfum átt kost á. Til að ná árangri þarf samstarf milli stjórnmálafólks, almennings, atvinnulífs og náttúruverndarsamtaka sem þurfa að tala skýrt og vinna saman að raunhæfum lausnum. Löggjöf þarf að styðja við vernd náttúru fremur en að þjóna þrýstihópum í gróðaleit.
Náttúran er ekki sjálfsögð. Hún er kjölfesta menningar okkar, sjálfsmyndar og velferðar. Ábyrgðin á verndun hennar hvílir á okkur öllum. Við stöndum nú á tímamótum.
Hver rödd, hver athöfn, hvert skref skiptir máli. Náttúran bíður ekki og hún mun ekki fyrirgefa gleymsku okkar og gróðahugsun.
Athugasemdir