Kuldi íslensku vindanna virðist mildari en sá kaldi veruleiki sem ég hef þurft að horfast í augu við síðastliðnar vikur. Skuggamyndir skelfilegrar nætur fylgja mér hvert fótmál, en ég stend upprétt og finn mig knúna til að segja frá upplifun sem ég myndi engum óska.
Ég er brotaþoli hópnauðgunar sem stóð yfir í margar klukkustundir. Mér var byrlað, ég var notuð af þremur mönnum, tekin upp á myndband og mér meinað útgöngu. Brot svo viðurstyggilegt að enginn myndi hugsa sér að hlífa gerendum þess við réttlátum afleiðingum þess. Eða hvað? Hvað með íslenska „réttarkerfið“? Nú, þá er allur vafi túlkaður gerendum í hag. Við konur höfum bæði reynt og heyrt af hinu svokallaða íslenska „réttarkerfi“. Við brotaþolar reynum að hugga okkur við að ef til vill ónáði lögregla og bregði gerendum okkar þegar þeir eru færðir til yfirheyrslu. Við leyfum okkur jafnvel að ylja okkur við þá vonarglætu að þeir verði hnepptir í gæsluvarðhald svo öryggi kynsystra okkar sé tryggt.
Þeir ganga lausir
Dómsmálaráðherra sagði nýverið í viðtali að eitt af skilyrðum þess að réttlæta gæsluvarðhald sé að talin sé hætta á að hinn grunaði brjóti af sér aftur. Samtímis bekennir hún að brotin virðast þaulskipulögð af hópi manna með einbeittan brotavilja. Það er ekki heil brú í þessu. Þeir ganga lausir á meðan við hniprum okkur bak við lás og slá okkar eigin heimila og reynum að tjasla okkur aftur saman. Sjálfskipuð einangrun okkar er sérlega ömurleg vitandi að þeir ráfa um miðbæinn í leit að næsta fórnarlambi. Við teljum okkur vita hver niðurstaðan verður. Ekki rökstuddur grunur. Ólíklegt til sakfellingar. Niðurfelling. Engin ákæra. Svo til hvers að kæra? Í von um skaðabætur? Ég get lofað ykkur því að engin upphæð væri nógu há og þar að auki hef ég engan áhuga á mínum eigin blóðpeningum.
„Þeir ganga lausir á meðan við hniprum okkur bak við lás og slá okkar eigin heimila og reynum að tjasla okkur aftur saman
Frétti af annarri konu
Í kjölfar nauðgunarinnar var hugur minn og líkami heltekinn ótta. Fyrst vildi ég ekki einu sinni segja frá þessu. Síðan glímdi ég stanslaust við ákvörðunina um að kæra, óviss um útkomuna og hrædd við afleiðingarnar. Hrædd við biðina. Hrædd við viðbrögð ástvina minna.
Það var ekki fyrr en ég frétti að önnur kona hefði orðið fyrir sömu örlögum – á sama bar, með sömu aðferðum, í sömu íbúð, af sömu mönnum. Þá varð mér loks ljóst hvað þyrfti að gerast. Við ákváðum í sameiningu að láta slag standa, bak í bak. Það var afdráttarlaus ákvörðun. Við vorum ekki lengur einar; við skildum hvor aðra. Saman gátum við varað aðrar konur við og verndað þær gegn þessum rándýrum sem töldu sig geta lifað lífi sínu óáreittir og skemmt sér um helgar.
Hættuleg viðbrögð
Við höfum báðar fundið fyrir miklum stuðningi frá samfélaginu, bæði úr okkar nærumhverfi en einnig á samfélagsmiðlum frá þjóðinni. Það skiptir okkur máli að sjá að almenningi þykir þetta mál alvarlegt og óásættanlegt, og við kunnum þeim sem sýnt hafa samkennd djúpar þakkir.
Þrátt fyrir það viljum við lýsa yfir áhyggjum okkar af því hvernig umræðan á netinu hefur að hluta til þróast. Um leið og fregnir bárust af því að mennirnir töluðu erlent tungumál sín á milli, beindist athyglin hjá sumum frá eðli brotsins og upplifun þolenda að uppruna þeirra. Slík viðbrögð eru ekki aðeins óviðunandi og óhjálpleg, heldur hættuleg. Að nota kynferðisbrot sem tækifæri til að kynda undir fordómum gagnvart útlendingum eða innflytjendum er bæði siðferðislega rangt og dregur athyglina frá kjarna málsins.
„Okkar konur“
Ég velti því fyrir mér hvers vegna ákveðnir hópar íslenskra karlmanna þegja þunnu hljóði þegar menn úr þeirra röðum fremja kynferðisbrot. Hins vegar, þegar þeir frétta af því að gerendur séu erlendir þá eru þeir skyndilega bálreiðir, fullir samúðar og þykir hræðilegt að verið sé að nauðga „okkar konum“. Þessi reiði þeirra snýr ekki að brotinu sjálfu, heldur að það hafi verið framið af „röngum“ gerendum. Þessi hugsunarháttur byggir ekki á þeim grundvelli að íslenskar konur ráði fyrir eigin líkama, heldur að hvítir, íslenskir karlmenn eigi þá. Við eigum helst að vera fráteknar fyrir ykkur, ekki satt? Þetta er ekki bara rasismi heldur kvenhatur, og við höfnum ykkar stuðningi með öllu ef hann á sér þennan uppruna.
„Þessi hugsunarháttur byggir ekki á þeim grundvelli að íslenskar konur ráði fyrir eigin líkama, heldur að hvítir, íslenskir karlmenn eigi þá
Þessi orðræða – sem birtist skýrt í athugasemdum á samfélagsmiðlum – snýst ekki um rétt kvenna til líkamlegrar sjálfsákvörðunar. Hún snýst um að vernda „okkar konur“ frá „þeim“. Hún á sér djúpar rætur í kynþáttafordómum, ótta við kynblöndun og þá hugmynd að yfirráð hvítra karlmanna séu í hættu. Í þessum heimi eru konur ekki einstaklingar með sjálfstæðan rétt til að tjá sig og eiga líkama sinn – heldur eru þær eign. Og sú eign tilheyrir, að þeirra mati, hvítum, íslenskum körlum. Þetta er birtingarmynd rótgróinnar karlrembu og eitraðrar karlmennsku.
Berjast fyrir allar konur
Réttlæti má ekki vera forréttindi fáeinna. Við berjumst ekki eingöngu fyrir okkur sjálfar, heldur fyrir allar konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi – líka þær sem ekki hafa íslensk nöfn og tala ekki íslensku reiprennandi. Af hverju vilja sumir sýna samkennd þegar þolandi er hvít, íslensk kona? Ofbeldi gerir ekki slíkan greinarmun, og réttlæti má ekki gera það heldur.
„Við krefjumst umbóta í réttarkerfinu
Þessi vegferð hefur ekki eingöngu snúist um leit að réttlæti fyrir okkur sjálfar. Hún er skuldbinding við allar þær konur sem hafa verið þaggaðar niður. Við krefjumst þess að lögreglan bregðist öðruvísi við í slíkum málum – að viðurkennd sé sú brýna þörf að bregðast skjótt og af alvöru þegar einhver þorir að kæra. Við krefjumst umbóta í réttarkerfinu. Við krefjumst réttlætis, sanngirni og ábyrgðar. Er það of mikið að biðja um – fyrir dætur okkar, systur, frænkur og mæður? Við krefjumst réttlætis fyrir allar konur sem hafa verið beittar ofbeldi, óháð því hvort þær bera íslensk eða erlend eftirnöfn.
Þarfnast afgerandi aðgerða
Þessi ákvörðun okkar að kæra snýst ekki eingöngu um réttlæti fyrir okkur. Hún er viðvörun. Áminning. Tilkynning. Við krefjumst þess að lögreglan bregðist öðruvísi við í slíkum málum, að hún viðurkenni þá brýnu þörf að bregðast við skjótt og af meiri hörku þegar konur þora að kæra. Við krefjumst einnig að menn sem sakaðir eru um raðhópnauðganir verði látnir sæta gæsluvarðhaldi, að lögreglan viðurkenni að þeir séu ógn við samfélagið.
Á þessari sársaukafullu vegferð hef ég fundið tilgang. Þótt reynsla mín sé hörmuleg og hræðileg, hefur hún kveikt í mér eld sem ekki verður slökktur. Við köllum eftir umbótum og eftir afgerandi breytingum hjá dómsmálaráðuneytinu.
Ég bið íslenskt samfélag að vakna. Ég bið ykkur að standa með okkur – að láta rödd ykkar heyrast. Saman getum við skapað öruggara og réttlátara samfélag – fyrir okkur öll.
Athugasemdir (3)