Ég sat á kaffihúsi úti á Seltjarnarnesi þegar ég frétti að Abdulrazak Gurnah hefði unnið til Nóbelsverðlauna fyrir bókmenntir 2021. Ég varð himinlifandi enda fannst mér sem ég ætti aðeins í honum þar sem ég ólst upp í heimalandi hans, Tansaníu. Ég var enn að lesa umsögn Nóbelsnefndarinnar þegar Guðni Tómasson hringdi í mig og bað mig um að spjalla aðeins við sig um manninn í útvarpið. Ég man ekkert hvað okkur fór á milli, ég á til að aftengja minnisbankann þegar ég er beðin um að tala í útvarp eða sjónvarp, en ég bullaði örugglega eitthvað upprifin af einhvers konar ættleiddu þjóðernisstolti, en á þeim tíma var ég ekki vel kunnug verkum nýja Nóbelsskáldsins og hafði aðeins lesið eftir hann eina bók sem ég keypti í bókabúð í Dar es Salaam nokkrum árum fyrr. Síðan þá hef ég þýtt tvær bækur eftir hann, Paradís (2023) og Malarhjarta (2025), og lesið allar þær sem ég hef komist yfir. Alls hafa komið út eftir hann ellefu skáldsögur auk fjölda ritgerða og smásagna.
Ofbeldisalda skók Zanzibar
Abdulrazak Gurnah fæddist 1948 á eyjunni Zanzibar rétt fyrir utan strendur þess sem nú heitir Tansanía en var í þá daga svokallað verndarsvæði Stóra-Bretlands. Árið 1964 var gerð bylting á eyjunni og í kjölfarið skók mikil ofbeldisalda Zanzibar og rúmlega tuttugu þúsund manns af arabískum og indverskum ættum voru myrtir en margir aðrir flúðu land, þar á meðal Abdulrazak, sem 18 ára gamall fann sér leið til Bretlands þar sem hann hefur búið síðan. Meðfram skrifunum kenndi hann bókmenntir við Kent-háskóla en nýjasta bók hans, Theft (Þjófnaður), er sú fyrsta sem hann skrifar eftir að hann hætti kennslu.
„Abdulrazak Gurnah hefur gert áhrif og afleiðingar nýlendustjórnarinnar að umfjöllunarefni
Gurnah fjallar gjarnan um umrót, uppflosnun og hvernig það er að reyna að fóta sig í lífinu þegar allar forsendur tilverunnar umbreytast á svipstundu. Sögupersónur hans eru oft ungir einstæðingar sem tilheyra ekki þeim stað sem örlögin hafa feykt þeim á og hafa takmarkað vald yfir aðstæðum sínum. Gurnah skoðar hvernig fólk finnur ekki aðeins leiðir til að lifa af heldur hvernig það nær að endurheimta úr erfiðustu aðstæðum eitthvað sem gefur lífinu gildi. Um leið og hann veitir okkur innsýn í menningarheim sem lítið hefur verið fjallað um í bókmenntum hingað til, skrifar hann af svo miklu næmi og innsæi um sambönd og samskipti og hvað felst í því að vera manneskja að við eigum auðvelt með að sjá okkur sjálf í sögupersónunum þótt sögusviðið kunni að vera framandi.
„Lengi vel var frásögninni stjórnað af vestrænum heimsveldum sem afmennskuðu og framandgerðu fólk í þeim heimshlutum sem þau lögðu undir sig en afnýlenduvæðing þess hugsanaháttar fer ekki síst fram með því að gefa gaum höfundum frá fyrrverandi nýlendum
Leggst til atlögu gegn alhæfingum um þjóðir og fólk
Þetta er mikilvægt, sérstaklega núna þegar ljótir fortíðardraugar rísa upp af fasískum haugum sínum. Bókmenntir eru gróðrarstöðvar skilnings og samkenndar, þær gera okkur kleift að sjá heiminn með augum annarra og minna á sameiginlega mennsku okkar. Lengi vel var frásögninni stjórnað af vestrænum heimsveldum sem afmennskuðu og framandgerðu fólk í þeim heimshlutum sem þau lögðu undir sig en afnýlenduvæðing þess hugsanaháttar fer ekki síst fram með því að gefa gaum höfundum frá fyrrverandi nýlendum og jaðarsettum hópum. Abdulrazak Gurnah hefur gert áhrif og afleiðingar nýlendustjórnarinnar að umfjöllunarefni og birtingarmynda þeirra enn þann dag í dag, til að mynda í fjöldatúrismanum sem hóf að ryðja sér til rúms á tíunda áratug síðustu aldar og umbreytti lífinu á Zanzibar, nokkuð sem við hér á Íslandi getum kannski tengt svolítið við. En það sem er jafnmikilvægt er að hann minnir einnig á að Austur-Afríka átti sér ríka sögu og menningu fyrir þann tíma, utan þessarar vestrænu heimsmyndar og söguskoðunar, og hann leggst til atlögu gegn einföldunum og alhæfingum um þjóðir og fólk. Samfélagið sem hann lýsir til dæmis í Paradís, þar sem ógnin úr vestri er enn úti við jaðar heimsins, er alls ekki fyrirmyndarsamfélag, það er margbrotið og fjölþjóðlegt og stundum óvægið. Sömuleiðis eru persónur hans flóknar, margslungnar, breyskar og kunnuglegar. Sagnaheimur Gurnah er kryddaður orðum úr fjölda tungumála, kreddum, sögnum og trúarkenningum úr ýmsum áttum, tilvitnunum í Kóraninn, Shakespeare, Herman Melville og ljóðskáld heimsins. Eftir situr alltaf eitthvað innilega persónulegt, samkennd með þeim sem minna mega sín og trú á þrautsegju, mennskuna og ástina.
Það er mikill fengur að fá Abdulrazak Gurnah á Alþjóðlegu bókmenntahátíðina í Reykjavík og ég hvet fólk til að koma og hlusta á hann í samtali við Kuluk Helms klukkan 11 á fimmtudaginn 24. apríl í Norræna húsinu og föstudaginn 25. apríl í Iðnó kl. 21.30 þar sem mér hlotnast sá heiður að fá að ræða við hann.
Athugasemdir