Á frekar hversdagslegum miðvikudegi í miðri dymbilviku á heimilinu mínu í Bretlandi opnaði ég fréttasíðu BBC. Þar blasti við mér forsíðufrétt að dómstólar þar í landi hafi ákveðið að ég falli ekki lengur undir sama lagaákvæði og aðrar konur innan jafnréttislaga þar í landi.
Með dómnum var kveðið á um að ég geti ekki lengur orðið fyrir kvenhatri á vinnustað og að ég sé ekki lengur talin sem kona í tölfræði í stjórnum fyrirtækja eða opinberra stofnanna. Einmitt það já.
Í myndbandi sem fylgir fréttinni ryðjast konur út úr dómsal fagnandi, og fallast í faðma syngjandi og skálandi í kampavín. Samfélagsmiðlar fyllast af fólki að fagna því að ég sé ekki lengur kona, og að ég eigi ekki lengur rétt á því að nota kvennaklefa, kvennaklósett eða kvennarými – og helst bara engin almenn rými yfir höfuð, svona fyrst við erum byrjuð.
Aðför að mannréttindum birtist nefnilega ekki bara í hroðaverkum eins og útrýmingarbúðum, sprengjuárásum eða alvarlegum ofbeldisglæpum. Hún birtist líka í hinu hversdagslega, og í fagnaðarlátum þeirra sem vilja ekki að fólk eins og ég standi þeim jafnfætis.
Hún birtist líka í ákvörðunum dómstóla og stjórnvalda sem ákveða að ég eigi ekki rétt á sömu vernd, virðingu og frelsi og annað fólk. Hún birtist í fyrirsögnum dagblaða í kjölfarið sem grafa undan því hver ég er.
Það furðulegasta við þessa ákvörðun er auðvitað sú staðreynd að ég breyttist ekkert eftir hann. Ég er ennþá nákvæmlega sama manneskja og ég var. Ég er ennþá kona, og er viðurkennd sem slík af allri minni fjölskyldu, vinum, maka og nærsamfélagi. Öll mín skilríki og opinberar upplýsingar staðfesta það líka. Ég fer í sund, fer í ræktina, nýti mér sömu þjónustu, og er enn – kalt mat – uppáhalds frænka litlu frænda minna.
En um hvað er þessi dómur þá?
Þrátt fyrir yfirlýsingar sumra fjölmiðla og hópa þá skilgreindi dómurinn ekki kyn í víðum skilningi, eða hvað það er að vera kona. Hann á við um tiltekið lagaákvæði, og hvort að trans konur falli þar undir eður ei. Það er allt og sumt.
Þessi dómur snýst því í rauninni ekkert um hvort ég er sú sem ég er – heldur hvernig breskir dómstólar vilja að komið sé fram við fólk eins og mig á vinnumarkaði og þjónustu. Trans fólk hlýtur nefnilega ennþá verndar samkvæmt sömu jafnréttislögum, og getur ennþá breytt öllum skilríkjum til að endurspegla kyn sitt.
Það mætti því segja að dómurinn hafi lítið gert til að skýra frekar núgildandi réttindastöðu trans fólks – og búið til enn flóknari lögfræðilega martröð og gefið haturshópum, upplýsingaóreiðu og fordómum byr undir báða vængi.
Niðurstaða dómsins kemur mér því miður ekki á óvart, enda hefur meðferð Bretlands á hinsegin fólki aldrei verið góð. Sem dæmi má nefna að hinsegin fólk með HIV fékk nær engan stuðning frá stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum á tímum alnæmisfaraldursins, og bannað var að tala um hinsegin málefni í skólum til ársins 2004.
Nú eftir nær heilan áratug af stanslausum árásum fjölmiðla, haturshópa og stjórnmálamanna hefur aðgengi trans fólks að heilbrigðisþjónustu verið skert, og hatursglæpir – þar með talið morð – aukist gríðarlega. Þessi dómur vekur því upp óneitanlega óvissu um réttarstöðu sem trans fólk hefur búið við í Bretlandi í rúma tvo áratugi.
Miðað við yfirlýsingar stjórnmálamanna, þrýstihópa og jafnvel fjölmiðla er nokkuð ljóst að dómurinn verður notaður sem þrýstitæki til að grafa undan öryggi og aðgengi trans fólks að kynjuðum rýmum og þjónustu enn frekar – og er það alveg ljóst að það er full ástæða til að óttast framhaldið.
En hvað með Ísland?
Ég flutti nýlega aftur til Íslands og vekur þessi dómur því upp margar mismunandi tilfinningar. Á Íslandi bý ég við góða lagalega viðurkenningu og vernd – og veit að öryggi mitt er betur tryggt hér. En bakslagið hefur einnig gert vart við sig á Íslandi.
Stjórnmálamenn á Íslandi hafa á undanförnum árum talað gegn framförum í réttindabaráttu hinsegin fólks, og jafnvel nýtt sér fordóma og áróður í kosningabaráttu. Nýlega reyndi alþingismaður að grafa undan réttmæti og mikilvægi kynjafræði í pontu á Alþingi – en kynjafræði var einmitt bönnuð í skólum í Ungverjalandi fyrir nokkrum árum, og hafa stjórnvöld þar nýlega bannað Pride göngur í höfuðborg landsins í kjölfarið.
Fyrr í vikunni var umfjöllum um hrottalega líkamsárás á Íslandi, þar sem unglingsdrengir gengu í skrokk á trans konu fyrir utan World Class í Laugardal. Hún var skilin eftir með glóðaraugu, brákað nef, brotna tönn, sprungna vör og eymsli í baki en sálrænu áhrifin af slíkri árás eru ekki minni, og lýsir hún því að þora ekki lengur úr húsi út af ótta.
Það er því alveg ljóst hvert stefnir ef við grípum ekki inn í strax. Spurning mín til okkar sem samfélags þessa páska er því einföld:
Hvenær ætlum við að grípa inn í og stöðva þessa þróun? Vegna þess að það er á ábyrgð okkar allra.
Hvað sem öðru líður mun trans fólk svo sannarlega halda áfram að vera til eins og það hefur alltaf gert – og engin lagabókstafur, fjölmiðill, upplýsingaóreiða, alþingismaður eða hatursfullur einstaklingur á internetinu sem sárlega skortir áhugamál og/eða sálfræðimeðferð, getur breytt því.
Því hér er ekki bara um að ræða réttindi trans fólks, heldur grundvallargildi okkar samfélags þegar kemur að borgaralegum réttindum, öryggi og frelsi.
Við eigum öll rétt á því að lifa okkar lífi í samræmi við eigin sannfæringu – trans eður ei.
Athugasemdir