Sendu skip til Grænlands

Hinn 10. apríl 1940, dag­inn eft­ir að Þjóð­verj­ar her­námu Dan­mörku, sendi banda­ríska strand­gæsl­an skip til Græn­lands. Um borð voru James K. Pen­field, ný­út­nefnd­ur ræð­is­mað­ur, og full­trúi Rauða kross­ins. Síð­ar það sama ár hreyfði var­aut­an­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna hug­mynd­inni um banda­rísk­ar her­stöðv­ar í land­inu. Áhugi Banda­ríkja­manna á Græn­landi er sem sé ekki nýr af nál­inni.

Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku í apríl 1940 var Henrik Kauffmann (1888–1963) sendifulltrúi Danmerkur í Bandaríkjunum. Hann var lögfræðingur að mennt og hafði verið sendiráðsritari í New York, Beijing, Berlín, Róm og Ósló áður en hann var skipaður sendifulltrúi í Washington.

Í kjölfar hernáms Þjóðverja tilkynnti Henrik Kauffmann að framvegis myndi hann ekki hlýða skipunum frá dönsku ríkisstjórninni sem vann með þýska hernámsliðinu. 

Hinn 9. apríl 1941 undirrituðu Henrik Kauffmann og fulltrúar bandarískra stjórnvalda varnarsamkomulag, „Forsvarsaftale for Grønland“, sem Danir kalla iðulega Kauffmannsamninginn. Í samkomulaginu fólst meðal annars að Bandaríkin fengju leyfi til að leggja herflugvelli og byggja hafnir á Grænlandi, ásamt herstöðvum. Þennan samning gerði Henrik Kauffmann, með samþykki konungs, en án samþykkis dönsku ríkisstjórnarinnar. Hann var settur af og ákærður fyrir landráð. Honum var skipað að snúa heim til Danmerkur en hann hlýddi ekki þeirri fyrirskipun og var áfram í Washington, með samþykki bandarískra stjórnvalda.

Danska stjórnin tilkynnti Bandaríkjastjórn að Kauffmann starfaði ekki í hennar umboði og hefði til þess engar heimildir. Í svari bandaríska utanríkisráðherrans 14. apríl 1941 sagði að Bandaríkin viðurkenndu Kauffmann sem fulltrúa Danmerkur.

Sagnfræðingar hafa síðar bent á að Bandaríkjastjórn hafi séð sér hag í að taka þessa afstöðu, Kauffmann gæti nýst henni vel.

Þremur dögum eftir að Kauffmann hafði undirritað varnarsamkomulagið 1941 hafði hann samband við umboðsmenn (landsfogede) dönsku stjórnarinnar á Grænlandi (þeir voru tveir) og sagði þeim að hann liti á sig sem fulltrúa Grænlands varðandi samskipti við erlendar þjóðir. Umboðsmennirnir voru ekki sáttir við þetta en fengu lítt að gert. Kauffmann kom á laggirnar sérstakri Grænlandsnefnd en verkefni hennar var að tryggja flutning á nauðsynjum til Grænlands og sömuleiðis útflutning frá landinu.

Millibilsstjórnin

Við uppgjöf Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni var skipuð millibilsstjórn (befrielsesregering) í Danmörku. Stjórnin var skipuð fulltrúum stjórnmálaflokkanna og andspyrnuhreyfingarinnar, forsætisráðherra var Vilhelm Buhl. Í stjórninni sátu 18 ráðherrar, 4 þeirra án ráðuneytis, einn þeirra var Henrik Kauffmann. Stjórnin sat frá 5. maí 1945 til 11. nóvember sama ár.

Meðal verkefna stjórnarinnar var að koma í veg fyrir að gripið yrði til handahófskenndra refsinga gegn þeim Dönum sem unnið höfðu með Þjóðverjum, átt við þá viðskipti eða stutt hernámsliðið. Það má geta þess að sama dag og stjórnin tók til starfa var Guðmundur Kamban rithöfundur skotinn til bana í Kaupmannahöfn.

Henrik Kauffmann var fulltrúi dönsku ríkisstjórnarinnar á San Francisco-ráðstefnunni svonefndu í júní 1945, þar voru lögð drög að stofnun Sameinuðu þjóðanna. Hann var jafnframt skipaður sendifulltrúi Danmerkur og sendiherra Danmerkur frá 1947 og gegndi þeirri stöðu þangað til hann fór á eftirlaun árið 1958.

Krýólít-náman

Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils kom James K. Penfield (1908–2004), nýskipaður ræðismaður Bandaríkjanna, til Grænlands í maí 1940. Tilgangurinn með skipan hans og komunni til Grænlands var að tryggja áhrif Bandaríkjanna á Grænlandi og koma í veg fyrir að Bretar og Kanadamenn næðu þar ítökum. En tilgangur með skipan ræðismannsins var ekki síður að tryggja aðgang Bandaríkjamanna að krýíólít-námu í Ivittuut á Suðvestur-Grænlandi.

Krýólít (málmsteinn) er mikilvægt hráefni í gerð áls og náman í Ivittuut þess vegna mikilvæg. Mikið magn krýólíts var á styrjaldarárunum flutt til Bandaríkjanna þar sem það var notað við framleiðslu herflugvéla. Ræðismaðurinn Penfield skipulagði strax eftir komuna til Grænlands áætlun um varnir námunnar í Ivittuut, með hervaldi. Penfield hélt síðan til Nuuk til að koma þar á fót ræðismannsskrifstofu.

Kanadamenn höfðu líka mikinn áhuga á krýíólítinu og opnuðu ræðismannsskrifstofu í Nuuk árið 1940. Bandaríkjamenn hófu byggingu herstöðvar í Ivittuut árið 1941, hún fékk nafnið Kangilinnguit og hlutverk hennar var að vernda krýólít-námuna. Danir tóku síðar við stöðinni en krýólít-námunni var lokað 1987.

Voru fljótir til

Þegar eftir undirskrift varnarsamkomulagsins í apríl 1941 hófu Bandaríkjamenn undirbúning við að koma upp herstöðvum á Grænlandi. Þremur mánuðum síðar, 6. júlí, komu allmörg flutningaskip hersins með alls kyns búnað til Narsarsuaq á Suður-Grænlandi og strax um haustið var þar kominn flugvöllur með tilheyrandi byggingum, þar á meðal sjúkrahúsi. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn Bluie West One (BW1), en Bluie West heitið notuðu þeir um flug-, her- og flotastöðvar á vesturströnd Grænlands. Númeraröðin var hlaupandi og næsta stöð fékk heitið BW2 og svo framvegis. Stöðvar á austurströndinni nefndust Bluie East og voru númeraðar á sama hátt.

Flugvöllurinn í Narsarsuaq var tekinn í notkun í ársbyrjun 1942 og varð mikilvægur viðkomustaður bandarískra herflugvéla á leið þeirra til Evrópu. Stórum eldsneytistönkum var komið fyrir við flugvöllinn og Narsarsuaq er enn í dag viðkomustaður smærri flugvéla, á leið yfir hafið. Það er til marks um umsvifin í kringum flugvöllinn og herstöðina, ekki síst sjúkrahúsið, að bandarískir starfsmenn voru um 4 þúsund talsins þegar mest var. Á árunum 1941–1943 komu Bandaríkjamenn upp 9 herstöðvum (sumar þeirra veðurathugunarstöðvar) á vesturströnd Grænlands. Á austurströndinni urðu Bluie East stöðvarnar samtals 5.

Kauptilboð og varnarsamningur

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld urðu miklar umræður um hlutverk Bandaríkjanna á Grænlandi meðal danskra þing- og embættismanna. Varnarsamningurinn frá 1941 hafði gefið Bandaríkjamönnum leyfi til að setja upp herstöðvar á Grænlandi án þess að bera það undir og leita samþykkis Dana. Þetta þótti mörgum veita Bandaríkjamönnum allt of frjálsar hendur í landinu.

Árið 1946 gerðu Bandaríkjamenn Dönum tilboð um að kaupa Grænland. Því tilboði var umsvifalaust hafnað. Í framhaldi var hafin vinna við nýjan varnarsamning, ætlunin með honum var að auka áhrif Dana varðandi varnir Grænlands. Danir voru meðal stofnenda Atlantshafsbandalagsins, NATO, árið 1949 og tveimur árum síðar, 27. apríl, var nýr varnarsamningur milli Danmerkur og Bandaríkjanna undirritaður. Danska þingið, Rigsdagen eins og það hét þá, samþykkti samninginn 8. júní 1951. Í samningnum var kveðið á um nánari samvinnu Dana og Bandaríkjamanna í varnar- og öryggismálum.

Thule-herstöðin

Tveimur dögum áður en „nýi“ varnarsamingurinn tók gildi lögðu rúmlega 100 fullhlaðin flutningaskip af stað frá Bandaríkjunum. Ferðinni var heitið til Thule á norðvesturströnd Grænlands. Thule var gamall verslunarstaður og þar bjuggu um 120 manns sem lifðu fyrst og fremst af veiðum. Í síðari heimsstyrjöldinni kom bandaríski herinn þarna upp veðurathugunarstöð. Þarna höfðu bandarísk stjórnvöld, í samvinnu við Dani, ákveðið að setja niður herstöð sem fékk síðar heitið Thule Air Base.

Ekki var opinberlega greint frá þessari framkvæmd, sem kölluð var Operation Blue Jay, fyrr en haustið 1952. Framkvæmdum var að mestu lokið 1953, þá höfðu verið reist hús sem gátu hýst 12 þúsund manns, stórir eldsneytisgeymar og flugvöllur. Íbúarnir sem búið höfðu á svæðinu voru neyddir til að flytja á annað svæði um það bil 130 kílómetrum norðar. Þeir fengu aðeins 4 daga til að undirbúa flutninginn.

Þessar aðfarir, eins og danskir fjölmiðlar hafa komist að orði, hafa á síðari árum verið harðlega gagnrýndar. Málaferli vegna þessara flutninga stóðu árum saman, með hléum. Árið 1999 dæmdi Eystri-Landsréttur í Danmörku Thulebúunum og afkomendum þeirra bætur, sem voru aðeins brot af því sem farið var fram á. Hæstiréttur Danmerkur staðfesti dóminn árið 2003.

Kjarnorkuvopn

Árið 1956 ákváðu Bandaríkjamenn að koma fyrir eldflaugum (Nike -Hercules) til loftvarna í Thule-herstöðinni. Í nóvember árið 1957 spurði sendiherra Bandaríkjanna danska forsætis- og utanríkisráðherrann H. C. Hansen hvort danska ríkisstjórnin óski eftir að verða tilkynnt ef komið verði fyrir kjarnorkuvopnum í Thule. Forsætisráðherrann svaraði, í bréfi sem ekki var gert opinbert fyrr en árið 1995, að Danir óski ekki eftir að verða spurðir. Þetta svar jafngilti leyfi til að koma fyrir kjarnorkuvopnum í herstöðinni.

Síðar hefur komið fram að á árunum 1959–1965 voru að minnsta kosti 48 kjarnorkuhleðslur geymdar í Thule-stöðinni. Í lok maí árið 1968 var kveðið á um, í sérstakri viðbót við varnarsamninginn frá 1951, að ekki mættu vera kjarnorkuvopn á dönsku landsvæði. Í janúar sama ár hafði bandarísk herflugvél af gerðinni B-52 brotlent við Thule-herstöðina með þeim afleiðingum að plútóníum úr fjórum vetnissprengjum dreifðist um stórt svæði.

Thule Air Base varð Pituffik Space Base

Upphaflega var Thule Air Base eldsneytisbirgðastöð fyrir bandaríska herinn, og þar voru um tíma 10 þúsund hermenn. Árið 1960 var starfsemi Thule-herstöðvarinnar breytt og hún hefur síðan fyrst og fremst verið ratsjárstöð. Nokkrir stórir ratsjárskermar voru þá settir upp á svæðinu, sá stærsti álíka stór og fótboltavöllur sem lagður hefði verið á hliðina eins og einn danskur fjölmiðill orðaði það.

Nafni herstöðvarinnar var breytt árið 2023 og hún heitir nú Pituffik Space Base og tengist svonefndum geimher Bandaríkjanna. Pituffik er grænlenska heitið á svæðinu þar sem herstöðin var reist.

Í Pituffik Space Base-stöðinni eru nú um það bil 150 bandarískir hermenn en auk þess eru þar danskir og grænlenskir starfsmenn.

Pituffik er í dag eina herstöð Bandaríkjamanna á Grænlandi.

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

„Ég berst fyrir réttinum til að lifa“
1
Viðtal

„Ég berst fyr­ir rétt­in­um til að lifa“

Á upp­vaxt­ar­ár­un­um í suð­ur­ríkj­um Banda­ríkj­anna voru rík­ar kröf­ur gerð­ar til þess hvernig hún ætti að haga sér og sínu lífi. Þeg­ar hún fann loks frels­ið til þess að vera hún sjálf blómstr­aði hún, í ham­ingju­sömu hjóna­bandi, heima­vinn­andi hús­móð­ir, sem naut þess að sinna syni sín­um. „Ég gat lif­að og ver­ið frjáls. Það var frá­bært á með­an það ent­ist.“
Sendu skip til Grænlands
3
Erlent

Sendu skip til Græn­lands

Hinn 10. apríl 1940, dag­inn eft­ir að Þjóð­verj­ar her­námu Dan­mörku, sendi banda­ríska strand­gæsl­an skip til Græn­lands. Um borð voru James K. Pen­field, ný­út­nefnd­ur ræð­is­mað­ur, og full­trúi Rauða kross­ins. Síð­ar það sama ár hreyfði var­aut­an­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna hug­mynd­inni um banda­rísk­ar her­stöðv­ar í land­inu. Áhugi Banda­ríkja­manna á Græn­landi er sem sé ekki nýr af nál­inni.
Lagði ekki upp með ótímabundið hvalveiðileyfi eins og varð raunin
4
Fréttir

Lagði ekki upp með ótíma­bund­ið hval­veiði­leyfi eins og varð raun­in

Bjarni Bene­dikts­son not­aði sína síð­ustu daga í embætti til að veita Hval hf. ein­stakt leyfi til veiða á lang­reyð­um. Leyf­ið renn­ur aldrei út. Í fyrstu taldi hann sig van­hæf­an til að taka ákvörð­un en skipti svo um skoð­un hálf­um mán­uði síð­ar. At­burða­rás­in kem­ur heim og sam­an við lýs­ing­ar á leyniupp­töku af syni og við­skipta­fé­laga Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns á hvað stæði til gera.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
2
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“
Indriði Þorláksson
5
Aðsent

Indriði Þorláksson

Veiði­gjöld­in og lands­byggð­in

Eng­in vit­ræn rök eru fyr­ir því að hækk­un veiði­gjalds­ins leiði til þess­ara ham­fara, skrif­ar Indriði Þor­láks­son um mál­flutn­ing Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi vegna fyr­ir­hug­aðr­ar breyt­ing­ar á út­reikn­ingi veiði­gjalda. „Að sumu leyti minn­ir þessi púka­blíst­ur­her­ferð á ástand­ið vest­an­hafs þar sem fals­upp­lýs­ing­um er dreift til að kæfa vit­ræna um­ræðu,“ skrif­ar hann.
„Ég berst fyrir réttinum til að lifa“
6
Viðtal

„Ég berst fyr­ir rétt­in­um til að lifa“

Á upp­vaxt­ar­ár­un­um í suð­ur­ríkj­um Banda­ríkj­anna voru rík­ar kröf­ur gerð­ar til þess hvernig hún ætti að haga sér og sínu lífi. Þeg­ar hún fann loks frels­ið til þess að vera hún sjálf blómstr­aði hún, í ham­ingju­sömu hjóna­bandi, heima­vinn­andi hús­móð­ir, sem naut þess að sinna syni sín­um. „Ég gat lif­að og ver­ið frjáls. Það var frá­bært á með­an það ent­ist.“

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár