Á undanförnum árum hefur hugtakið vakning (e. wokeism) náð fótfestu í vestrænum samfélögum og í orðræðunni. Upphaflega var hugtakið ætlað til að auka meðvitund fólks um félagslegt óréttlæti og hvetja til breytinga á ríkjandi valdakerfum. Á fræðilegu máli má segja að hugtakið „woke“ hafi að mörgu leyti fléttast saman við póstmódernísk og póststrúktralísk þekkinga- og verufræðileg sjónarhorn sem kenna sig við afbyggingu.
Markmið afbyggingar er að við endurhugsum normið sem hefur verið „hvítt“*, ófatlað og karllægt áratugum saman og reynum frekar að líta á normið sem félagslega mótað fyrirbæri sem hefur verið skapað í gegnum þekkingarvald. Þannig hefur þessi „woke“-linsa verið gríðarlega mikilvæg fyrir fræðafólk til að afhjúpa normalíseruð valdakerfi sem í gegnum mannkynssöguna hafa birtst okkur sem náttúrulögmál: nýlendustefna, feðraveldið, kapítalismi og Evrópumiðun (e. eurocentrism) svo dæmi séu nefnd.
Hins vegar hefur slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek bent á að „wokeisminn“ í nútímasamfélagi kapítalismans sé frekar orðinn neysluvara á markaði. Þannig verður hann oft á tíðum táknrænn frekar en að hann stuðli alltaf að róttækum eða raunverulegum breytingum á þeim valdakerfum sem hann átti upphaflega að gagnrýna. Í þessu samhengi getur markaðsvæðingin falist í því að fyrirtæki og vörumerki nýti sér „wokeið“ til að selja vörur sínar, fá jákvæða fjölmiðlaumfjöllun eða ná til ákveðinna markhópa. Dæmi um þetta er þegar stórfyrirtæki taka opinberlega afstöðu með hinseginréttindum í Pride-mánuði, en halda samt áfram að styðja stjórnmálamenn eða stefnur sem vinna gegn þeim sömu réttindum.
Kapítalisminn kynþáttaður
Annað dæmi er ofuráhersla „wokeismanns“ á sjálfsmyndarpólítík (e. identity politics) sem tekur ekki nógu mikið tillit til stéttarvitundar og stéttarbaráttu í kapítalísku umhverfi. Nike er dæmi um stórfyrirtæki sem hefur tileinkað sér „wokeismann“ en heldur á sama tíma áfram að styðja og viðhalda þeim valdakerfum sem ala á misrétti. Þó fyrirtækið hafi gert áberandi auglýsingaherferðir sem fagna fjölbreytileika og taka skýra afstöðu með minnihlutahópum og kynþáttamisrétti, er raunveruleikinn sá að Nike hefur ekki gert stórvægilegar breytingar á starfsemi sinni.
Fjöldi rannsókna, svo sem Sweatshop Labor and Corporate Accountability: The Nike Case eftir Matthew Miller afhjúpa hvernig fyrirtækið heldur áfram að nýta sér ódýrt vinnuafl í verksmiðjum í hnattræna suðrinu (e. the Global South) þar sem vinnuskilyrði eru erfið, laun eru langt frá því að standa undir ásættanlegum lífskjörum, dagarnir eru óhóflega langir og réttindi starfsmanna mjög takmörkuð.
Nike hefur reglulega þurft að svara fyrir ásakanir um barnaþrælkun, án þess þó að innleiða kerfisbreytingar sem myndu raunverulega bæta mannréttindi starfsmanna sinna víða í hnattræna suðrinu. Þetta afhjúpar hvernig „wokeisminn“ getur orðið að neysluvöru.
Langar þig ekki frekar að versla vöru sem styður „fjölbreytileikann og jafnrétti“ en fyrirtæki sem er bara með „hvíta“ karla í auglýsingum sínum? Þannig getur Nike gefið sig út fyrir að styðja við fjölbreytileika og jafnrétti án þess að takast raunverulega á við kynþáttabundið og stéttbundið misrétti í alþjóðlegu efnahagskerfi. Alvöru jafnrétti getur aldrei náðst þegar að ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins er nýfrjálshyggja sem viðheldur öðrum kerfunum – lifir á þeim.
Jafnvægið
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því sem margir hugsuðir í hnattræna suðrinu hafa verið að benda á áratugum saman; að stéttarvitund á Vesturlöndum er oft á tíðum með of „hvítan“ og Evrópumiðaðan reynsluheim, og er ekki nógu meðvituð um að kapítalisminn sé alltaf kynþáttaður (e. racialized) með einum eða öðrum hætti. Þessi tveir pólar verða að finna jafnvægi, því annars tvístrast baráttan og við missum sjónar á stéttarvitund og sameiginlegum hagsmunum þeirra sem eru beittir misrétti, sérstaklega þegar hið ríkjandi valdakerfi kapítalismans lifir á áframhaldandi ójöfnuð, arðráni, ódýru vinnuafli og nýlendustefnu.
Það er ekki tilviljun að símarnir okkar eru framleiddir úr kóbaltmálmi frá Kongó þar sem „svart” fólk er í þrælavinnu, það er heldur ekki tilviljun að það sé flókið mál í okkar heimshluta að kalla málefni Palestínu landránsnýlendustefnu og þjóðarmorð. Það er heldur ekki tilviljun að orðið landránsnýlendustefna sé okkur fjarlægt og ókunnugt hugtak. Það er því mikilvægt að stéttarbarátta hafni ekki algjörlega „wokeismanum“ eða póststrúktúralískri gagnrýni, því þessi linsa er mikilvægt greiningartæki – sérstaklega þegar það kemur að því að greina kynþáttað eðli kapítalísmanns og nýlendustefnu í samtímanum, og í gegnum mannkynssöguna.
Á sama tíma verður „wokeimsinn“ og póststrúktúralísk gagnrýni að halda stéttabaráttu í forgrunni, því annars endar „wokeisminn“ á þeirri vegferð sem hann er löngu kominn á; verður hluti af ríkjandi valdakerfi sem reynir alltaf að réttlæta sína eigin tilvist, og hvernig er betra fyrir valdakerfi að réttlæta sig en að taka þátt í „wokeinu”, hver ætlar að mótmæla jafnrétti án þess að vera kallaður Trumpisti?
Ef þessi tvö sjónarhorn finna ekki jafnvægi fáum við annað hvort of „hvíta“ stéttabaráttu sem missir sjónar á því hvernig kapítalískt kerfi er alltaf kynþáttað eins og áður hefur verið nefnt. Þá er líka auðveldlega hægt að vera meðvirkur og missa sjónina á nýlendustefnu og antí-kólóníalískri baráttu sem vinstri stjórnmál hafa verið að gera á Vesturlöndum undan farið. Eða þá að við fáum algjöran „wokeisma“ sem er orðin alltof meðvirkur og samfléttaður við ríkjandi valdakerfi markaðs- og neysluhyggju sem birtist okkur sem jafnrétti aðeins í þeim tilgangi að viðhalda sér.
Tómhyggjan
Vinsældir Kamölu Harris eru gott dæmi um það sem ég nefni hér fyrir ofan. Hún er einhver sem átti að brjóta blað í sögunni, og ekki aðeins vera fyrsta konan til að gegna forsetaembætti Bandaríkjanna, heldur átti hún að vera fyrsta „svarta“ konan til þess a gera það. Umræðan um hana skyggði á kerfislægt eðli kapítalismanns, þá sérstaklega heimsvaldastefnuna.
Við sem samfélag erum komin út í einhvers konar tómhyggju þegar Kamala Harris, sem er meðal annars samsek í þjóðarmorðinu á Gaza, talinn vera skárri kosturinn af tveimur slæmum - „lesser evil“ -, því út frá forsendum „wokeismanns“ væri sigur „svartar“ konu í valdamesta embætti heims marks um framfarir og jafnrétti. Núna væru það ekki lengur bara „hvítir“ karlar gætu farið með að vald. Vandmálið við þetta sjónarhorn er samþykki á hugmyndafræðinni og valdakerfinu sjálfu, að okkur finnist það eðlilegt að núna mega konur líka vera imperíalístar og stríðsglæpa....konur?
Hversu lengi ætlum við sem samfélag að samþykkja „lesser evil“ narratívuna þangað til við áttum okkur á því að þessi forsenda er óeðlileg til að byrja með, og frekar til marks um tómhyggju en framfarir? Það sem stuðningur við Harris afhjúpaði líka er það hversu ótrúlega „hvít“ og vestræn ríkjandi linsa femínsima getur verið í okkar heimshluta. Hennar framboð og sviðsljós var oft mikilvægara en t.d., reynsluheimur kvenna og barna í þjóðarmorði Ísraelsríkis í Palestínu. Hún átti að vera birtingarmynd framfara ef hún hefði unnið, og mun erfiðara er að skora á valdakerfi sem leyfir „svartri“ konu að fara með svona stórt hlutverk en þegar „hvítir“ karlar gegna því. Þannig getur femínísk linsa í okkar heimshluta líka oft á tíðum verið meðvirk með valdakerfi eins og heimsvaldarbrölti Bandaríkjanna og annarra „vinaþjóða“ sem á útilokar reynslu „annarra“ (oftast litaðra og svartra) kvenna í fátækari löndum og jaðarsettum samfélögum.
Guð er dauður
Samfélag sem ég lýsi hér fyrir ofan er samfélag tómhyggjunnar, samfélag án gilda, samfélag í upplausn, samfélag heltekið af hugmyndafræði markaðs- og neysluhyggju sem hefur að mörgu leyti boðið „wokeismanum“ sæti á borðið til að viðhalda sér. Samfélag þar sem að mannlegi þátturinn eins og tilfinningar og mannleg tengsl eru fyrir bí, samfélag með ótakmarkaðri skjánotkun sem býður okkur uppá þjóðarmorð og nýlendustefnu í beinni og samfélag, samfélag þar sem finnst það vera „vesen“ að sniðganga Eurovision, og samfélag þar sem að við „höfum ekki tíma“ til að hitta vini okkar nema við „bókum“ hitting tvo mánuði fram í tímann.
Við kannski drápum Guð sem samfélag í guðfræðilegum skilningi, en við hættum aldrei að leita að tilgangi. Í staðinn hefur okkur birtst nýr Guð; trú á frjálsan markað. Samfélagið og okkar nýi Guð er samfélag tómhyggjunnar sem ég lýsi í þessum pistli, samfélag einstaklingshyggju, vanlíðanar, skjánotkunar, græðgi, arðráns, kynþáttunar, feðraveldisins, stéttarskiptingar. Samfélag þar sem okkar nýi Guð selur þér upplifun og gerviþarfir til að viðhalda sér, á meðan tómarúmið þrífst og við sundrumst í allskonar fylkingar.
Geðlæknirinn Dr. Gabor Maté greinir frá því í verkum sínum The Myth of Normal og When the Body Says No að líkamar okkar séu að hafna nútímasamfélagi markaðs- og efnishyggju meðal annars í formi geðraskana og vanlíðanar, sem Maté líkir við heimsfaraldur. Svo langt erum við komin frá grunnþörfum Maslow-píramídans.
Ætlum við að deyja fyrir hugmyndafræðina eða ætlum við sem samfélag að líta inn á við og hlusta?
* Orðin svartur og hvítur eru höfð innan gæsalappa þar sem þetta eru flæðandi en ekki staðbundin hugtök
Athugasemdir (2)