Mið vinnuvika, einhver er að spyrja mig að einhverju, ég lít sljó upp úr símanum, engin viðbrögð, ljósin kveikt en enginn heima, ímynda mér að ef þetta væri spítalaatriði í bíómynd myndi hjartaritslínan mín fletjast út og það myndi heyrast hátt „bííííp“.
Það þarf að endurræsa kerfið, segja; ha? Hafði óvart slökkt á heilanum. Sjálfstýringin eitthvað að bila. Kannski búin að vera í gangi of lengi … Ég veit ekki hvað þessi útgáfa af lífi kallast, tímabundinn heiladauði kannski? Franska orðatiltækið metro, boulot, dodo, eða metro, vinna, sofa, nær ekki almennilega utan um þetta, kannski frekar vinna, sofa, sími og kannski netflix, á „repeat“. Ákveðin tegund af hversdegi sem tekur yfir þegar þreyta og slen sigrar sjálfið, heilinn fer í frí og sjálfstýringin tæklar vinnuvikuna.
„Er ég bara vélmenni, gangandi beina fyrir kapítalismann með hausinn galtóman?
Þegar ég ranka við mér í þessum hversdagslega heiladauða fer ég óhjákvæmilega í melódramatískar stellingar og hugleiði tilgang lífsins. Kann ég ekki að vera til? Er ég bara vélmenni, gangandi beina fyrir kapítalismann með hausinn galtóman? Ekki einu sinni virkur þátttakandi í eigin lífi? Mögulega, en ef maður þarf að vinna til að lifa og vera þreyttur því maður er alltaf að vinna, og hvíla sig og gera ekkert því maður er alltaf svo þreyttur, hvenær á maður þá að lifa? Um helgar og í sumarfríinu? Kaupi það ekki.
En hvað þá? Sjálfshjálparbækurnar mæla með betri vönum, læknarnir ráðleggja hreyfingu og heilsusamlegt mataræði, gúrúarnir boða hugleiðslu, trúarleiðtogarnir hvetja til bæna, skátaforingjar leggja til útivist og svo framvegis og framvegis. Og þau hafa örugglega rétt fyrir sér, en ég er of þreytt og eins og ég segi hef ég engan tíma, svo það sem ég geri alltaf til að endurforrita hversdaginn minn er að setja Groundhog day í gang, setja mig í spor Bill Murray og reyna að láta boðskapinn síast inn í heilann, aftur, vona að það virki í þetta skiptið.
Athugasemdir (2)