Sagt er að vika sé langur tími í pólitík. Fyrir viku sendi ég pistil á ritstjórn Heimildarinnar. Pistillinn fjallaði um snjallsímanotkun barna í skólum og í honum nefndi ég í framhjáhlaupi Ásthildi Lóu Þórsdóttur sem ég titlaði barna- og menntamálaráðherra. Blaðið hafði ekki fyrr farið í prentun en Ásthildur Lóa kvaðst ætla að segja af sér ráðherraembætti af ástæðum sem hafa vart farið fram hjá mörgum.
Flest fórum við inn í síðustu helgi pínu glaðhlakkaleg yfir ásökunum um að barnamálaráðherra hefði „eignast barn með barni“ eins og margir komust að orði. Það yrði fjör á barnum í kvöld og í pálínuboðinu hjá ömmu á morgun. Tilbreytingarlítil jarðvist okkar, full af endurtekningum og brostnum draumum, varð eitt andartak litum glædd. Réttlát reiði bolaði burt tilgangsleysinu sem við fundum farveg á Facebook þar sem háð var Íslandsmót í að taka djúpt í árinni. Siðferðisvitund okkar óx ásmegin. Við vorum kannski sek um að streyma fótbolta ólöglega af netinu um helgar og hringja okkur inn veik í vinnuna að tilefnislausu á mánudegi, en við vorum að minnsta kosti ekki tálkvendi í költi á níunda áratug síðustu aldar. Móðir Teresa hefði vart við okkur roð. Hallelúja, amen og skál.
Þegar í ljós kom að staðreyndir málsins voru meira á reiki en látið hafði verið í veðri vaka upphófst hatrammt kapphlaup um hver næði fyrstur efsta tindi siðferðisstallsins. Þeir sem báru blak af ráðherranum fyrrverandi voru sakaðir um gerendameðvirkni. Þeir sem enn hnýttu í Ásthildi Lóu voru sakaðir um að vera handbendi Sjálfstæðisflokksins. Fjölmiðlafólk sem flutti fréttir af atburðarásinni var sakað um annarlegar hvatir og þeir sem gagnrýndu ónákvæman fréttaflutning voru úthrópaðir Trumpískir þöggunarsinnar.
„Fordæmingarfyllirí síðustu helgar ber þess skýrt vitni að þörf er á nýrri byltingu, einhvers konar hæglætis hugsun
En þegar ballið stóð sem hæst voru ljósin skyndilega kveikt. „Fyrstu fréttir af þessu máli voru fullar af rangfærslum sem voru til þess fallnar að mála mömmu mína upp sem eitthvað skrímsli,“ skrifaði sonur Ásthildar Lóu, Þór Símon Hafþórsson, í einlægri færslu á Facebook. Eins og á skólaballi á Hótel Íslandi í gamla daga horfðumst við vandræðaleg í augu í skini ljóskastaranna, maskarinn kominn út á kinn og hálsbindin skökk. Kannski að barnamálaráðherra hafi þá ekki „skriðið upp í til 15 ára stráks“ eftir allt saman. O, jæja; allt gaman tekur enda.
Við dröttuðumst heim og í bælið. Daginn eftir beið okkar fylgifiskur hvers fyllirís. Timburmenn.
Sú myrka skömm
Hraði þykir dyggð í nútímasamfélagi. Hraðbanki, hraðbraut, hraðsuðuketill. Hraðar hendur og háhraðatenging. Endrum og sinnum brýst þó út andóf gegn hraðanum. Hægeldun er bylting sem á sér stað í eldhúsinu; hægur lífsstíll er hreyfing sem breiðist – hægt – um heiminn.
Fordæmingarfyllirí síðustu helgar ber þess skýrt vitni að þörf er á nýrri byltingu, einhvers konar hæglætis hugsun, þar sem við lærum að standast þá freistingu að túlka tilfinningasvörun okkar sem meistararitgerð í stjórnmálafræði og lægstu stundir annarra sem vitnisburð um eigin mannkosti.
„Það er myrkur því þú reynir of mikið,“ skrifaði rithöfundurinn Aldous Huxley. „Létt, barn, létt. Þú verður að læra að gera hlutina létt. Já, finna fyrir hlutunum létt, jafnvel þótt þú finnir fyrir þeim af þunga. Leyfa þeim að gerast létt og lifa með þeim létt.“
Við finnum kannski fyrir atburðum í íslenskri pólitík af þunga skriðdrekans. En kryfjum við stöðuna eins og hjartaskurðlæknir með vélsög fer kjarni málsins fyrir bí.
Sú myrka skömm sem læðist gjarnan að okkur í þynnku er stundum verðskulduð. Það er hún nú.
Göngum hægt um gleðinnar dyr. Góða helgi.
Athugasemdir (2)